Framleiðsla og sala á búvörum

157. fundur
Fimmtudaginn 15. apríl 1993, kl. 11:56:49 (7068)


     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka svör ráðherra sem voru skýr hvað þetta snerti, sambandið á milli þessara þátta sem ég nefndi hér áðan. Hins vegar fannst mér ráðherra gera nokkuð lítið úr þessari bókun með tilliti til þess að í henni var tekin fram ákveðin upphæð, til hvaða verkefnis hún ætti að renna og undirritað af tveim ráðherrum þáv. hæstv. ríkisstjórnar.
    Varðandi hins vegar það sem hæstv. ráðherra sagði um að vegna hins erfiða efnahagsástands hefði ekki verið hægt að fara eins hratt í starfsemi að uppgræðslu og gróðurvernd og menn höfðu ætlað, þá held ég nú reyndar að því mætti alveg eins snúa við og segja að einmitt í þessu erfiða atvinnuástandi væri svigrúm til þess og vinnufúsar hendur til þess að taka þátt í slíku starfi. Það er alveg ljóst að í okkar þjóðfélagi ætlum við ekki að láta nokkurn þjóðfélagsþegn lifa við algjöra örbirgð þannig að allir þurfa sína framfærslu og ég veit ekki hvað gæti verið heilbrigðara verkefni einmitt í ástandi eins og nú er heldur en að vinna að gróðurvernd og uppgræðslu. Mörg þeirra verkefna eru þess eðlis að það þarf ekki mikla aðra peninga heldur en það sem þarf fyrir hinar vinnandi hendur.