Atkvæðagreiðsla um frumvarp um Sementsverksmiðjuna

154. fundur
Þriðjudaginn 06. apríl 1993, kl. 13:55:56 (6917)

     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Það hefur óneitanlega vakið athygli að nokkrir hv. þm. stjórnarandstöðunnar hafa haft þann háttinn á öðru hverju í vetur að ýja svona að því með ýmsum hætti eins og hv. 8. þm. Reykn. að þingmenn stjórnarliðsins sinni ekki þeirri skyldu sinni að fygljast með þingfundum eins og eðlilegt sé og undir þessu er auðvitað ekki hægt að sitja endalaust. Ég kýs þetta tilefni núna sérstaklega til þess að mótmæla þessu vegna þess að það er afar ómaklegt hvernig hv. þm. talaði hér og lét í veðri vaka að stjórn þingsins væri þannig háttað til þess einfaldlega að tryggja það að þingmenn stjórnarliðsins þurfi ekki að sinna þinglegum skyldum sínum. Þetta er auðvitað alrangt. Hins vegar veit hv. þm. það eins og aðrir hv. þm. hér að það er þannig oft og tíðum að hluti af störfum þingsins fer fram utan þingsalarins og það þarf auðvitað ekkert að ræða svo sjálfsagða hluti. Og þess vegna er það oft þannig að þingmenn bæði stjórnarliðsins og stjórnarandstöðunnar, eins og fram hefur komið í þessum þingskapaumræðum í dag, þurfa stundum vegna skyldustarfa sinna að vera staddir utan þingsalarins en gegna engu að síður sínum þinglegu skyldum. Þess vegna er að ekki líðandi að hv. 8. þm. Reykn. skuli kjósa þetta tilefni hér, sem eru umræður um atkvæðagreiðsluna í gær, til þess að vega að stjórnarliðum með þeim hætti sem hann gerði.