Utanríkismál

158. fundur
Föstudaginn 16. apríl 1993, kl. 18:09:50 (7139)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. 3. þm. Reykv., Björn Bjarnason, er ósporlatur og viljugur að koma í ræðustólinn og leggja óumbeðinn framlag sitt til málanna. Ég held að það sé langbest að menn lesi bara þær umræður og þau orð sem hafa fallið og láti það tala fyrir sig sjálft en reiði sig ekki um of á túlkanir hv. þm. Björns Bjarnasonar.
    Hins vegar er líklega rétt hjá hv. þm. að viss ágreiningur á milli okkar, þ.e. mín og hv. þm. Björns Bjarnasonar í þessum efnum, er nokkuð ljós. T.d. þegar ég les þá skýrslu, sem hann á aðild að um öryggis- og varnarmál Íslands, eru þar náttúrlega brandarar sem ég veit svo sem ekki hvort á að taka allt of alvarlega en er alveg ljóst að ég gæti ekki skrifað undir. Ég fór bara yfir það í máli mínu t.d. hvernig ég teldi vænlegast í framhaldinu að reyna að tryggja nýskipan öryggismála í heiminum. Ég er sammála því að menn eiga ekkert að gefa sér fyrir fram í þeim efnum að um þá hluti þurfi að verða ágreiningur. En það er fullkomlega eðlilegt á þessu stigi málsins þegar mjög margt af þessu er breytingum undirorpið og mjög frjó umræða fer fram um þessa hluti, m.a á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, séu uppi ýmis sjónarmið í þeim efnum. Sumir eru e.t.v. þeirrar skoðunar að eitthvað sé púkkandi upp á þessar leifar kalda stríðsins sem hernaðarbandalögin eru. Ég er það ekki. Ég hef ekki þá tilfinningu að það sé til frambúðar vænlegasta lausnin, jafnvel þó að menn kunni að þurfa að grípa til þess við ríkjandi aðstæður þegar hörmungar ganga yfir að fela slíkum aðilum eitthvert hlutverk og allt gott um það að segja. Menn verða auðvitað að grípa það og reyna að leita allra leiða og nota það sem hægt er við aðstæður eins og nú eru í Júgóslavíu en menn eiga ekki að rugla því saman við hvað menn telji vænlegast fyrirkomulag þessara mála til framtíðar litið. Það held ég að alþjóðlegt öryggiskerfi á vegum Sameinuðu þjóðanna, sem sé allt öðruvísi upp byggt en gömlu hernaðarbandalögin, sé miklu vænlegri kostur.