Félagsleg aðstoð

159. fundur
Mánudaginn 19. apríl 1993, kl. 15:30:08 (7173)


     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. heilbr.- og trmrh. gat ákveðinna útskýringa á því hvers vegna teknar væru upp heimildabætur í a.m.k. þeim þremur tilvikum sem ég minntist á. Út af fyrir sig getur það verið skiljanlegt að stofnunin, Tryggingastofnun í þessu tilviki, vilji hafa möguleika á því að ná með einhverjum hætti til þeirra sem hafa miklar eignatekjur þannig að þeir fái ekki hæstu mögulegu greiðslur úr tryggingakerfinu eins og ráðherra var að tala um. En hann sagði að það væru dæmi um að einstaklingar með mjög háar eigna- og vaxtatekjur fengju slíkar greiðslur. Þetta er út af fyrir sig skiljanlegt en það er jafnfráleitt að þessir einstaklingar fái þá tekjutrygginguna sem er inni í almannatryggingalögunum og er ekki nein heimildargreiðsla. Það er skilgreindur ákveðinn réttur til tekjutryggingar og það er þá alveg jafnfráleitt að þessir einstaklingar fái tekjutryggingu. Það sem þyrfti að gerast í þessu tilviki er það sem hefur margsinnis verið rætt og það er almennt að koma á skatti á fjármagnstekjur og ef þær væru taldar til tekna, skatttekna eins og aðrar tekjur þá kæmi það líka til skoðunar hjá Tryggingastofnunar ríkisins og þá mundi það hafa t.d. áhrif á tekjutrygginguna. Þannig að mér finnst þetta ekki vera mikil rök, virðulegur ráðherra.