Sveitarstjórnarlög

154. fundur
Þriðjudaginn 06. apríl 1993, kl. 21:28:17 (6953)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Hér hafa orðið gagnlegar umræður um það frv. sem hér er til umræðu og ég tel að hægt sé að draga af þessum umræðum þær ályktanir að góð samstaða geti tekist um framgang málsins þó menn hafi velt hér upp ýmsu sem þeir telja að sé álitamál vegna sameiningar sveitarfélaga. Ég tel ekki ástæðu til þess að hafa mörg orð frekar um þetta mál en vil þó svara nokkrum spurningum sem til mín hefur verið beint.
    Hv. 6. þm. Vestf. spurði hvort búið væri að skipa þá samráðsnefnd sem gera á samkvæmt ákvæðum þessa frv. Hún hefur eðli máls ekki verið skipuð enn en verður skipuð strax og þetta frv. hefur verið lögfest hér frá Alþingi. Hlutverk þessarar nefndar er að vera umdæmanefndum til ráðuneytis í störfum sínum og að undirbúa tillögur um frekari framvindu málsins, m.a. um flutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga, svo og nauðsynlegar breytingar á tekjustofnum sem leiða af verkefnatilfærslu.
    Varðandi það sem hv. 3. þm. Vesturl. nefndi um endurskoðun á umboðsvaldi ríkis í héraði, þá vil ég taka undir það og reyndar er það gert einnig í skýrslu sveitarfélaganefndarinnar og kemur þar m.a. fram að sveitarfélaganefndin leggur til að jafnhliða eflingu sveitarstjórnarstigsins taki ríkið til gagngerðrar endurskoðunar umdæmamörk og verkefni umboðsvalds ríkis í héraði þannig að að þessu máli hefur verið hugað sérstaklega.
    Varðandi Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, sem ég hygg að bæði hv. 3. þm. Vesturl. og hv. 6. þm. Vestf. nefndu hér, þá er það auðvitað mikilvægt ákvæði sem þar kemur fram sem snertir þessar sameiningar. Það er kveðið á um það í skýrslu sveitarfélaganefndarinnar að hún leggur til að reglum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verði breytt þannig að sjóðurinn fjármagni í fimm ár, 1994--1998, sérstakt átak vegna sameiningar sveitarfélaga.
    Hv. 3. þm. Vesturl. spurði hvort ekki þyrfti að lögfesta á þessu þingi þær breytingar sem þyrfti að gera á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Ég tel að svo þurfi ekki að vera. Það á einmitt að vera samstarfsverkefni þessarar samráðsnefndar með aðild Sambands ísl. sveitarfélaga og ríkisins að skoða einmitt þennan þátt og hverju nákvæmlega þurfi þá að breyta varðandi Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og hvaða samkomulagi menn þá ná um fjármagn í þann sjóð í fimm ár vegna þessa sérstaka átaks. Tel ég að það sé nægilegt að lögfesta þær breytingar á haustþingi komandi ef það næst almenn samstaða um sameiningarmál sveitarfélaga.
    Það sem hv. 4. þm. Norðurl. e. nefndi, hann orðaði það svo að ríkisstjórnin hefur verið að þvinga í gegn hugmyndum um sameiningu sveitarfélaga, talaði um flumbrugang og fleira í þeim dúr, tek ég ekki mjög alvarlega og tel þetta ekki vera réttmæta gagnrýni hjá hv. þm. Ég vil í því sambandi vitna til þess að 47. fundur Sambands ísl. sveitarfélaga, haldinn í Reykjavík 23. nóv. 1991, lýsti yfir stuðningi við svokallaða leið tvö sem var sú leið, ein af þremur, sem sveitarfélaganefndin hafði lagt fram til umræðu en sú leið gekk lengst. Samband ísl. sveitarfélaga mælti með þeim kosti að unnið yrði áfram í málinu eins og kostur er sem tæki mið af leið tvö. Á öllum stigum málsins hefur því verið farið að því sem Samband ísl. sveitarfélaga hefur lagt til. Þeir lögðu til í nóvember 1991 að skoða þennan kostinn og sveitarfélaganefndin gerði það, vann með þann kost áfram. Síðan fóru þær hugmyndir í umræðu hjá sveitarfélögunum og hjá Sambandi ísl. sveitarfélaga og eftir þá umræðu kom ný ályktun frá fulltrúaráði Sambands ísl. sveitarfélaga sem gekk skemur en fyrri ályktunin. Þá var um leið farið að þeirri tillögu sem fulltrúaráðsfundurinn síðasti ályktaði um. Ég tel að þetta sé óréttmæt gagnrýni að kenna ríkisstjórninni um það að hún hafi viljað fara aðrar leiðir en Samband ísl. sveitarfélaga vegna þess að á þær hugmyndir sem hafa verið lagðar á borð ríkisstjórnarinnar hefur hún fallist í hvert skipti. Það hafa í öllum tilvikum verið hugmyndir og tillögur Sambands ísl. sveitarfélaga og fulltrúaráðsins. (Gripið fram í.) Ég hef ekkert leynt þeirri skoðun minni, hv. þm., að ég tel að það sé íbúum þessa lands fyrir bestu ef það næðist samstaða um það að ganga lengra í þessu máli heldur en nú er ætlanin en ég sætti mig vel við þessa niðurstöðu og met það að náðst hefur breið samstaða um þetta mál.
    Varðandi tímamörkin sem hv. þm. nefndi sem hann taldi mjög knöpp í þessari tillögu, að tillögur umdæmanefndarinnar eigi að vera tilbúnar fyrir 15. sept. 1993. Allar þær dagsetningar sem hér eru nefndar þær hafa orðið til í sameiningarnefnd sveitarfélaga og hafa verið unnar í fullu samráði við Samband ísl. sveitarfélaga, fulltrúa stjórnmálaflokkanna sem áttu sæti í nefndini og fulltrúa Sambands ísl. sveitarfélaga og frv. var á öllum stigum kynnt Sambandi ísl. sveitarfélaga. Ég hygg að menn hafi haft það fyrir sér að það væri nauðsynlegt að reyna að klára málið fyrir 1. des. og þá bæði með tilliti til þess að veðurfar gæti breyst í desember og janúar og það sé nauðsynlegt að ljúka þessu fyrir þann tíma og einnig hygg ég að menn hafi haft í huga sveitarstjórnarkosningar á næsta ári að það væri rétt að ljúka þessu máli áður. Ég tel, af því að hv. þm. nefndi það að skoða þyrfti þessar dagsetningar í nefnd, auðvitað sjálfsagt að nefndin skoði þær dagsetningar og það sé ekki útilokað að hafa meiri sveigjanleika varðandi 15. sept. ef það væri um að ræða viku eða hálfan mánuð í viðbót, en engu að síður tel ég að málinu þurfi að vera lokið fyrir 1. des. en það er auðvitað nefndarinnar að fjalla um það mál.
    Varðandi íbúatöluna sem hv. þm. nefndi og talaði um hótanir af minni hálfu um að lögfesta lágmarksíbúatölu ef sameiningarmálin gengju ekki eftir, tel ég að hv. þm. gangi enn of langt í sinni gagnrýni vegna þess að í fyrsta lagi hefur Samband ísl. sveitarfélaga fyrir þremur árum síðan ályktað um lágmarksíbúatölu, 400 íbúa. Ég vil einnig nefna það að í þessari síðustu ályktun fulltrúaráðsfundarins kemur fram, með leyfi forseta: ,,Á næsta landsfundi sambandsins verði tekin afstaða til þess hvort lágmarksíbúatala í hverju sveitarfélagi skuli hækkuð.``
    Það sem ég hygg að vaki hér fyrir fulltrúaráðinu er að meta hver niðurstaðan verði um sameiningu sveitarfélaga og taka síðan afstöðu til þess á grundvelli þess hvort þá sé rétt að lögfesta lágmarksíbúatölu. Mér heyrðist að hv. þm. vildi ekki hafa þá skipan á málunum, frekar að lögfesta lágmarksíbúatöluna fyrst og síðan að ganga til sameiningar en þetta er niðurstaða Sambands ísl. sveitarfélaga og fulltrúaráðsins sem ég hef farið í einu og öllu eftir og ég hef sagt það að ég tel að það hljóti að koma til

skoðunar hjá sveitarstjórnarmönnum hvort ekki sé rétt að lögfesta lágmarksíbúatölu ef lítið kemur út úr þessum sameiningum. Þannig að hér er ekki um að ræða, eins og hv. þm. sagði, að ég væri uppi með hótanir og ég mundi breyta að eigin geðþótta þessum ákvæðum eða leggja það til við Alþingi varðandi lágmarksíbúatöluna. Það er auðvitað fyrst og fremst landsþings Sambands ísl. sveitarfélaga að fjalla um það á næsta ári með hliðsjón af þeirri niðurstöðu sem verður í sameiningarmálunum.
    Ég læt máli mínu lokið, virðulegi forseti.