Heilbrigðisþjónusta

154. fundur
Þriðjudaginn 06. apríl 1993, kl. 16:58:41 (6939)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. ábendingarnar og vil gjarnan í mjög stuttu máli svara þeim.
    Í fyrsta lagi er það ekki alveg rétt að hér sé um að ræða aukna miðstýringu vegna þess að það stendur hér í 4. tölul. 19. gr., samkvæmt 1. gr. frv., að hlutverk Heilsuverndarstöðvarinnar í Reykjavík skuli m.a. vera: ,,Að annast forvarnastarf og hýsa opinbera starfsemi á því sviði samkvæmt ákvörðun ráðherra.`` Þarna er því ekki verið að fella viðfangsefni eins og manneldisráð, áfengisvarnaráð, tóbaksvarnanefnd, tannvernaráð o.fl. undir stjórn Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur, heldur er hlutverk Heilsuverndarstöðvarinnar sem stofnunar að hýsa suma af þessari starfsemi þannig að hér er ekki verið að auka miðstjórnarvaldið heldur er verið að stefna a.m.k. fyrst um sinn að óbreyttri starfsemi þessara viðfangsefna en þó þannig að hún sé undir einu þaki og að samræming skuli fara fram í heilsuverndarráði sem er skipað fulltrúum Heilsuverndarstöðvarinnar og þessara viðfangsefna.
    Í öðru lagi skal ég alveg viðurkenna það að ég tók tillögurnar og flutti þær eins og þær komu frá nefndinni. Það er ekkert sérstakt kappsmál hjá mér að leysa frá störfum formenn fjögurra heilsugæslustöðva í Reykjavík, því að ég vil taka það fram að ég hef átt ágætt samstarf við þessa menn þó að þeir séu allir saman eftir því sem ég best veit framsóknarmenn og skipaðir af fyrrv. ráðherra þannig að þetta var ekki flutt sem neitt sérstakt kappsmál af minni hálfu. Hins vegar fyndist mér það rétt og mundi koma því áleiðis við nefndina að hún athugaði hvort ekki væri rétt að gera þá breytingu á þessu frv. að í 1. tölul. 2. gr. frv., sem fjallar um stjórnir heilsugæsluumdæma í Reykjavík, skuli sagt að skipunartími formanns skuli miðast við starfstíma ráðherra þannig að ef þetta er eini fulltrúinn sem ráðherra á í stjórnum heilsugæslustöðva og sjúkrastofnana víðs vegar um land og það er mjög eðlilegt finnst mér að það sé gert ráð fyrir því að sérhver ráðherra sem kemur nýr til starfa geti a.m.k. átt kost á því ef hann svo vill að endurskipa fulltrúa sína í stjórnum þessara stofnana þannig að það þurfi ekki að fara svo þó að ég vilji taka það skýrt fram að það hafi aldrei komið upp neinn árekstur á milli mín og fulltrúa heilbrrh. í stjórnunum, að það geti þá a.m.k. komið þannig upp að hann geti átt kost á því að setja sína fulltrúa í stjórnina ef hann svo kýs og vildi ég gjarnan koma því á framfæri við hv. nefnd.
    Það er rétt til getið hjá hv. þm. að þarna hefur orðið prentvilla, stendur ,,framkvæmdastjóri`` í staðinn fyrir forstjóri í 4. tölul. 2. gr. og vonast ég til þess að nefndin leiðrétti það.