Vegalög

161. fundur
Miðvikudaginn 21. apríl 1993, kl. 15:16:28 (7412)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það er fleiri en nokkur orð sem fallið hafa hér í umræðunum sem ég sé ástæðu til að tjá mig um heldur en í sjálfu sér efni frv. sjálfs eða það sem þar hangir á spýtunni. Þó einnig nokkrar athugasemdir um það. Það er ekkert nema af hinu góða að menn velti því fyrir sér hvaða fyrirkomulag sé best á meðferð mála af þessu tagi innan ríkisgeirans og ég hef áður látið það sjónarmið mitt koma fram að það geti verið fullkomlega réttlætanleg ráðstöfun að fela Vegagerð ríkisins að taka að sér yfirumsjón með þessum rekstri af hálfu ríkisins. Ég hafði sjálfur oft velt því fyrir mér að e.t.v. gæti verið ástæða til þess að sameina á einum stað með einhverjum hætti undir hatti væntanlega þá samgrn. þá þætti samgöngumálanna sem njóta beinlínis tilstyrks eða stuðnings af hálfu hins opinbera. Þar má nefna fjárlagaliðina sem lúta að stuðningi við samgöngur í strjálbýli, vetrarsamgöngur, samgöngur á sjó og stuðning við einstöku flugleiðir o.s.frv. Ein aðferð sem þar kemur fyllilega til greina er að láta Vegagerðina taka meira til sín af verkefnum á þessu sviði og með því er auðvitað verið að gera Vegagerð ríkisins að enn meiri samgöngustofnun en hún þegar er. Vegagerðin er eins og allir þekkja stærst þessara stofnana, miklu mun stærri en Flugmálastjórn, Vita- og hafnamálastofnun eða aðrar slíkar sem helst kæmu til greina fyrir þá utan Póst og síma. Með því að taka undir þetta er ég hins vegar ekki að fella neina stóra dóma yfir fortíðinni og ég í sjálfu sér sé ekki annað og veit ekki til annars en menn hafi á hverjum tíma samkvæmt bestu vitund reynt að fara með þessi mál. Það hefur fyrst og fremst verið samstarf tveggja aðila sem þar hefur komið til sögunnar, það er Alþingis og samgrn.
    Í gegnum tíðina hefur fjárstuðningur ríkisins til samgönguþátta af þessu tagi, reksturs ferja og flóabáta og til vetrarsamgangna verið afgreiddur af tveimur nefndum þingsins í samstarfi, þ.e. samgn. eða samvinnunefnd samgöngumála, eins og það var nefnt á meðan Alþingis starfaði deildarskipt, og fjárveitinganefnd. Í þessum nefndum hafa setið margir mætir menn bæði núv. hæstv. samgrh. og fyrrv. hæstv. samgrh. og örugglega samkvæmt bestu samvisku unnið að þessum málum og ég held ég megi fullyrða að tillögur samvinnunefndar samgöngumála eða fjárveitinganefndar hafi á undanförnum árum svo langt sem ég man hér á þinginu hafi verið afgreiddar samhljóða og án ágreinings. Í þeim tillögum og samþykki Alþingis hefur að sjálfsögðu falist stuðningur við eða blessun á því fyrirkomulagi sem við lýði hefur verið á þessu sviði. Þannig að ég held nú að allir þeir sem þátt hafa átt í þessu á undanförnum árum að þetta fyrirkomulag hefur verið við lýði hljóti að þurfa að taka til sín sinn hluta ábyrgðarinnar. Þess vegna verð ég að segja alveg eins og er að mér finnast tilburðir hæstv. núv. samgrh. til að reyna að stipmla síðasta forvera sinn í starfi sem alveg sérstakan amlóða í þessum efnum harla lágkúrulegar, harla lítilmótlegar. Þó svo hæstv. núv. samgrh. sé e.t.v. ekki mjög metnaðarfullur fyrir sína hönd og vandamanna í starfi þá held ég að hann eigi að setja sér rismeiri markmið hvað metnað snertir en þetta.
    Hæstv. ráðherra hefur verið óþreytandi við að draga upp tortryggilega mynd af meðferð þessara mála innan stjórnkerfisins undanfarin ár. Hann hefur viðhaft orð jafnvel af því tagi að þetta hafi verið í ólestri ef ekki óreiðu þegar hann kom að þessum málum og hann hefur fellt harða dóma um einstakar fjárfestingaákvarðanir sem teknar hafa verið á undanförnum árum og varða endurnýjun á ferjum og flóabátum. Hann nefnir gjarnan háar tölur í því sambandi svo sem eins og áfallnar skuldbindingar upp á rúmlega 2 milljarða kr. eins og þeir hlutir standa í dag. Það er auðvitað alveg sjálfsagt mál að fara yfir það. Í hverju felast þá þessar tölur, hvað er á bak við þær? Hverjir bera þar ábyrgð? Jú, langþyngst vega þarna tvær ákvarðanir ríkisstjórna og Alþingis um endurnýjun á ferjum, þ.e. ákvörðun um að endurnýja flóabátinn Baldur, sem var tekin í tíð ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Framsfl. undir forustu þáv. samgrh. hæstv. Matthíasar Bjarnasonar, núv. hv. 1. þm. Vestf. Þá var tekin sú ákvörðun að endurnýja flóabátinn Baldur með smíði ferju í hans stað hér innan lands, nánar tiltekið á Akranesi. Sú smíði varð tafsöm og af ýmsum ástæðum varð hún dýr. Þetta stendur fyrir fjórðungi til til fimmtungs af þeirri upphæð sem hér er um að ræða. Varla er hæstv. núv. samgrh. Halldór Blöndal sem var sjálfstæðismaður síðast þegar ég vissi að skorast undan þeim hluta ábyrgðarinnar sem heyrir þá til ríkisstjórnar sem hann studdi og samgrh. úr hans eigin flokki. Það hefur hins vegar lítið farið fyrir því að hæstv. ráðherra tæki það sérstaklega fram að hann bæri persónulega vissa ábyrgð á þessum málum þegar hann hefur fjallað um þau á undanförnum missirum. Seinni ákvörðunin sem hér skiptir mestu máli er ákvörðunin um að endurnýja Herjólf. Og það er nú þannig að undirbúningur þess máls hafði farið fram í tíð líklega tveggja ríkisstjórna á undan þeirri sem endanlega tók ákvörðunina, þ.e. ríkisstjórna Sjálfstfl. og Framsfl. á árunum 1986--1987 og síðan ríkisstjórnar Sjálfstfl., Framsfl. og Alþfl. á árunum 1987--1988. Einstakir forustumenn Sjálfstfl., ekki síst þingmenn flokksins úr Suðurlandskjördæmi, höfðu auðvitað gengið mjög fram fyrir skjöldu í þessu máli og stóðu að sjálfsögðu að og áttu beinlínis hlut að því að á fjárlögum áranna, ja ég hygg alveg frá 1987 og þangað til það kom að því að byggja skipið voru heimildir til að hefja endurnýjun á Herjólfi. Ég man ekki annað en þær hafi yfirleitt verið samþykktar hér á þinginu og allir staðið að því. Þingmenn Suðurl. úr öllum flokkum yfirleitt kappsamir um að að þessu máli yrði unnið.
    Það er hins vegar hárrétt að það kom í hlut ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar, þriðja ráðuneytis þess ágæta hæstv. fyrrv. forsrh. að ljúka þessu máli og taka ákvörðun sem hafði reyndar dregist mjög mikið og tafist af ýmsum ástæðum en það var gert með stuðningi og undir beinlínis þrýstingi þingmanna ekki síður úr stjórnarandstöðuflokkum og sérstaklega þingmanna Sjálfstfl. úr Suðurlandskjördæmi. Það helsta sem gagnrýnt var á þeim tíma sem ákvörðunin var tekin var að skipið skyldi ekki vera stærra og dýrara en ákveðið var að byggja. Það er alveg sjálfsagt að rökræða við hæstv. samgrh. um það hvort þetta hafi verið óþarfar eða vitlausar ákvarðanir. Það skulum við þá bara ræða eins og menn með rökum og gagnrökum en ekki undir þeim formerkjum sem hæstv. ráðherra hefur sérstaklega tamið sér í þessu máli öllu saman.
    Varðandi formið á rekstrinum hefur um mjög langt árabil það form verið við lýði að rekstrarfélög hafa verið stofnuð í samstafi ríkisins og heimaaðila sem samgangnanna njóta, oftast sveitarfélaganna en einnig að hluta til einstaklinga eða fyrirtækja á viðkomandi svæðum. Þessi rekstrarfélög, sem með verulegri aðild ríkisins allt frá því að ríkið á verulegan meiri hluta í sumum þeirra og minni hluta í öðrum, hafa síðan fengið annars vegar rekstrarstyrki á hverju ári til að jafna reikningana en hins vegar hefur ríkið séð um endurnýjun skipakostsins og yfirleitt gert það í gegnum greiðslur á svonefndum stofnframlögum. Þessi tilhögun, hvenær sem hún kom fyrst til sögunnar, þá er í öllu falli ljóst eða a.m.k. nær mín þekking til þess að hún á sér nokkurra áratuga sögu. Um hana virðist Alþingi hafa verið sæmilega sátt fram á síðustu missiri. Engar tillögur höfðu verið fluttar á Alþingi af neinum mönnum svo ég best viti né neinum ríkisstjórnum en þær hafa verið mismunandi undanfarin ár og kjörtímabil eins og menn þekkja með aðild allra flokka nema Kvennalistans eftir að hann kom til sögunnar fram á allra síðustu ár. Þannig að ég held að það verði nú bara að draga þá niðurstöðu af þessari söguskoðun að fram á síðustu missiri virðist hafa verið samstaða um það og sátt á Alþingi Íslendinga og í ríkisstjórnum hverjir sem hlut hafa átt að máli að hafa þarna ákveðið skipulag við lýði. Það segir ekki að því megi ekki breyta, það er sjálfsagt mál að skoða það. En það afsannar auðvitað með öllu og gerir fullkomlega ómerkan, gerir að ómagaorðum, tilburði hæstv. núv.

samgrh. til að draga einhverja einstaka stjórnmálamenn frá fyrri tíð til sérstakrar ábyrgðar í þessum efnum og reyna að koma á þá ómerkilegu klámhöggi, ég segi ekki níðhöggi, án þess að rökstyðja það nokkuð frekar. Þetta er auðvitað feiknarlega ómerkileg framganga sem stenst ekki á nokkurn hátt skoðun, fellur um sjálfa sig þegar farið er yfir forsendur og rök í málinu.
    Ég sé mig knúinn til þess, vegna þess, hæstv. forseti, m.a. að samgrh. kom nú enn einu sinni inn á þessa sömu hluti í ræðum sínum hér áðan, að fara lítillega yfir þessi mál í tengslum við þetta mál sem gengur út á að fela Vegagerð ríkisins að yfirtaka eða annast rekstur á þessum ferjum og flóabátum.
    Megingallinn á málinu síðan að mínu mati og það hafa reyndar fleiri nefnt er svo sá að þessir pinklar eru hengdir á Vegagerðinna að henni óbættri. Ég verð að segja alveg eins og er að hæstv. samgrh. er miklu slappari en ég hafði vonast til að hann yrði, miklu linari að láta það yfir sig ganga og vegamálin eða samgöngumálin liggur mér við að segja að framkvæmdamöguleikar Vegagerðarinnar á komandi árum verði skertir beinlínis sem nemur auknum byrðum vegna reksturs ferja og flóabáta. Það er það sem gerist. Nú er það svo að gildandi vegáætlun og vegáætlanir undanfarinna ára og væntanlega vegáætlanir framtíðarinnar, m.a. sú sem hæstv. samgrh. er nú með til endurskoðunar, ganga út frá einu. Þær ganga út frá því að Vegagerðin fullnýti til framkvæmda í vegamálum hina mörkuðu tekjustofna sína. Það er auðvitað alveg augljóst mál að ef teknar eru inn á þessa hina sömu mörkuðu tekjustofna Vegagerðarinnar ný verkefni sem hæstv. ráðherra metur svo að geti orðið allt að hálfum milljarði kr. þegar mest lætur á næstu árum þá skerðist ráðstöfunarfé Vegagerðarinnar til sinna hefðbundnu verkefna að sama skapi. Þetta eru náttúrlega ekki flókin fræði og auðskilin hverjum manni. Það þýðir ekkert fyrir hæstv. samgrh. að reyna að koma sér hjá að ræða þennan þátt málsins, hann er augljós. Það að Vegagerðinni að nafninu til hafi verið merkt einhver hækkun á bensíngjaldi eða mörkuðum tekjum við síðustu áramót við yfirtöku þessara verkefna drepur málinu á dreif vegna þess að málið snýst ekki um það heldur að Vegagerðin hefur samkvæmt lögum ákveðna tekjumöguleika. Á bensíngjaldi og þungaskatti er þak sem er framreiknað miðað við tiltekna vísitölu og þessi gjöld er óheimilt samkvæmt gildandi lögum að hækka nema að tilteknu marki. Og jafnvel þó það væri nú ekki þá sýnir reynslan það að því eru takmörk sett hvað menn treysta sér til að beita þessum tekjustofni.
    Nú er hæstv. samgrh. sem sagt væntanlega búinn að lúffa fyrir ofríki fjmrn. ef ég þekki rétt og hefur ekki reynst sterkari í bakinu en svo eða hnjáliðunum að hann hefur bognað á einhverjum af þessum stöðum undan þessum þrýstingi. Þetta eru auðvitað megnustu ótíðindi fyrir samgöngumálin og sérstaklega Vegagerðina eða vegamálin hvað framtíðina snertir þó það bætist ekki við sem viðbótarharmleikur að hæstv. samgrh. hefur orðið að þola það að til viðbótar séu umtalsverðar tekjur Vegagerðarinnar gerðar upptækar í ríkissjóð á þessu ári og komandi árum ef marka má áætlanir. Þetta er auðvitað hið dapurlega í málinu og ég hafði vonast til að ef af þessari skipulagsbreytingu yrði þá yrði það a.m.k. gert á grundvelli einhverra samninga um að Vegagerðin fengi einhverjar sérmerktar viðbótartekjur upp í þann kostnað. Þó menn hefðu nú kannski ekki náð því fram að hver einasta króna kæmi t.d. í formi beinnar fjárveitingar úr ríkissjóði, en þar hefur þetta verið vistað undanfarin ár, ríkissjóður hefur kostað þessi verkefni, þá hefði a.m.k. einhver áætlun eða einhver samningur um að Vegagerðin fengi, segjum 300 millj. kr. á ári í föst framlög næstu nokkur árin í þessi útgjöld þó verið til bóta. En að sitja uppi með þetta verkefni gjörsamlega óbætt er auðvitað mikill harmleikur og þeim mun meiri sem hæstv. ráðherra er nú óþreytandi við að útlista hversu mikil útgjöld muni stafa af endurnýjun ferjanna hér á næstu árum.
    Hæstv. ráðherra reyndi í sama dúr og áður í þessu máli að gera það mjög tortryggilegt þegar ferja var keypt til að annast sjósamgöngur á Eyjafirði og við Grímsey. Staðreyndin er nú sú, hæstv. ráðherra, að þau mál höfðu verið í ólestri, það leyfi ég mér að segja. Þannig var að á þessum slóðum þjónaði á sínum tíma skip sem hét Drangur og við munum báðir eftir, ég og hæstv. samgrh. Það endaði lífdaga sína í Karíbahafinu og síðustu stofnstyrkirnir voru greiddir þangað ef ég man rétt. Eftir að skipið var horfið úr rekstri á Íslandi fékk það senda ávísun suður til karabíska hafsins vegna þess að það var talið að ríkið væri siðferðilega skuldbundið til að efna samninga eða efna loforð um stofnfjárframlög til eiganda þess skips og mætti nú kannski einhverjar ræður halda um það en það eru aðrir en ég sem bera ábyrgð á því. Síðan var það svo að það átti að heita að Ríkisskip þjónuðu Grímsey á 1.500--2.000 tonna strandferðaskipi og það gaf nú ekki góða raun, hæstv. ráðherra. Ég hygg að það megi segja með nokkrum rétti án þess að ég vilji vera að taka of stórt upp í mig að samgöngumál Grímseyinga hafi verið í ólestri á þessum árum áður en Sæfari kom til sögunnar. Þess vegna var það að þegar fyrir lá að jafnframt þurfti að ráðast í einhverjar aðgerðir til að bæta úr vanda Hríseyjar þar sem sú ferja, Sævar, sem þar hefur þjónað var orðin of lítil og réð ekki við flutningaþörfina á háannatímanum yfir sumarið. Sú hugmynd vaknaði að leysa þessi mál bæði á einu bretti með tilkomu annars skips sem þjónaði eyjunum báðum en fyrst og fremst tryggði mannsæmandi samgöngur við Grímsey. Þess vegna var það að leitað var til Alþingis og þar var fengin heimild til að ráðast í kaup á skipi til siglinga á Eyjafirði. Þannig að eins og venjulega og rétt og eðlilegt er þá var það að sjálfsögðu Alþingi sem tók ákvörðun um að heimila þessa fjárfestingu og í kjölfarið var keypt það sem ég tel og flestir eru sammála um að sé ódýrt og mjög heppilegt skip í þetta verkefni. En samt nægjanlega stórt og öflugt til að þjóna á þessari siglingaleið sem er að hluta til fyrir opnu hafi, nægjanlega burðarmikið til að geta annast alla þungaflutninga sem þarf á þessari leið. Árangurinn af rekstri þessa skips er stórkostlegur. Hann er m.a. tugir ef ekki hundruðir millj. kr. í aukin útflutningsverðmæti til handa íslensku

þjóðinni. Nú glottir hæstv. samgrh. og liggur greinilega betur á honum en gerði fyrir nokkrum mínútum þegar hann var nokkuð brúnaþungur í ræðustóli.
    Þá er best að fara yfir það með hæstv. samgrh., hann veit það kannski ekki og er það þó til skammar ef svo væri í hans kjördæmi, að svo til öllum aukaafla Grímseyjarbáta að svo miklu leyti sem hann féll til var hent áður en þessar samgöngur komu til vegna þess að það voru ekki forsendur til að verka slíkan afla í Grímsey. Þar var eingöngu saltfiskverkun og það sem ekki gekk í saltfiskverkun fór forgörðum. Og síðan geta menn líka spurt sig að því hvernig rekstrarafkoma væri ef mönnum hefðu ekki opnast þeir möguleikar sem samgöngurnar hafa boðið upp á nú hin síðar ár til að miðla afla á milli lands og eyjar, til að senda besta aflann til verkunar í dýrmætari vöru í landi í gegnum vinnslu í frystihúsum í Hrísey eða á Dalvík o.s.frv. En miklu skiptir það að allri sjósókn úr Grímsey, sem er umtalsverð svo ekki sé nú talað um yfir sumartímann þegar þaðan róa jafnvel tugir aðkomubátar, hafa nú opnast greiðar samgöngur til lands með sinn afla. Það bíður upp á mun verðmætari framleiðsluvöru þegar upp er staðið heldur en einhæf saltfiskverkun gat áður. Til viðbótar því sem má auðvitað ekki gleyma að það hefur auðvitað gjörbreytt öllum lífsskilyrðum á þessum stað að fá þessar samgöngur. Ég tel að þarna hafi verið staðið ekki bara eðlilega heldur skynsamlega og farrællega að málum og skammast mín ekki hætishót fyrir að aðild mína að þessu máli. Ég er frekar stoltur af því ef eitthvað er að hafa getað átt þátt í því ásamt fleiri góðum mönnum að sjálfsögðu á Alþingi á þeim tíma að létta þessu dugmikla og kjarkmikla fólki sem býr í Grímsey norður og reyndar í Hrísey og víðar við Eyjafjarðarsvæðið lífsbaráttuna.
    Síðan má til viðbótar ræða það ef hæstv. samgrh. vill að það var ákveðið að ráðast í nokkrar viðbótar fjárfestingar í skipinu alveg sérstaklega til að auka möguleika ferðaþjónustu á Eyjafjarðarsvæðinu til að nýta sér þetta skip. Það held ég að hafi sömuleiðis gefist vel. Það er enginn vafi á því að þar hafa þegar nýst möguleikar og munu á komandi árum nýtast í vaxandi mæli. Nú er það svo að ferðaþjónustan er sú grein sem menn hafa a.m.k. fram til síðustu missira talað mikið um sem einn helsta mögulegan vaxtarbrodd í íslensku atvinnulífi, skammast yfir því ýmsir að það skuli ekki vera lagt meira í uppbyggingu á því sviði af hálfu opinberra aðila og þess vegna kemur það nú dálítið þverstæðukennt fram, svo ekki sé meira sagt, þegar menn svo hins vegar agnúast út í og gera tortryggilegar ráðstafanir af þessu tagi sem gagngert eru rökstuddar með því að verið sé að breikka grundvöll eða efla uppbyggingu á sviði ferðaþjónustu eins og að nokkru leyti kaupin á þessum ferjum, bygging og kaup á þessum ferjum hafa verið. Auðvitað er það alveg ljóst að endurnýjun bæði Fagraness, kaup Sæfara og að nokkru leyti Baldurs, taka mið af ekki bara almennum samgönguhagsmunum eða samgönguhagsmunum íbúanna heldur möguleikum þessara svæða til að nýta tækin í þágu ferðaþjónustu. Þetta taldi ég rétt að láta koma hér fram, virðulegur forseti, úr því að umræðan hafði á annað borð borist inn á þetta spor sem hæstv. samgrh. hefur aðallega haft forustu um.
    Ég er svo auðvitað albúinn að ræða við hann um þessi mál og fagna því að fá tækifæri til þess hér á þinginu þar sem við erum nokkurn veginn jafnréttháir að ræða þessi mál, ég og hæstv. ráðherrann. Mér hefur fundist hitt leiðinlegra þegar hæstv. ráðherra hefur valið tækifærin á fundum í fjarlægum landshlutum framan við fjölmiðla þar sem ég er fjarstaddur til að gera þessi mál að umtalsefni og þá sérstaklega þátt minn í þeim sem fyrrv. samgrh., með afar ómálefnalegum og ómaklegum hætti að ég tel, ég verð að segja það. Það finnst mér satt best að segja ekki mjög rismikil framkoma og gef henni þá ekki frekari einkunnir hér. En að ræða þetta málefnalega og rólega úr ræðustól á Alþingi þar sem við höfum báðir málfrelsi og svipaðan rétt, til þess er ég albúinn.
    Ég vona að sú hv. nefnd sem fær þetta mál til umfjöllunar fari yfir þá þætti þess sem lúta að stöðu Vegagerðarinnar og samgöngumálanna til framtíðar litið og reyni að mynda sér á því einhverja rökstudda skoðun hvort það sé skynsamleg ráðstöfun hjá okkur Íslendingum að taka þarna hundruð milljóna kr. á næstu árum út úr tekjustofnum sem sérstaklega eru ætlaðir og merktir vegamálum lögum samkvæmt og ráðstafa í þessi verkefni. Nú er það svo að þegar síðast var unnið að endurskoðun langtímaáætlunar í vegagerð reyndu sérfræðingar Vegagerðarinnar og þeirra sem að því starfi komu frá samgrn. og þingflokkum að gera sér grein fyrir því hvert verkefnið væri --- að byggja hér upp nútímalegar og greiðar samgöngur á landi um allt landið. Jú, ef ég man stærðargráðuna rétt eða tölur þá var þar slegið á að þetta væru eitthvað um 75--80 milljarðar kr. á verðlagi ársins 1991 sem til þyrfti og tæki miðað við núverandi fjárveitingar a.m.k. 25 ár. Þetta er nú verkefnið sem við okkur blasir í vegamálunum. Og ef við erum þeirrar skoðunar að það sé eitt með brýnni hagsmuna- og framfaramálum í okkar landi að byggja þessar samgöngur upp, er það þá skynsamleg áhersla að taka þessa fjármuni út úr því verkefni og í aðrar þarfir, þær sem hér um ræðir? Því þessum samgöngum þurfum við að sjálfsögðu einnig að sinna. Þær eru mikilvægar og eiga ekki að falla niður ef við á annað borð ætlum að byggja þetta land og búa þar mannsæmandi lífi þá þurfum við að geta sinnt samgöngumálum þessara svæða sem eru bundnar af eða háðar samgöngum á sjó.
    Ég hefði gjarnan viljað að hv. þingnefnd eyddi svolítilli orku í að fara svona heildstætt yfir þetta mál og setja það í samhengi við samgöngumálin að öðru leyti og tekjuöflun eða fjárveitingar til þess málaflokks. Og í trausti þess að svo verði hef ég þessi orð mín ekki fleiri en bíð þess að sjá hverjar lyktir verða af starfi nefndarinnar.