Lyfjalög

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 16:45:39 (7291)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Jú, ég sagði það að það mundi hugsanlega lækka á höfuðborgarsvæðinu. En ég held þó ekki að til lengra tíma litið muni það lækka. Það gæti hugsanlega orðið það fyrst en til lengri tíma litið, þá mun það ekki lækka verðið vegna þess að það verður til þess að auka fjárfestingu. Og við höfum horft upp á það hér hvernig atvinnugreinar fara, sem auka fjárfestingu sína og hafa ekki á bak við sig nægilega veltu. Það hlýtur hv. þm. að vera mér sammála um.
    En að öðru leyti held ég að þó svo að íbúar höfuðborgarsvæðisins nytu þess á einhvern hátt, þá yrði það ekki til lengri tíma. Og það sýnir enn og aftur að sú ríkisstjórn sem hér situr og annar aðalflokkur hennar sem kennir sig við jafnaðarmennsku, meinar í raun og veru ekkert með því, hann vill engan jöfnuð.