Forgangslisti um afgreiðslu mála

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 23:50:54 (7360)


     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. 2. þm. Austurl. fyrir að vekja athygli á þessu máli og það væri kannski rétt að fá þennan forgangslista. Hæstv. heilbrrh. sagði að þetta mál væri á forgangslista ríkisstjórnarinnar þannig að hann er með öðrum orðum til. Ég vildi fara fram á það við hæstv. heilbrrh. að hann læsi upp þennan lista hérna þannig að við gætum fengið upplýsingar um það hvað er á þessum lista. Ég geri ekki ráð fyrir því að hann þurfi að bera það upp við aðra þingmenn úr því að hann ræður þessu mestöllu hvort eð er, eða ráðherra, hvað er á þessum lista þannig að ég skora á hann að koma hingað í ræðustólinn og afhenda forgangslistann.
    En fyrir utan forgangslista hæstv. ríkisstjórnar, þá er náttúrlega venjan sú áður en þingi lýkur, að það er einnig farið yfir þau mál sem stjórnarandstaðan hefur flutt og hlýtur að leggja áherslu á af sinni hálfu. Og það er auðvitað óhjákvæmilegt að hefja umræður um það og ég er sannfærður um það að hæstv. forseti mun taka þeim umræðum vel eins og hún hefur yfirleitt gert. En erindi mitt er fyrst og fremst að skora á hæstv. heilbrrh.: Út með leyniplaggið. Komdu, hæstv. ráðherra, með forgangslistann.