Heimili fyrir alfatlaða

156. fundur
Fimmtudaginn 15. apríl 1993, kl. 11:03:30 (7052)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Herra forseti. Fyrsta spurning hv. þm. hljóðar svo:
    ,,Hver var byggingarkostnaður heimilis fyrir alfatlaða sem byggt var í landi Reykjalundar?``
    Byggingarkostnaður heimilisins var samtals 77,9 millj. kr. að meðtöldum framkvæmdum við lóð og göngustíga. Skipting er um 70 millj. vegna hússins sjálfs og 7,9 millj. vegna umhverfis.
    Síðan er spurt í öðru lagi:
    ,,Hvernig var byggingin fjármögnuð, með
    a. söfnunarfé,
    b. framlögum úr Framkvæmdasjóði fatlaðra,

    c. öðru?``
    Svarið við þessari spurningu er að söfnunarfé Lions var samtals um 34 millj. kr. Ríkissjóður hefur lagt byggingunni til samtals 44 millj. kr., fyrst og fremst úr Framkvæmdasjóði fatlaðra en einnig úr ráðstöfunarfé heilbr.- og trmrh. þannig að það er ljóst að verulega meira en helmingur af byggingarkostnaðinum kom úr ríkissjóði.
    Í þriðja lagi var spurt:
    ,,Hvenær var húsið fullbyggt?``
    Lokaúttekt var í apríl 1992.
    Í fjórða lagi var spurt:
    ,,Hvað var gert ráð fyrir mörgum vistmönnum við hönnun hússins?``
    Svarið við þeirri spurningu er að vistmenn verða 7 talsins.
    Spurt er hvenær húsið verði tekið í notkun. Stefnt er að því að heimilið verði tekið í notkun strax í upphafi ársins 1994. Fyrstu áætlanir um útgjöld við rekstur hússins námu um 45 millj. kr. í rekstrarkostnað á ári sem er rúmlega helmingur af stofnkostnaði heimilisins. Nú hefur rekstraráætlun verið endurskoðuð þar sem væntanlegir forsvarsmenn þessa rekstrar telja þegar betur er að gáð að heimilið henti ekki fyrir mjög mikið fatlaða vistmenn. Sú er þeirra niðurstaða nú þannig að nýjustu upplýsingar sem við í heilbrrn. höfum fengið um væntanlegan rekstrarkostnað miðað við heilt ár eru 25 millj. kr.