Almannatryggingar

159. fundur
Mánudaginn 19. apríl 1993, kl. 14:57:00 (7167)

     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er aðeins spurning til hæstv. heilbr.- og trmrh. út af því sem ég kom inn á áðan í minni fyrri ræðu þegar ég spurði hvort hæstv. ráðherra fyndist það koma til greina að hv. heilbr.- og trn. tæki ýmsa hluti í þessu frv. til skoðunar er snúa að rýmkun á bótarétti, hækkun á bótum til einstaklinga sem njóta almannatrygginganna í dag en jafnframt þá á móti þessu til að auka ekki heildarútgjöldin legði nefndin til einhvern ákveðinn niðurskurð og sparnað á ýmsum öðrum sviðum þannig að útgjöldin mundu ekki aukast við slíka breytingu. Ég spyr hæstv. heilbr.- og trmrh.: Finnst honum slík vinna af hálfu nefndarinnar koma til greina?
    Að öðru leyti hjó ég eftir því þegar ráðherrann var að svara okkur sem höfðum tekið til máls og gat um þau viðfangsefni sem menn þyrftu að velta fyrir sér, hvað sveitarfélögin og ríkisvaldið ættu að gera, var hæstv. ráðherra að segja með þessu að þessi pakki sem búið er að setja upp í frv. um félagslega þjónustu skuli hér á næstu árum, kannski á þessu ári eða því næsta, afhentur sveitarfélögunum og sagt: Gerið þið svo vel. Hér er það sem þið eigið að gera. Ef leikurinn er gerður til þess m.a., þá sýnist mér að það geti verið nokkrir milljarðar kr. sem þarna er um að ræða.