Jöfnunargjald á innfluttar landbúnaðarafurðir

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 14:02:22 (7251)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Já, hæstv. landbrh. hefur alltaf merkilegar upplýsingar fram að færa. Hann upplýsti það til viðbótar því að skoðun ríkisstjórnarinnar væri sú að þetta væri í lagi að það hefði verið haldinn fundur í landbn., ( Gripið fram í: Góður fundur.) góður fundur sjálfsagt og hefði eytt óvissu. Getur hæstv. landbrh. ekki skilið það að það sem málið snýst um er að fá það staðfest frá Evrópubandalaginu, viðsemjendum okkar að þessi heimild haldi og það þarf að afla slíkrar staðfestingar með óyggjandi hætti áður en þetta mál verður afgreitt hér á þinginu?
    Að sjálfsögðu vék svo hæstv. landbrh. sér undan því að svara til um sína afstöðu ef það reynist svo að stórum hluta af íslenska kjötmarkaðnum kunni að vera stefnt í hættu með beinum áhrifum þessa samnings. Því ætti hæstv. landbrh. að svara og svara því sem hann er spurður um en ekki vera að blanda hér óskyldum hlutum inn í umræðuna.