Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála

162. fundur
Mánudaginn 26. apríl 1993, kl. 14:17:43 (7445)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það er vissulega rétt sem fram kemur í athugasemdum við það frv. sem hér er til umræðu að flestir eru sammála um það að mikil þörf er á því að auka rannsóknir í mennta- og skólamálum. En það er auðvitað ekki sama hvernig að því er staðið og hvernig þær eru skipulagðar. Ég fagna því að sjálfsögðu að hér skuli komið frv. um Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála, en sannast að segja vakna ýmsar spurningar hjá mér við lestur þessa frv. og ég hefði gjarnan óskað þess að við hefðum nú meiri tíma til þess að skoða þetta mál en þann örstutta tíma sem eftir er til þingloka, þ.e. ef staðið verður við starfsáætlun.
    Ég verð aðeins að kvarta hér í upphafi yfir því að mér finnst ekki gerð nógu vel grein fyrir því í sjálfu frv. hvaða breytingar eru hér á ferð. Tæknilega séð er það mjög til bóta þegar nákvæm grein er gerð fyrir því hverju er verið að breyta. En ef ég lít á sjálft frv. þá er kannski stóra spurningin hjá mér 2. gr. þar sem verið er að taka út úr tillögum 18 manna nefndarinnar þá hugmynd að Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála verði falið að annast mat á skólastarfi og prófagerð. Þetta tengist 4. gr. frv. líka. Ég verð að lýsa ákveðnum efasemdum gagnvart þessum vinnubrögðum. Ég hefði nú haldið að það væri affarasælast að fá niðurstöðu í störf nefndarinnar og í rauninni að tillögur hennar lægju endanlega fyrir áður en farið er að taka einstök atriði út úr hugmyndum nefndarinnar og gera að lögum. Og ég nefni þetta sérstaklega vegna þess að hvað varðar framhaldsskólann, þá er það mjög umdeilt og á auðvitað algerlega eftir að komast að niðurstöðu um það hvort það er æskilegt og hvort það verði fari út í það að taka upp samræmd próf í framhaldsskólum. Ég hef sjálf mjög miklar efasemdir um þetta og finnst í rauninni að þær hugmyndir gangi nokkuð þvert á sjálfstæði framhaldsskólans og það að framhaldsskólinn byggist ekki á skólaskyldu heldur frjálsu vali þeirra nemenda sem inn í hann koma. Sannast að segja finnst mér helst til miklar miðstýringar- og forræðishugmyndir sem í þessu felast þó að ég sé sammála því að það þurfi að eiga sér stað eitthvert samræmt mat á því hvort tilskildum árangri er náð í skólunum. En þessi hugmynd að færa prófagerð, þó að kennarar séu þar með í ráðum, inn í þessa stofnun, ég vil fá að skoða hana mjög rækilega.
    Ég lýsi efasemdum gagnvart því að vera að taka þessa hugmynd inn í lagafrv. áður en nefndin er endanlega búin að ganga frá sínum tillögum og þær búnar að fá þá umfjöllun meðal skólafólks sem þær vissulega eiga skilið að fá.
    Varðandi 3. gr. frv. þá er hún óbreytt frá fyrri lögum. Það vaknaði spurning hjá mér varðandi 3. lið 3. gr. þar sem komið er inn á það hlutverk rannsókna- og þróunardeildar að veita kennurum, kennaraefnum og háskólastúdentum í framhaldsnámi á sviði uppeldis- og menntamála þjálfun og ráðgjöf í fræðilegum vinnubrögðum eftir því sem aðstæður leyfa. Og mér leikur forvitni á að vita hvernig þessu hefur verið framfylgt. Ég hef sjálf stundað nám í uppeldis- og kennslufræðum og varð ekki vör þar neitt við Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála. Það kann vel að vera að þarna eigi sér stað ákveðin samskipti og í ljósi þess að við erum bara að breyta lögunum, þá er auðvitað mjög fróðlegt að það komi fram hvernig núgildandi lög hafa reynst. Hvernig hefur verið háttað samstarfi Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála og þeirra skóla sem eru að mennta fólk í uppeldis- og kennslumálum.
    Varðandi 5. gr., ég var búin að nefna þetta atriði í 4. gr. með hin samræmdu próf í framhaldsskólum sem eins og ég nefndi hér áðan hef miklar efasemdir um, en varðandi 5. gr. þá er þar bara um lagatæknilegt atrið að ræða. Hér er gert ráð fyrir 5 ára ráðningartíma og ég var að velta fyrir mér hvort það þurfi ekki að vera eitthvert samræmi í þessu hjá ríkiskerfinu. Það er ýmist um 4, 5 eða 6 ára ráðningartíma að ræða hjá forstöðumönnum, bankastjórum og ýmsum sem verið er að ráða í opinbera þjónustu og það er svona umhugsunaratriði hvort það þurfi ekki að vera samræmi í þessum atriðum.
    Eins varðandi 6. gr. af því að ég þekki ekki til í þessari stofnun, þá væri líka fróðlegt að fá það fram hvernig 6. gr. laganna hefur verið framfylgt hingað til, hvort og hvernig háskólakennarar og aðrir hafa nýtt sér það atriði laganna að geta sinnt rannsóknaskyldu sinni hjá Rannsóknastofnun uppeldismála eða öðrum störfum, hvort þessi grein hefur virkað.

    Varðandi 7. gr. þá vil ég líka setja fram hér ákveðnar efasemdir. Mér finnst að sjálfsögðu að skólarnir á háskólastigi sem vinna að því að mennta fólk í uppeldis- og kennslumálum eigi aðild að þessari stofnun, en ég verð að lýsa ákveðnum efasemdum varðandi það að þetta séu rektorar þessara skóla. Ef ég þekki rétt til, þá er enginn þeirra sérmenntaður í uppeldis- og kennslumálum. Tveir þeirra eru raungreinamenn og sá þriðji íslenskufræðingur. Þeir geta að sjálfsögðu verði mjög góðir og gegnir í þessum málum, en mér finnst það ekkert sjálfgefið að að séu rektorar og mér finnst það vel koma til greina að við í menntmn. athugum það hvort það sé ekki einfaldlega nóg að það séu fulltrúar þessara skóla og þá hafi skólarnir val um það fólk sem best er að sér í þessum fræðum. Mér dettur í hug t.d. varðandi Háskólann á Akureyri að það liggi beint við að sá sem ráðinn verði þar forstöðumaður kennaradeildar eigi aðild að þessari ráðgjafarnefnd. Þeir sem eru að vinna beint í þessu eigi þarna sæti en ekki rektorar háskólanna sem auðvitað eru í allt, allt öðrum störfum þó þeir að sjálfsögðu hafi ákveðna þekkingu á þessum málum.
    Eins varðandi 8. gr. þá er hér kveðið á um það sem sjálfsagt er að það skuli fylgst með því hvað þessi stofnun er að gera og gerð úttekt á hennar starfi á þriggja ára fresti af þar til kvöddum sérfræðingunm og ég hefði gjarnan viljað fá meira að vita um það hvernig þetta er hugsað. Það er sjálfsagt mögulegt í þessu að fá erlenda sérfræðinga til þess að fylgjast með eða einhverja aðra en ég fæ ekki betur séð en allir helstu sérfræðingar þjóðarinnar í uppeldismálum séu komnir inn í þessa stofnun þó að ýmsir fleiri séu til. Sumir sérfræðingar hafa t.d. verið gerðir að ráðuneytisstjórum og verða varla kvaddir þarna til starfa, en ég hefði gjarnan viljað fá að vita hvernig þetta er hugsað, hvers konar mat þarna á að vera og hvort t.d. er verið að hugsa þarna um samstarf við erlenda háskóla eða eitthvað slíkt.
    Eins og hér hefur komið fram, þá er ég að sjálfsögðu fylgjandi því að Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála sé efld og ég tek undir það að ég held að það sé mikilvægt að hún sé sjálfstæð og geti sjálf stýrt því hvaða rannsóknir þar eru stundaðar og það er einmitt mjög mikilvægt að við getum horft á okkar skólamál óháð pólitískum hugmyndum, það eigi sér stað hlutlaust mat á því hvað verið er að gera þó að auðvitað komi hugmyndir manna um skólamál og skólastefnu þar alltaf inn í og ég er fylgjandi því að menntmrn. sé ekki með puttana allt of mikið í þessari starfsemi, enda á hér að vera um vísindalega rannsóknastofnun að ræða og mikilvægt að hún sé óháð.
    Eins og ég hef hér nefnt, þá set ég spurningarmerki við ýmis atriði þessa frv. sem við getum að sjálfsögðu rætt í menntmn., en vissulega ítreka ég það að mér finnst nauðsynlegt að við fáum meiri tíma til þess að ræða og kanna þetta mál og við tengjum það því sem er að gerast í umræðunni um skólamál almennt en hér sé ekki farið að samþykkja lög ef menn svo komast kannski að þeirri niðurstöðu að t.d. samræmd próf í framhaldsskólum komi ekki til greina eins og nefndin hefur lagt til.