Ráðning framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 14:34:29 (7269)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Hér hafa þau undur orðið í lýðræðisríki seint á 20. öld að meiri hluti stofnunarinnar hefur hafnað því að kosin verði rannsóknarnefnd til að fjalla um það mikilvæga mál sem við vorum hér að ræða. Þetta er þeim mun sérkennilegra þegar þess er gætt að í öllum Evrópuríkjum eru til nefndir af þessu tagi sem starfa með mjög virkum hætti. Það liggur fyrir skýrsla um þau mál, m.a. hjá fulltrúum okkar í EFTA-nefnd þar sem kemur fram nákvæmlega með hvaða hætti þessar nefndir starfa í hinum einstöku EFTA-ríkjum, með öðrum orðum nefndir af þessum toga eru alls staðar til þar sem starfað er með lýðræðislegum, eðlilegum hætti á forsendum þingræðisins. En Alþingi Íslendinga og meiri hluti þess hefur beygt sig fyrir æðstu prestunum í hinum helgu véum, ráðherradómurunum Jóni Baldvini, Davíð Oddssyni og Ólafi Einarssyni, hæstv. ráðherrum sem kváðu upp dóm sinn hér áðan. Þar með er auðvitað ekki sagt að þessu máli sé lokið, virðulegi forseti, því í gær lýsti hæstv. utanrrh., formaður Alþfl., því yfir að hann teldi að það væri eðlilegt að skoða aðrar leiðir í þessum efnum og ég segi: Úr því að þessi orrusta vannst ekki, þá er að snúa sér að hinni næstu vegna þess að hér er um að ræða mál sem snertir þjóðfélagsgerðina alla, spurninguna um það hvort við viljum búa í þjóðfélagi sem byggir á almennum, siðrænum forsendum eða hvort við búum í bananalýðveldi.
    Þess vegna hljótum við að kanna það næstu daga, virðulegi forseti, hvort það eru forsendur til þess að skapa samstöðu um það í þingnefndum að í málið verði farið á grundvelli 26. gr. þingskapa. Ég vil lýsa því sem minni skoðun, m.a. í framhaldi af ræðu hv. þm. Gunnlaugs Stefánssonar hér áðan að ég tel óhjákvæmilegt að á það verði látið reyna í fjárln. strax hvort hún er tilbúin til þess að fara í þetta mál og ekki aðeins að því er varðar samskipti Hrafns Gunnlaugssonar við sjónvarpið eins og gert er ráð fyrir í bréfi hæstv. menntmrh., heldur í samskiptum hans við alla þá fjölmörgu sjóði og stofnanir sem hafa verið nefndar í þessari umræðu. Og ég tel fullvíst að fulltrúar Alþb. í fjárln. muni beita sér fyrir því að kanna hvort meiri hluti fáist fyrir því þar að í málið verði farið af þeirri nefnd og að skýrslu verði skilað fyrir lok þingsins núna í vor.
    Ég tel einnig mjög mikilvægt, virðulegi forseti, að það verði kannað jafnframt hvort rétt sé að það verði til óháð rannsóknarnefnd í þessu máli utan þingsins því að hvar annars staðar á að skoða þá ósannindaflækju sem menntmrn. hefur vafið sig í í þessum málum? Við höfum aldrei séð annað eins eins og í dagblöðunum og Morgunblaðinu í dag. ( Utanrrh.: Er þetta að ræða um þingsköp, virðulegi forseti?) Virðulegi forseti. Þetta er um þingsköp vegna þess að ég hlýt að lýsa því yfir að á vettvangi Alþingis Íslendinga, ef þar má tala fyrir æðsta prestinum sem talaði 20 sinnum í gær, á vettvangi Alþingis Íslendinga hljóta menn að ræða um þessi mál og áskilja sér allan rétt til þess þó að æðstu prestar hinna helgu véa hafi fellt sinn dóm hér hrokafullir í dag.