Alþjóðlegur sjávarútvegsskóli

156. fundur
Fimmtudaginn 15. apríl 1993, kl. 10:57:22 (7050)

     Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Mínar hugmyndir varðandi alþjóðlegan sjávarútvegsskóla eru þess eðlis að hann skæri á hin hefðbundnu tengsl á milli framhaldsskóla, verkmenntaskóla og háskóla. Að því er varðar þær deilur sem hv. þm. Finnur Ingólfsson vísaði í hér í fyrri viku og vörðuðu tillögu hans og hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar, þá er það rangt hjá honum að ég hafi lagst gegn tillögunni. Hið eina sem ég gerði

vegna þess að ég hef mikið álit á hv. þm. Finni Ingólfssyni og tel hann vandaðan til orðs og æðis, var að furða mig á því að skólastjórar þessara þriggja skóla sem hann lagði til að yrði slegið saman í einn, höfðu skrifað grein og undruðust mjög ýmsar rangfærslur og misskilning sem kom fram. Ég benti þingmanninum á að hann ætti e.t.v. að leita sér gleggri upplýsinga.
    Ég vil að öðru leyti, virðulegi forseti, þakka hæstv. forsrh. fyrir svar hans sem ég tel vera mjög jákvætt. Þar kemur fram að það er búið að setja niður starfshóp sem á að kanna möguleika á þessu sviði. Mér fannst að vísu verksvið starfshópsins vera tiltölulega loðið, en ég fagna því hins vegar að í lok síns svars lýsti hæstv. forsrh. því yfir að það væri skoðun hans að það væri mjög þarft að setja slíkan skóla á fót á Íslandi. Ég tek það svo að hann muni beita sér fyrir því innan ríkisstjórnarinnar þegar búið er að leita allra þeirra upplýsinga sem þarf til. En ég bendi á það að á Íslandi er búið að safna saman mjög mikilli þekkingu og mjög mikilli reynslu og ég er ekki í nokkrum vafa um það að við erum mjög aflögufær á þessu sviði og það sannar einmitt hversu stíft erlendar, vanþróaðar þjóðir sækja nú til Íslendinga um aðstoð á þessu sviði. Ég tel að í því felist viðurkenning á því að þær telji að hingað geti þær sótt mikla þekkingu og við eigum auðvitað að svara því. Við eigum að koma þessu fólki til aðstoðar og við eigum um leið að reyna að nota það til þess að efla okkar útflutning. Þær þjóðir sem hafa leitað til Íslendinga eru allt saman þjóðir sem búa við mjög frumstæðan sjávarútveg. Öll uppbygging á eftir að fara þar fram. Ef við komumst til leiksins á frumstigi þeirrar uppbyggingar þá er alveg ljóst að þar bíða okkar ómæld tækifæri. Ég tel því að svona skóli muni skila sér margfalt til baka.