Lyfjalög

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 17:55:15 (7297)

     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Sorglegar eru röksemdirnar nú. Oft hefur verið vitnað í ferðapistil frá Rúmeníu sem ég skrifaði fyrir líklega 21 ári. Þar er eins, minnisleysið herjar á mannskapinn. Ég hafði ekki minnst orði á að Ceausescu hefði falleg augu. Hins vegar gerði ég létt grín að aðdáun þegna hans og sagði, ef ráðherrann vill vita það sem ég skrifaði, að konur fengju stjörnur í augu þegar þær litu foringjann. Þannig var það og hafði ekkert með augun í Ceausescu að gera. Því síður skil ég nú alveg hvað sá heiðursmaður á erindi inn í umræðuna. Ekkert veit ég um heilbrigðiskerfið hjá honum og satt að segja hafði lítil tækifæri til að kynna mér það þá þrjá daga sem ég var í Rúmeníu fyrir 21 ári. Hins vegar, hæstv. forseti, finnst mér nú satt best að segja að það eigi að berja í bjöllu þegar ráðherrar landsins byrja að bulla í ræðustól.