Skráning og mat fasteigna

155. fundur
Miðvikudaginn 14. apríl 1993, kl. 13:48:54 (6995)

     Rannveig Guðmundsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það er rétt sem kom fram í máli hæstv. fjmrh. að það frv. sem hér er kynnt er einfalt og þarf ekki að hafa um það langa framsögu. Hins vegar hefur umræða um Fasteignamat ríkisins farið fram á vettvangi sveitarstjórna í gegnum tíðina og umfjöllun um hlutverk Fasteignamats ríkisins er eitthvað sem ekki hefur oft átt sér stað í þingsal.
    Þetta frv. mun koma til efh.- og viðskn. sem ég á sæti í og ég hefði mjög mikinn áhuga á því að nefndin kynnti sér ýmislegt sem varðar starfsemi Fasteignamatsins og ýmislegt sem mér sýnist að ætti að skoða þegar sett er fram frv. um þetta fyrirtæki sem varðar sveitarstjórnir svo miklu.
    Mig langar að bera fram nokkrar spurningar til fjmrh. Þetta frv. fjallar um að taka gjald fyrir þjónustu. Hverjir eiga að greiða það gjald? Eru það fyrst og fremst og eingöngu sveitarstjórnir sem eiga að greiða fyrir þá þjónustu sem sveitarfélög fá hjá Fasteignamati ríkisins? Hver er þessi þjónusta við sveitarfélögin? Er þetta þjónusta sem sveitarfélögin óska eftir?
    Þessi starfsemi, sem hér er fjallað um, er grundvöllur að fasteignagjöldum sem er einn af stórum tekjustofnum sveitarfélaganna. Hins vegar ráða sveitarfélögin mjög litlu um það hvernig stofninn eða grundvöllurinn að þessum fasteignagjöldum verður til. Hver er það sem ræður stuðlinum sem aftur veldur því hvort fasteignir eru metnar hátt eða lágt og hvernig virkar stuðullinn?
    Nú er það svo, virðulegi forseti, að ég hef ekki hin allra síðustu ár kynnt mér hvernig þessi mál eru og hvort þau hafa breyst. En þegar ég var að skoða stuðlana og virkni Fasteignamatsins á m.a. fasteignir í sveitarfélögum og þar með gjaldtöku og mismun hennar hjá sveitarfélögum, þá var það þannig að gert var mat á húsum. Síðan var gert endurmat, t.d. á nýjum húsum ef þau voru fullgerð. Þá voru tilkynntar allar sölur á fasteignum frá öllum fasteignasölum í sveitarfélaginu. Það var tekið mið af fjölda og þar með eftirspurn eftir eignum í sveitarfélagi. Eftirspurnin var mæld og sett inn í stuðulinn. Stuðullinn hækkaði, fasteignagjöldin hækkuðu, verð hækkaði og áfram fór þetta í hringrás inn í stuðulinn sem hafði þau áhrif að að þar sem eftirspurn eftir húsnæði var mikil, þar sem m.a. var mikil atvinna, hækkaði stuðullinn stöðugt og mat fasteigna. Þar sem einhver samdráttur var eða aðrar þær aðstæður að eftirspurn eftir húsnæði var minni varð verðfall, fasteignagjöld lækkuðu o.s.frv. Það var komið til móts við þennan vanda með því að að landsbyggðinni var heimilað að taka mið af fasteignamati á öðrum stöðum á landinu, þ.e. á þéttbýlissvæðinu, við álagningu fasteignagjalda á stöðum þar sem ástandið var orðið þannig að það var nærri því eignaupptaka hjá fólki vegna þess hve fasteignamat á húsum lækkaði mikið.
    Flestöllum sveitarstjórnarmönnum sem ég þekki til og hef átt viðræður við um þessi mál hefur þótt þetta mjög undarlegt. Þeir hafa margir sett fram þessa spurningu: Hvers vegna er verið að meta fasteignir á mörgum stöðum? Hvers vegna þarf fasteignamat sem heil stofnun, Fasteignamat ríkisins, er að vinna við að meta og endurmeta og setja fram stuðla um, að vera að störfum þegar líka eru starfandi stofnanir sem byggja á tryggingum vegna brunabótamats og þar sem jafnframt er verið að meta vegna brunamatsins og brunabótaáætlunar? Menn hafa spurt sig í öllum þessum samdrætti, öllum þeim áætlunum um að reyna að komast af með fáar stofnanir: Af hverju á ekki að færa mat á fasteignum algerlega inn í brunabótamatið og láta sveitarstjórnirnar sjálfar sjá um framhaldið á því sem þarf að gera varðandi fasteignagjöld, álögur og annað slíkt? Hvers vegna að vera með þessa stóru og miklu stofnun, sem ríkið ætlar nú að losa af sínum fjárlögum væntanlega með því að flytja það yfir á kostnað sveitarfélaganna, ef það er rétt hjá mér, virðulegi forseti, að það séu sveitarstjórnirnar sem greiða þetta gjald til Fasteignamats ríkisins.
    Ég hefði óskað þess að fá tækifæri til þess þegar átti að hrófla við þessari stofnun að taka þátt í umræðu um hana. Á hún að eiga framtíð fyrir sér? Á hún rétt á sér? Eiga sveitarfélögin að ráða því hvernig hún er ef hún á að verða við lýði áfram eða á að hafa þetta áfram stofnun á vegum ríkisins sem veldur því sem ég hér hef hreyft?
    Mér finnst mjög mikilvægt að skoða þetta mál og ekki sé bara kannað að losa hana af fjárlögum ríkisins yfir í B-hluta þannig að sveitarstjórnirnar fari að halda stofnuninni uppi, heldur að kalla til skoðun sveitarstjórnarmanna á því hvort þeir telja þörf á þessari stofnun. Á hún að vera á þann veg sem hún er í dag? Hver á að breyta henni ef hún á að breytast?
    Ég minni á það, virðulegi forseti, að annar nokkuð stór hópur sveitarstjórnarmanna úr öðrum stjórnarflokknum hefur einmitt ályktað um að skoða eigi hvort leggja skuli þessa stofnun niður. Mér fannst nauðsynlegt, miðað við þá skoðun sem ég hef alla tíð haft á þessu máli og verið í hópi þeirra sem hafa talið að Fasteignamat ríkisins sé allt að því óþörf stofnun, þá get ég ekki, virðulegi forseti, þó bara sé verið að fjalla um að flytja þetta til innan fjárlagarammans, annað en komið hér upp og lýst þessari skoðun minni, ekki síst þar sem það kemur í minn hlut að fjalla um þetta mál í nefnd þegar það er komið til nefndar.