Skipulagslög

154. fundur
Þriðjudaginn 06. apríl 1993, kl. 23:40:10 (6989)

     Auður Sveinsdóttir :
    Virðulegur forseti. Hér er til umfjöllunar frv. til laga um breytingu á skipulagslögum er varðar skipulag á miðhálendi Íslands.
    Á síðasta þingi lagði hæstv. umhvrh. fram frv. til laga um stjórn skipulags- og byggingarmála á miðhálendinu. Það frv. var mjög ítarlegt og tók yfir marga þætti þessa umfangsmikla máls. Það er ekki hægt að segja annað en að skipulags- og byggingarmál miðhálendisins eða landnýting miðhálendisins sé í raun og veru ekkert smámál. Þar þarf að taka á fjöldamörgum atriðum sem reyndar er reynt í frv. sem hér liggur frammi. En því er ekki að neita að það er allmiklu vængstýfðara heldur en það sem lagt var fram á síðasta þingi. Ástæður fyrir því að það frv. náði ekki fram að ganga voru nokkrar. Helstar voru þær að það var ágreiningur um m.a. mörk þess svæðis, mörk sveitarfélaga sem þar áttu hlut að máli, en ekki hvað síst þann þátt sem varðaði stjórnun skipulagsmálanna, hver ætti að fara með þau mál. Til þess að ráða bót á þessu virðist sem hæstv. umhvrh. sé að reyna að bjarga málinu á vissan hátt með þessu frv. sem hér liggur frammi og er rétt að hafa um það nokkur orð því að það er alveg ljóst að þetta er brýnt mál og ég tel að á einhvern hátt verði að ýta þessum málum áleiðis þó ég harmi að frv. sem var lagt fram hér á síðasta þingi hafi ekki náð fram að ganga.
    Í greinargerð með þessu frv. er talað um að skipa eigi samvinnunefnd þar sem sæti eiga fulltrúar hinna ýmsu héraðsnefnda ásamt fulltrúa ríkisins eða ráðherra, ráðherra skipar sinn fulltrúa. Eitt af því fyrsta sem þessi samvinnunefnd á að gera er að afmarka miðhálendið með línu sem dregin verður milli heimalanda og afrétta. Það á líka að skilgreina eðli skipulagsins, að hvaða leyti það er frábrugðið hefðbundnu svæðisskipulagi. Og þá held ég að það sé rétt að ítreka að ég tel að það sé ekki hægt að tala um hefðbundið svæðisskipulag einfaldlega vegna þess að það er ekkert eitt svæðisskipulag eins og annað. Það eru engin sveitarfélög eins þannig að það er ekki um að ræða neitt hefðbundið form á svæðisskipulagi. Og reynslan sem liggur fyrir af svæðisskipulagsvinnu er enn á það miklu frumstigi að ég held að við getum ekki á þessu stigi dregið neinar beinar ályktanir af því hvernig það á að vera. Eins er það að ef eitt af fyrstu verkefnum þessarar skipulagsnefndar, eins og ég sagði áðan, á að vera að marka þessa línu sem dregin verður milli heimalanda og afrétta, en það held ég að sé í raun og veru mjög brýnt mál, þá óttast ég að aðalatriðið og það sem kannski liggur hvað mest á í sambandi við þessi skipulagsmál, þ.e. að gefa sér þessar skipulagsforsendur. Vegna þess að þegar unnið er að skipulagi þá þarf að gefa sér forsendur um eftir hverju á að vinna. Þar finnst mér vanta mikið á að vinna ákveðna forvinnu í áætlanagerð. Það vantar stefnumörkun. Og til þess að taka dæmi um það þá þurfum við að fá að vita hver er stefnan t.d. í ferðamálum. Á að beina ferðamönnum inn á hálendið? Í hvaða magni á að byggja upp þjónustu þar? Eða á að byggja upp þjónustu í hálendisbrúninni? Þetta tel ég ekki vera verkefni samvinnunefndarinnar, sem frv. fjallar um að einhverju leyti, heldur er þetta veganesti sem þessi nefnd á að fá, þetta er í raun og veru stefnumörkun sem á að liggja fyrir áður en hafist er handa.
    Nú liggja fyrir ýmsar áætlanir um landnýtingu og ákveðna þróun sem á að vera á þessu svæði og á landinu í heild. Hæstv. umhvrh. hefur lagt fram skýrslu um mótun stefnu í umhverfismálum sem byggð er á sjálfbærri þróun. Hún ætti að tengjast inn í þessa vinnu. Byggðastofnun hefur verið að vinna að stefnumótun um gerð byggðaáætlunar eins og var rætt hérna um fyrr í kvöld og síðan hafa verið birtar tillögur frá Orkustofnun um hvernig á að byggja út orkumannvirki á landinu og hvaða svæði á þá að koma til verndunar.
    Þetta eru allt hlutir sem eru þættir í svokölluðu landsskipulagi og mikil upplýsingaöflun hefur átt sér stað þannig að ég held að fyrst þurfi að draga þessa hluti saman áður en hægt er að fara í gang með þessa skipulagsvinnu. Ég sakna þess að í lagafrv. skuli ekki vera gert ráð fyrir að þessi forvinna verði gerð og þessar forsendur gefnar og þessi stefnumörkun þá lögð til grundvallar.
    Það er rétt að benda á að það liggur fyrir heilmikil vinna sem var gerð með landnýtingaráætlun sem kom út 1986. Sú áætlun átti að vera stefnumörkun fyrir landsskipulag. Það hefur ekkert verið unnið í því áfram og er það miður því það er geysilega að ég tel þýðingarmikil vinna sem þar liggur fyrir og full ástæða til að byggja áfram á því. Því að þótt eitthvað þurfi að endurskoða þá er enn margt sem er hægt að nýta og væri hægt að leggja til grundvallar í svona skipulagsvinnu.
    Ég er ekki viss um að sú nefnd sem um getur í frv. verði í raun starfhæf. Því að eins og segir í frv. á nefndin að fá samþykki eða staðfestingu allra sveitarfélaganna innan hverrar héraðsnefndar og ég leyfi mér að draga í efa að það sé framkvæmanlegt innan þeirra tímamarka sem um getur í þessu frv. Þar held ég að séu ákveðnir hlutir sem ekki eru raunhæfir og held að það þurfi að skoða það aðeins betur. Án þess að ég vilji draga úr mikilvægi þess að þarna þurfi að koma til vinna að leysa þessi mál á hálendinu, þá er hérna um að ræða hálfgert neyðarúrræði til þess að leysa þessi aðkallandi mál sem því miður ætti löngu að vera búið að vinna í. Það er á vissan hátt eins og farið sé að byggja húsið áður en grunnurinn er lagður. Slík gleymska eða vanræksla kann aldrei góðri lukku að stýra --- þetta er nú frekar dæmi um ófagleg vinnubrögð.
    Áður en farið er í svona skipulagsvinnu hljótum við að þurfa að fá þessa stefnumörkun ekki síst í ferðamálum. Þar eru neyðarúrræði í dag. Við erum með ferðamannastaði sem eru okkur til mikils vansa og þetta horfir í óefni. Hver er í raun og veru stefnan í ferðamálum? Ætlum við að fá hérna inn 200 þús. eða 250--300 þúsund ferðamenn um aldamótin? Hvert á að beina þeim? Á að beina þeim á hálendið eða á að beina þeim frekar í byggð og byggja upp þjónustu í byggðum landsins eða eins og ég sagði áður að hálendisbrúninni til að taka við þessum ferðamannafjölda? Þetta liggur ekki fyrir og á meðan svona hlutir liggja ekki fyrir þá er heldur ekki hægt að vinna að skipulagi.
    Það sama er með orkumannvirki og vegi. Og þetta tengist í raun allt hvað öðru. Þannig hefði ég viljað að áður en lengra yrði haldið þá væri ítarlegar fjallað um þessar forsendur sem við þurfum að gefa okkur. Ég hefði séð það sem góðan hlut í frv. að þar væri eitthvað meira um náttúruvernd, hvernig eigi að aðlaga þetta þeirri stefnumörkun sem lögð er fram í umhverfismálum sem er úr skýrslu umhvrh. Mér finnst að það eigi að koma þarna inn í --- því voru gerð mjög góð og ítarleg skil í frv. sem ekki náði fram að ganga á síðasta þingi --- áður en þessi breyting er tekin fyrir.
    Ég held að það sé óframkvæmanleg að ná utan um starfhæfa nefnd sem 40 sveitarfélög eiga þátt í. Hún er allstór þessi nefnd sem lagt er til að verði sett á laggirnar. Hins vegar finnst mér verra að enginn innan þeirrar samvinnunefndar sé t.d. frá Náttúruverndarráði eða frá öðrum aðilum sem koma að þessum málaflokki. Mér finnst að þar þurfi eitthvað að endurskoða og bæta úr.
    Ég ætla ekki, virðulegur forseti, að hafa þessi orð öllu fleiri því nú fer að renna hér nýr dagur og mér skilst að þá sé komið að páskaleyfi þingmanna þannig að það er engin ástæða til að fara fram yfir þann tíma. En ég legg til að við áframhaldandi umræður um þetta frv. verði það haft til hliðsjónar að menn gefi sér ákveðnar skipulagsforsendur sem mér finnst ekki koma nógu skýrt fram í því sem hér liggur fyrir.