Sveitarstjórnarlög

154. fundur
Þriðjudaginn 06. apríl 1993, kl. 16:16:10 (6934)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Þetta frv. til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum sem hér er til umræðu

er árangur af mikilli herferð sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa staðið fyrir í því augnamiði að hér yrði hægt að stækka og fækka sveitarfélögunum. Ég verð nú að segja það alveg eins og er að ég er tiltölulega ánægður með hvernig málin hafa snúist upp á síðkastið vegna þess að til að byrja með virtist af yfirlýsingum ráðherra og forsvarsmanna stjórnarflokkanna sem menn ætluðu að sameina sveitarfélögin með góðu eða illu og það skyldi verða veruleg breyting á samsetningu sveitarfélaganna innan skamms tíma. Ég tel að þær hugmyndir sem eru komnar núna fram um þessi mál séu miklu meira niðri á jörðinni. Menn séu þarna að viðurkenna að þetta verkefni er ekki eitthvað sem menn geta kastað sér út í og klárað á stuttum tíma og það þurfi jafnvel að draga heldur meira úr hraðanum á þessu máli heldur en þegar hefur verið gert. Ég held að t.d. tímamörkin sem sett eru í sambandi við kosningar séu of þröng og það verði að viðurkenna það að sveitarfélögin þurfi að fá að taka sér til þess allan þann tíma sem þau telja sig þurfa til að ganga þessa göngu til enda.
    Ég tel líka að það eigi ekki við sem stundum hefur viljað bregða fyrir í þessari umræðu að vera að nefna það sem menn taka jafnvel sem hótun. Ég held því ekki fram að menn hafi raunverulega hótað því, en það hefur komið fram í umræðunni að þær hugmyndir sem voru uppi hér áður um að það ætti að hækka lágmarksíbúafjölda í sveitarfélögum frá því sem hann er núna með lögum þannig að sveitarfélögin neyddust til sameiningar vegna þess að mannfjöldi færi niður fyrir einhverjar, við skulum segja 150 eða 200 manneskjur. Ég vona að slíkar hugmyndir séu ekki lengur í hugum manna og að sveitarfélögunum verði gert kleift að glíma við þetta vandamál sjálfum og að umræðan skili því sem hún á að skila, þ.e. að menn skoði þessi mál vandlega, beri saman þær lausnir sem menn hafa núna í þessum sveitarstjórnarmálum og þá möguleika sem hægt er að velja um og að það verði gert á grundvelli vandlega athugaðra mála það sem gert verður.
    Ég ætla að fara örfáum orðum um frv. sjálft eins og það liggur hér fyrir og þá liði sem þar eru settir fram. Í 1. tölul. segir:
    ,,Stjórnir landshlutasamtaka skulu frá 1. júní 1993 kjósa fimm til níu manna umdæmanefndir á starfssvæðum allra landshlutasamtaka sveitarfélaga.`` Það er óeðlilegt að setja sveitarfélögunum þannig fyrir eins og þarna er gert. Það segir áfram:
    ,,Hlutverk umdæmanefnda er að gera tillögur að nýrri skiptingu hvers landshluta í sveitarfélög í samráði við viðkomandi sveitarstjórnir. Jafnframt er hlutverk þeirra að hafa yfirumsjón með kynningu á sameiningartillögunum og að sjá um almenna atkvæðagreiðslu um þær.`` Það er óeðlilegt að Alþingi ákveði hvaða aðili innan landssamtaka sveitarfélaga, landshlutasamtakanna kjósi umdæmanefndina. Það er eðlilegra að landshlutasamtökin ákveði þetta sjálf, þ.e. að annaðhvort verði umdæmanefndin kosin á fundi landshlutasamtakanna sem væri eðlilegast eða að sami fundur feli stjórn eða öðrum að skipa nefndina.
    Í 2. lið er talað um að umdæmanefndir ákveði hver fyrir sig í samráði við landshlutasamtök sveitarfélaga á svæðinu hvenær almenn atkvæðagreiðsla skuli fara fram um sameiningartillögu. Þar er talað líka um, ef ég man rétt --- í tillögu sveitarfélaganefndarinnar sem ég vil vitna og í þeim drögum að frv. sem kynnt voru í nefndinni var ekki tekið fram að sveitarstjórn álykti ekki um tillögur umdæmanefndar eins og þarna er gert heldur er það látið í sjálfsvald hverrar sveitarstjórnar hvernig hún lýkur umræðu um tillögu umdæmanefndarinnar. Ég fæ ekki séð hvernig er hægt að banna sveitarstjórninni að álykta um mál eins og þarna kemur fram.
    Í 3. lið segir að verði ekki af sameiningu á grundvelli atkvæðagreiðslu skv. 2. tölul., þá sé umdæmanefnd heimilt að leggja fram nýja tillögu og skal það gert fyrir 15. jan. 1994. Það kom fram í umræðum í nefndinni, það er mér kunnugt um, að slík tillaga yrði ekki gerð nema fyrir lægi rökstudd ástæða til að halda að hugur sveitarstjórnarmanna eða fólksins á svæðinu stæði til annarrar sameiningar heldur en kosið var um. Og ég hefði talið að það væri full ástæða til þess að það kæmi þarna líka fram.
    Það er líka hægt að segja í sambandi við 3. tölul. að það vantar skilyrði fyrir þessari síðari umferð. Heimildin samkvæmt skýrslu sveitarfélaganefndar var bundin því að umdæmanefndin telji að vilji íbúanna standi til annars konar sameiningar og þetta skilyrði eins og ég var að segja áðan hefði þurft að vera í textanum.
    Um kostnaðinn af þessu, þ.e. störf umdæmanefndar, samráðsnefndar og sveitarfélaganefndar, ætti að vera eitthvert ákvæði og það þyrfti að mínu viti að koma fram að þessar greiðslur ættu ekki að skerða Jöfnunarsjóð sveitarfélaganna en það gerist ef menn láta þetta ganga fram eins og það er.
    Vegna þess að gert er ráð fyrir því að einfaldur meiri hluti ráði niðurstöðu í þessum kosningum sem þarna er gert ráð fyrir, þá vil eg minna á það að hv. alþm. Kristinn H. Gunnarsson hefur flutt frv. til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum og eðlilegast hefði verið að sú breyting yrði þá samþykkt áður en þessi tillaga fengi afgreiðslu.
    Þá er rétt að benda á þá tillögu að skipa samráðsnefnd sem á að leggja fram tillögur á næsta ári um verkaskiptingu og tekjustofna, þ.e. áður en tilraunasveitarfélögin tækju til starfa og þar með áður en metin er reynslan af þeim, en það er eðlilegt að á grundvelli reynslunnar verði tekin ákvörðun um verkefnaskiptingu en í frv. vantar skilgreiningu á hlutverki samráðsnefndarinnar.
    Það er gert ráð fyrir því eða var a.m.k. talað um það í hópi þeirra manna sem eru í þessari sveitarfélaganefnd að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga ætti að fjármagna sérstakt átak vegna sameiningar sveitarfélaganna og reynslu sveitarfélaganna. Það er kannski rétt að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hann sé búinn að gera sér hugmyndir um það hvernig eigi að fjármagna þetta sérstaka átak vegna sameiningar sem er talað um og hvaða tekjur Jöfnunarsjóðurinn á þá að fá til að standa undir þessu átaki. Verður ekki að breyta lögunum um sjóðinn núna þá jafnhliða svo hann geti fjármagnað þetta eins og jöfnun á fjárhagsstöðu sveitarfélaga, vegaframkvæmdum og öðrum samgöngubótum svo að eitthvað sé nefnt sem er nauðsynlegt skilyrði sameiningarinnar?
    Einnig mætti spyrja, og ég óska eftir því að hæstv. ráðherra tjái sig um það, hvort hann ætli ekki að gangast fyrir jafnhliða sameiningu sveitarfélaganna að endurskoðun verði á umboðsvaldi í héraði, þ.e. að þar sem þannig hagar til verði reynt að láta umboðsvald ríkisins vera í samræmi við þau mörk sveitarfélaganna sem verða eftir að sameining hefur farið fram.
    Ég geri ráð fyrir því að það geti orðið langar umræður um þessi mál þegar þau koma frá nefnd, en ég tel að það sé ástæða til þess að félmn. skoði þetta mjög vel og hún þarf vitanlega að hafa samráð við einhverja aðila þó að ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að eins og hefur verið staðið að undirbúningi málsins, þá eru sveitarfélögin búin að vera ,,primus motor`` í því að undirbúa málið og það er búið að koma til móts við þau í flestöllum tilvikum, þá tel ég að það sé ástæða til að hugsa sig um með það hvort það eigi ekki að hafa einhverja samráðsfundi við forustumenn í sveitarfélögunum sem ekki hafa kannski tekið þátt í þessari vinnu og að alla vega verði gengið úr skugga um það að ekki leynist veruleg andstaða við þessar hugmyndir sem hefur kannski ekki komið fram í umfjöllun nefndarinnar.
    Nú hefur verið farið hringinn í kringum landið og hlustað á sveitarstjórnarmenn í hinum dreifðu byggðum og bæjum landsins, en það má náttúrlega segja um þá umfjöllun að hún hefur sjálfsagt eingöngu snúið að kostum sveitarstjórnarmanna. En það eru fleiri sem þurfa að koma að þessu máli og það verða auðvitað íbúarnir sem segja sitt að lokum um það hvort þeir séu tilbúnir til að skrifa upp á þessar hugmyndir. Það sem hefði nú kannski vantað til þess að það væri fullkomlega staðið að þessum málum eins og ætti að gera hefði verið að reyna að mynda einhvers konar samráð eða umfjöllun með almennum íbúum þar sem hefði verið t.d. lýst eftir athugasemdum og reynt að finna fyrir fram hvaða vandamál muni koma upp því að auðvitað munu ýmis vandamál koma upp þegar hinir almennu íbúar í sveitarfélögunum allt í kringum landið fara að ræða um þær tillögur sem verða lagðar fram. Ég legg áherslu á það sem ég sagði í upphafi að við megum ekki ganga að þessu verki eins og hverjum öðrum moldarmokstri. Við verðum að láta fólkið í sveitarfélögunum allt í kringum landið fá að hafa úrslitaorðið í þessum málum og til þess að lendingin verði sem farsælust, þá þurfa menn að undirbúa málin vel.
    Ég tel að málið hafi að mörgu leyti farið í betri farveg heldur en mér fannst það ætla að vera í í upphafi og vonast til þess að það haldi áfram að snúast á betri veg, en til þess að það gerist verða menn að átta sig á því að það má ekki láta óþolinmæði hafa áhrif á framgang málsins. menn verða að gefa sér allan þann tíma sem þarf til þess að vinna að þessu.