Ráðgjafar- og fræðsluþjónusta fyrir nýbúabörn

162. fundur
Mánudaginn 26. apríl 1993, kl. 15:05:50 (7451)

     Flm. (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um ráðgjafar- og fræðsluþjónustu fyrir nýbúabörn sem er að finna á þskj. 693, en 1. flm. þessarar tillögu, Guðrún J. Halldórsdóttir, situr ekki á þingi nú. Hún var hér inni sem varamaður er hún flutti þessa tillögu en náði ekki að mæla fyrir henni sjálf. Því vil ég hér til glöggvunar gera nokkuð grein fyrir tillögunni fyrir hennar hönd og okkar annarra flutningskvenna. En tillgr. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela menntmrh. að
    setja á stofn farþjónustu fyrir nýbúabörn utan Reykjavíkur þannig að þau, foreldrar þeirra og kennarar geti fengið viðtöl og ráðgjöf varðandi nám og samskiptavandamál sem upp koma,
    setja á stofn móttökudeild fyrir nýbúabörn í Reykjavík þar sem þau fengju lágmarkskennslu í íslensku áður en þau hefja nám í almennum skólum.``
    Með þessari tillögu fylgir greinargerð þar sem m.a. kemur fram hversu mörg nýbúabörn eru talin hér í fræðsluumdæmum landsins og það er alls haustið 1992 201 barn. Raunar er þess getið einnig í greinargerð að þessi tala hafi þar fyrir utan hækkað síðan í haust þannig að þetta er verulegur hópur sem hér er um að ræða. Ég vil einnig geta þess að þetta er ekki í fyrsta skiptið sem við kvennalistakonur hreyfum þessu máli í vetur. Við 2. umr. fjárlaga fluttum við brtt. um það að hækka liðinn Sérkennsla í grunnskólum úr 10,2 millj. í 20 millj. kr. Tilgangur þeirrar tillögu var að þessi hækkun yrði nýtt til þess að bæta

úr bráðum vanda sem skapast hefur vegna barna sem ekki fá kennslu við sitt hæfi í íslensku skólakerfi, þ.e. nýbúabörnin. Og samkvæmt þeim upplýsingum sem lágu þá til grundvallar er þarna um 150 börn að ræða. Ég vil geta þess að fyrir nokkrum mánuðum kom út skýrsla á vegum menntmrn., Íslenskukennsla fyrir nýbúa, sem voru tillögur starfshóps. Sú könnun leiddi í ljós að það var brýn þörf fyrir þessi 150 börn og enn meiri er hún nú er börnunum fjölgar án þess að úrræðin séu til staðar og ef eitthvað er, þá er hægt að segja að úrræðum hafi fækkað vegna þess að klipið hefur verið svo geigvænlega af því fjármagni sem ætlað er til sérkennslu. En það er athyglisvert og í rauninni ógnvekjandi að eina fjármagnið sem ætlað er í þessi mál eru af sérkennslukvótanum og hann er hreinlega ekki til skiptanna. Hann er rýr fyrir og síst er hann til skiptanna þegar viðbótarverkefni koma. Ég vil vekja athygli á því að mörg þeirra barna sem hafa flust erlendis frá til Íslands eru börn flóttafólks sem við höfum boðið velkomin til Íslands, alla vega í orði og að hluta til hefur verið staðið þokkalega að því að taka á móti þeim en íslenska skólakerfið er gersamlega vanbúið að mæta þörfum þessara nemenda og því miður eru dæmi þess að þessir nemendur hafi verið í tómarúmi innan íslensks skólakerfis svo árum skiptir. Það er auðvitað hreinn smánarblettur á okkur sem menningarþjóð og sem gestgjafa og sem hinu nýja þjóðlandi þessara barna.
    Í þessari skýrslu sem ég gat um áðan var gert ráð fyrir því að það þyrfti fjárveitingu upp á 23--31 millj. kr. til þess að halda uppi sómasamlegri íslenskukennslu og styðja nýbúabörnin á annan hátt. Við kvennalistakonur þóttumst mjög hófsamar að biðja í fyrsta áfanga um ekki nema um það bil helming eða þriðjung þessarar upphæðar í viðbót. En við gerðum líka ráð fyrir að fleiri úrræði væru fyrir hendi. Við erum langt á eftir nágrannaþjóðum í þessum efnum og það held ég að engum geti dulist. Ég held hins vegar að þessi till. til þál. sem Guðrún J. Halldórsdóttir og við aðrar þingkonur Kvennalistans flytjum dragi út úr allra brýnustu verkefnin á þessu sviði. Þessi verkefni út af fyrir sig þurfa ekki að vera svo ýkja kostnaðarsöm en ég held að þetta sé algert lágmark og grundvöllur þess að við getum talið okkur vera að gera þokkalega bara að rækja okkar fyrstu skyldur. En ég vil ítreka það að þarna er verið sem sagt að tala um ráðgjafarþjónustu og það að taka á móti börnunum og liðsinna þeim áður en þau koma í íslenska skólakerfið því að það mundi án efa hjálpa mikið til ef það væri búið að búa þeim þokkalegar lágmarksaðstæður áður en þau hefja nám í almennum skólum.
    Í þeirri skýrslu sem ég gat um áðan sem tekin var saman á vegum menntmrn. kemur það fram hvernig nágrannaþjóðir okkar standa að þessum málum og ég held nú að við ættum að geta leitað í smiðju til þeirra um þær úrlausnir sem þar hafa verið reyndar og hvernig þær hafa gefist. Og ég vek sérstaklega athygli á því að þarna er ólíku saman að jafna og mér þætti það engin ofrausn ef þingið tæki á sig rögg og samþykkti þessar tillögur. Það hafa öll rök í þessu máli komið fram nú þegar og ég held að það sé ekki nokkur maður sem neitar því að þarna er um brýnan vanda að ræða til úrlausnar og það þarf að gera eitthvað í þessu og það strax. Við kvennalistaþingkonur fylgdum þessari tillögu ekki eftir í fjárlögum þar sem við höfðum ekki tryggan stuðning við hana, en ég vil líka vekja athygli á því að þessi tillaga er mun hnitmiðaðri en sú viðbót við fjárveitingar sem við lögðum til. Þar er einungis verið að setja þann ramma sem hægt er að vinna innan, en jafnvel þótt það hafi ekki verið samþykkt, þá held ég að það hljóti að vera hægt að finna einhverjar glufur og eitthvert fjármagn til þessa brýna verkefnis.
    Ég vil ítreka það að hafi vandinn verið mikill er við kynntum okkar tillögur fyrir jól, þá er hann enn meiri núna. Þessum börnum fjölgar og nú er mikill straumur flóttamanna innan Evrópu og ég veit að það er verið að þrýsta á íslensk stjórnvöld og ég tel að það sé fullkomlega réttmætt að líta á það að við þurfum að axla okkar ábyrgð eins og aðrar þjóðir í þeim efnum. En til þess að við getum gert það, þá verðum við auðvitað að hafa eitthvað upp á að bjóða. Og það er hreint ótrúlegt að það skuli hafa gerst eins og ég gat um hér áðan á undanförnum árum að þau börn sem þegar eru innan skólakerfisins okkar, skólakerfisins sem sumir hverjir hafa nú talið að væri nokkuð þokkalegt, þessi börn skuli vera þar meira og minna í reiðileysi. Þau fá ekki þá þjónustu sem þau eiga bæði rétt á og hafa þörf á og þau geta jafnvel verið árum saman nánast óuppgötvuð. Ef þau hafa sig ekki í frammi, ef þau verða ekki að vandamálum vegna uppivöðslusemi, þá má alveg eins búast við því að þau týnist og hvernig farnast þessum börnum þá í samfélaginu okkar?
    Ég vil undir lok framsögu þessarar fá að vitna í viðtal og umfjöllun sem er sérstaklega um þetta mál í nýjasta tölublaði tímaritsins Veru, en þar er einmitt viðtal við hv. 1. flm. þessarar tillögu og ég vil taka undir það sem hún segir og fá að vitna, með leyfi forseta, í ummæli hennar:
    ,,Fyrst við erum að bjóða fólki að koma hingað verðum við að veita því þá þjónustu sem þarf til að verða málfarslega fullveðja. Ef við tökum á móti nýbúum verða börnin þeirra að standa jafnfætis öðrum börnum. Það kostar bæði fé og fyrirhöfn, en við höfum ekki efni á undirmálsfólki,`` segir Guðrún í þessu viðtali. Og hún tekur dæmi, sem ég held að við ættum nú að íhuga vel. Með leyfi forseta segir Guðrún þarna:
    ,,Ástandið er hrikalegt. Í hverri viku er haft samband við námsflokkana alls staðar að af landinu og við beðin um aðstoð. Sívaxandi hópar barna af erlendum uppruna eru í skólum landisns. Það eru í fyrsta lagi börn foreldra sem flutt hafa aftur heim til Íslands. Þau standa best að vígi. Í öðru lagi eru þetta börn sem flytja hingað frá löndum þar sem töluð eru mál skyld íslensku. Þau standa verr að vígi og lenda oft í erfiðleikum, t.d. einelti. Í þriðja lagi eru hér börn foreldra frá fjarlægum málsvæðum. Sá hópur stendur verst að vígi vegna þess að það er ekki bara tungumálið heldur líka hugsunarhátturinn sem er þeim framandi.``
    Ég vil nú ekki síst staldra við þennan seinasta hóp hérna vegna þess að ég held að við gerum okkur ekki öll grein fyrir því hversu sérstök vandamál þarna eru á ferðinni og hversu vel við þurfum að taka á þessu máli ef vel á að vera. En Guðrún segir þarna aftar í þessu viðtali og er þá að bera saman annars vegar börn sem koma frá þjóðum sem eru okkur nær og svo hins vegar börn sem koma t.d. frá Asíu. En hún segir, með leyfi forseta:
    ,,Asíubúum er evrópskt málfræði óþekkt fyrirbæri og hugsanagangur okkar er þeim mjög framandi. Málhugsun okkar stendur Rússum miklu nær en Asíubúum. Eins og aðrar þjóðir tölum við mikið í myndum og máltækjum --- við erum alltaf ómeðvitað að vitna í lífshætti okkar. Það er mjög erfitt fyrir Asíubúa að skilja okkur vegna þess að lifnaðarhættir þeirra og atvinnulíf er allt öðruvísi en okkar og þessar tilvitnanir hjá þeim eru fólgnar í allt öðru.`` Og hún tekur dæmi og getur þess að sveitamaður frá Kambódíu eigi t.d. erfitt með að skilja orðtækið að róa öllum árum að einhverju þó Rússi geti skilið það.
    Ég held að það sé alveg ljóst að við höfum ekki leyfi til þess að bjóða flóttamenn hingað velkomna nema að fylgja því eftir á sómasamlegan hátt að þeir fái öll þau tækifæri sem við höfum sem erum hér fyrir í landinu. Og við eigum ekki rétt á því að láta fólk standa verr að vígi vegna þess að það eigi erfitt með að tjá sig og hugsanir sínar. Og ég vil vekja athygli á því og það kemur raunar fram í þeirri skýrslu sem ég gat um og eins í þessu tölublaði Veru sem ég vitnaði í, að þrátt fyrir mikinn samdrátt í ýmsum málum í efnahagslífi í Svíþjóð, þá á þessi þáttur menntamála að fá fullan stuðning áfram. Það er að vísu eitthvað breyttar áherslur þar en þetta er talið atriði sem ekki er hægt að sneiða hjá. Og við erum rétt að byrja og með samþykkt þessarar þáltill. held ég að við mundum stíga það skref sem er bráðnauðsynlegt að stíga nú þegar og það þolir ekki bið.
    Ég sé að ræðutími minn er að renna út og ég vil þá í lokin mælast til þess að þessari tillögu verði vísað til síðari umræðu og hv. menntmn. og ég vonast til þess að hún fái þar skjóta og jákvæða afgreiðslu. Upplýsingarnar liggja allar fyrir og hér er ekki eftir neinu að bíða.