Rannsóknarnefnd til að rannsaka ráðningu framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

159. fundur
Mánudaginn 19. apríl 1993, kl. 20:43:21 (7219)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Páli Péturssyni fyrir alla þá miklu samúð sem hann hefur með mér, en hann verður nú að búa við það þó að ég kunni ekki að meta hana í þessu tilviki. En hann sparaði ekki stóru orðin frekar en stundum áður og nú er hann farinn að velta því fyrir sér hvort það sé þá ekki leiðin út úr þessum vanda sem stjórnarandstaðan er búin að koma sér í með þessum dæmalausa tillöguflutningi að stefna mér fyrir landsdóm. Ja, því ekki það? Ég mundi frekar kjósa það að standa fyrir máli mínu fyrir landsdómi heldur en fyrir pólitískt kjörinni nefnd alþingismanna. Það segi ég alveg hreint eins og er. ( SvG: Landsdómur er kosinn líka.) Landsdómur er kosinn þannig já, en það er þó a.m.k. ekki vitað fyrir fram að þeir sem í honum sitja hafi tekið afstöðu í þessu máli sem við erum hér að ræða um.
    Ég þoli vel að það sé farið ofan í kjölinn á aðdraganda þess að ég skipaði Hrafn Gunnlaugsson til eins árs í stöðu framkvæmdastjóra sjónvarps. En ég segi hins vegar um leið að ég tel slíka rannsókn

óþarfa. Ég hef skýrt frá aðdraganda þessa máls öllum og ég hef ekkert að fela þar, ekki nokkurn skapaðan hlut. Menn virðast hins vegar núna orðnir sammála um það að hin fjármálalegu samskipti Hrafns Gunnlaugssonar og sjónvarpsins verði rannsökuð hjá Ríkisendurskoðun og það verður gert. Ég hef farið fram á það og ég hef ástæðu til að ætla að Ríkisendurskoðun muni verða við þeirri beiðni minni. ( Gripið fram í: En Knútur, hvað um Knút?) Hafi verið sagt hér að fyrrv. ráðuneytisstjóra hafi orðið á stórfelld embættisafglöp . . .   ( SvG: Að ráðherrann hefði borið á hann embættisafglöp.) Já, það er bara rangt. (Gripið fram í.) Ég hef ekki borið á hann embættisafglöp, það er beinlínis rangt. Ég hef hins vegar sagt það --- og ég hef ekkert orðið margsaga í sambandi við þessar bréfaskriftir Hrafns Gunnlaugssonar í bréfi stílað á mig og í framhaldi af því bréf fyrrv. ráðuneytisstjóra til Norræna kvikmyndasjóðsins, ég hef ekkert orðið margsaga í því. Ég hef eingöngu sagt að mér var ókunnugt um þessi bréf í fyrsta lagi þegar bréf Hrafns barst í ráðuneytið og í öðru lagi að fyrrv. ráðuneytisstjóri skrifaði bréfið til Norræna kvikmyndasjóðsins. ( SvG: Án þess að þú vissir um það?) Án þess að ég vissi um það já, það er það sem ég hef sagt. ( SvG: Hann skrifaði fyrir hönd ráðherra.) Já, fyrrv. menntmrh. ætti nú að vita það að það fer ekkert bréf út úr menntmrn. fremur en öðrum ráðuneytum sem ráðherra ekki skrifar undir öðruvísi en að það sé fyrir hönd ráðherra eða fyrir hönd ráðuneytis. Ég hélt nú að fyrrv. ráðherra vissi þetta. Ég þekki a.m.k. engin dæmi þess að bréf fari öðruvísi út úr ráðuneytinu.
    Hér er ráðist á formann Alþfl., hæstv. utanrrh., fyrir það að taka upp varnir fyrir fjarstaddan mann. Hann hefur skýrt það út hvers vegna hann gerir það. (Gripið fram í.) Hann hefur orðið fyrir svipuðum árásum sjálfur og þekkir þetta. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson lætur svo hér liggja að því að forsrh. hafi sagt ósatt og síðan spinnur hann bara áfram ræðuna og er farinn að trúa því sjálfur að hæstv. forsrh. hafi sagt ósatt og í öllum venjulegum lýðræðisríkjum ætti hann að segja af sér. Þetta er bara orðið svona. Manninum er borið á brýn að hafa sagt ósatt og ræðan svo spunnin áfram út frá því að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson er farinn að trúa því sjálfur. Þetta er nú málflutningurinn sem hér er hafður uppi.
    Hv. þm. Svavar Gestsson kom hér fram í hlutverki siðgæðisvarðarins og honum varð tíðrætt um nokkrar nefndir sem ég sem menntmrh. hef skipað fulltrúa í vegna þess að kjörtímabil þeirra sem áður sátu þar var úti. Og hann er að gera eitthvert meiri háttar mál út af því að ég hef skipað sjálfstæðismenn í einstök sæti þar. Hverja ætli hv. þm. og fyrrv. ráðherra Svavar Gestsson hafi skipað í þessi sæti? Ætli hann hafi skipað sjálfstæðismenn? ( Gripið fram í: Árna Johnsen í Þjóðleikhúsið.) Já. Hann gerði það. Það vill nú svo til að það eru líka til dæmi svo sem um það að ég hafi nú skipað aðra en sjálfstæðismenn í nefndir og ráð. (Gripið fram í.) En hann taldi sérstaklega upp Bókmenntakynningarsjóð og Þýðingarsjóð þar sem ég hafði skipað sjálfstæðismenn, það er alveg rétt. Síðan talaði hann um Rithöfundasjóð og nefndi þar Sverri Hermannsson alveg sérstaklega. Það vill nú svo til að úthlutunarnefnd starfslauna úr launasjóði rithöfunda er skipuð nákvæmlega sömu mönnum og sitja í Rithöfundasjóði og það var samkomulag við Rithöfundasambandið að þeir sætu þarna í báðum þessum stjórnum og þess vegna skipaði ég Sverri Hermannsson. Svona einfalt er það. Hann var eini maðurinn sem er skipaður án tilnefningar.
    Í úthlutunarnefnd starfslauna sitja þrír menn sem eru allir tilnefndir af Rithöfundasambandinu, en í Rithöfundasjóðnum situr einn án tilnefningar og það er rétt, það er Sverrir Hermannsson af því að hann situr líka í hinum sjóðunum.
    Það hefur verið gert hér mikið mál úr því og raunar líka í sumum fjölmiðlum að ég hafi sagt í viðtali að þetta mál væri allt saman pólitískt, ráðning mín í starf framkvæmdastjóra sjónvarps hafi verið pólitísk. Það er rétt að vissu marki. Ég sagði það aðspurður hvort ráðningin væri pólitísk að hún væri það vegna þess að ég væri pólitískt skipaður ráðherra og ég tæki mínar ákvarðanir sem slíkur. Og ég bætti því líka við --- en það hefur verið vandlega passað upp á það að vera ekkert að skýra frá öllu samtalinu --- að þegar mér þættu menn vera beittir rangindum, þá brygðust ég við, alveg sama hvar í flokki menn væru. Þetta var í þessu sama viðtali sem hefur verið gert mikið mál úr að ég hefði talað um sem sérstaklega pólitíska ákvörðun.
    Hæstv. forseti. Ég þarf svo sem ekki að hafa hér mikið fleiri orð um þessa umræðu, enda held ég að í raun og veru sé nóg talað í þessu máli öllu. Ég hef lýst þeirri skoðun minni að nefnd samkvæmt 39. gr. stjórnarskrárinnar, eins og hér er lagt til, sé ekki líkleg til þess að komast að eðlilegri niðurstöðu. Ég tek undir þau orð hæstv. utanrrh. að þeir sem komið hafa hér fram í hlutverki saksóknarans geta ekki orðið trúverðugir dómarar.