Öryggis- og varnarmál Íslands

163. fundur
Þriðjudaginn 27. apríl 1993, kl. 17:27:40 (7504)

     Björn Bjarnason :
    Frú forseti. Ég hef áður lýst því yfir að ég fagna því að Alþb. skuli hafa beitt sér fyrir þessari umræðu. Mér þótti það ekki vera á verksviði okkar tveggja alþingismanna sem sátum í þessari nefnd að fara fram á sérstaka umræðu um skýrslu, sem við sömdum, hér á hinu háa Alþingi. Þess vegna er það kannski tímanna tákn að Alþb. bað um þessa umræðu sem hér fer fram í dag.
    Ég hef sagt það og er þeirrar skoðunar að það verði að líta á þessa skýrslu sem góðan grunn að nauðsynlegum umræðum um stöðu Íslands í öryggis- og varnarmálum á þessum miklu breytingatímum og get þar verið sammála hv. síðasta ræðumanni að hér er ekki um neitt endanlegt skjal að ræða í þessu máli. Þetta er framlag til þessara umræðna sem byggist á ákveðnum forsendum sem ég tel að séu hinar skynsamlegu, nauðsynlegu forsendur sem við leggjum á þessari stundu.
    Mér þótti gæta þess í máli hv. 8. þm. Reykn. að hann virðist ekki átta sig á þeirri þverstæðu sem er í skýrslunni þar sem annars vegar er talað um hina varanlegu öryggishagsmuni Íslands sem þurfi að gæta og þeirra sé best gætt með aðild að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningnum við Bandaríkin og hins vegar því sem nefndin er að velta fyrir sér og veltir mjög fyrir sér í álitinu, hvað er að gerast í Bandaríkjunum, hvaða áhrif þessar breyttu aðstæður hafa á afstöðu Bandaríkjanna til þessa tvíhliða varnarsamnings. Og þar bendir nefndin sérstaklega á að það eru ekki uppi nein áform í Bandaríkjunum eða annars staðar að leggja niður það varnarkerfi sem Atlantshafsbandalagið byggist á og varnarsamningurinn tvíhliða byggist á, heldur er spurningin: Með hvaða hætti verður þetta samstarf framkvæmt? Og það bendum við á og það er rétt hjá nefndinni og einnig sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að þar standa menn frammi fyrir ákvörðunum um fjárveitingar Bandaríkjaþings og það er það sem nefndin er að velta fyrir sér.
    Við þurfum að gæta varanlegra öryggishagsmuna okkar. Við höfum tvíhliða varnarsamning við Bandaríkin. Við vitum hvernig staðan er núna, hvaða breytingar verða mun ráðast að mestu leyti af ákvörðunum um fjárveitingar á Bandaríkjaþingi. Þetta finnst mér grunnhugsun í þessu máli sem menn verða að velta fyrir sér og við þurfum ekkert að fara í grafgötur um það sem fylgjumst með þessum málum að það hefur þegar orðið breyting á Keflavíkurflugvelli varðandi þetta því að flugvélum hefur fækkað. Það hafa verið fluttar þaðan á brott eftirlits- og ratsjárflugvélar og orrustuflugvélunum hefur fækkað. Eftirlits- og ratsjárflugvélar hafa verið fluttar þaðan á brott og litlum flugvélum hefur fækkað. Enn er þrýstingur á að skera niður í Bandaríkjunum útgjöld til varnarmála og er engan veginn útilokað að það komi til með að snerta öryggishagsmuni Íslands og gæslu þeirra. Um það hefur náðst víðtækari samstaða en áður að þeirra skuli gætt með aðild að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningi við Bandaríkin.
    Þessari hugsun er verið að lýsa í skýrslunni en ekki er verið að leggja málið þannig upp að Íslendingar eigi að ganga með einhvern betlistaf til bandarískra stjórnvalda og krefjast þess þar að útgjöld séu aukin eða annað slíkt, heldur er verið að draga upp þessa raunsæju mynd og benda á það að ákvarðanir um þetta ráðast að verulegu leyti af fjárveitingum á Bandaríkjaþingi. Hins vegar er mjög mikilvægt í þessu samhengi og kemur fram í skýrslunni að Bandaríkjamenn ætla sér, sem er eðlilegt og sjálfsagt og þyrfti raunverulega ekki að ræða að nokkru leyti, að hafa samráð um þetta efni við íslensk stjórnvöld. Allur vafi um það efni hverfur þegar menn lesa þessa skýrslu. Síðan kann að vera að erfitt verði að hafa áhrif á þær ákvarðanir sem teknar kunna að vera af bandarískum stjórnvöldum eða Bandaríkjaþingi. Hvað um það, þannig liggur þetta mál fyrir og sú raunsæja mynd er dregin í þessari skýrslu. Það er niðurstaða nefndarinnar að áfram verði að vera bandarískur herstyrkur til að verja fullveldi og lögsögu og einnig verði að liggja fyrir áætlanir um liðsauka. Þetta séu lágmarksvarnir óháð því hvernig hernaðarlegar aðstæður séu nákvæmlega á hverjum tíma og grunnur til að byggja á ef þörf krefur. Við skulum minnast þess að ekkert

ríki hefur brugðist á þann hátt við lokum kalda stríðsins og því að sovéska ógnin er horfin eins og skýrslan bendir á að leggja niður landvarnir sínar. Fjárveitingar til hermála hafa hins vegar verið skornar niður og fækkað í herjum vegna þessara breytinga. Hins vegar kemur hvergi til álita að halda ekki uppi trúverðugum vörnum lögsögu og fullveldi ríkja. Hvergi er heldur í bígerð að skera svo niður að ekki verði til staðar grunnur til að byggja á ef þörf krefur í framtíðinni. Þá má nefna áhuga ríkjanna í Mið- og Austur-Evrópu að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu og þau hafa engan áhuga á því að gerðir verði frekari afvopnunarsamningar á vettvangi Ráðstefnunnar um öryggi og samvinnu í Evrópu. Þetta eru staðreyndir sem menn skulu hafa í huga og ekkert þýðir að draga upp aðra mynd varðandi Ísland en önnur ríki þegar um þessi mál er rætt.
    Spurningin um þetta kemur fram í skýrslunni og hefur einnig áður komið fram í umræðum: Hvernig getur nefndin ítrekað nauðsyn þess að varnarsamningum sé haldið fram og að við höldum uppi þessu tvíhliða varnarsamstarfi við Bandaríkin um leið og hún bendir á að engin hernaðarógn sé lengur fyrir hendi á Norður-Atlantshafi? Um leið er ljóst að þar sem norðurfloti Rússa er enn stór og öflugur getur hann orðið ógn gegn öryggi Íslendinga og magnast á nýjan leik. Það ræðst af pólitískum aðstæðum í Rússlandi og ekki er skynsamlegt á þessu stigi málsins að líta þannig á að þessi pólitíska afstaða í Rússlandi geti ekki breyst. Í svona umræðum verður að gera greinarmun á pólitískum fyrirætlunum og hernaðarmætti. Ef menn eru ekki reiðubúnir til þess að gera slíkan greinarmun þegar þeir leggja mat á stöðu alþjóðamála, meta annars vegar hinn pólitíska vilja og hins vegar þann hernaðarmátt, sem er fyrir hendi, þá fara umræður fram frá mínum bæjardyrum séð á grundvelli sem hlýtur að leiða til rangrar niðurstöðu. Í umræðum af þessu tagi verður að leggja mat annars vegar á hernaðarþáttinn og hins vegar hinn pólitíska vilja og við vitum og getum litið á það að hernaðarmátturinn er fyrir hendi í nágrenni Íslands á Kólaskaganum þótt hinn pólitíski vilji hafi breyst og sé vonandi breyttur til langframa í Rússlandi. Það þarf a.m.k. lengri tími að líða þangað til menn átta sig á því hvort hernaðarmátturinn muni dragast saman og minnka. Svo er ekki þótt hernaðarflugvélar sjáist sjaldnar á ferli í nágrenni Íslands en áður og skipaferðir og vafalaust einnig kafbátaferðir hafi dregist saman.
    Þetta er ekki einkaskoðun þessarar nefndar. Þetta er mat allra nágrannaríkja okkar og ekki síst Norðmanna sem leggja mikla áherslu á þessa staðreynd og minna á hana og þurfa að gera það kannski með auknum þunga núna vegna þess að hið pólitíska andrúmsloft er þannig að mönnum hættir til að gleyma veruleikanum þegar hugað er að hernaðarmættinum. Það ætti að vera okkur mikilvæg áminning um það hve fljótt veður geta skipast í lofti að líta til þeirra atburða sem hafa verið að gerast á alþjóðavettvangi og í samskiptum ríkja á undanförnum árum. Hrun kommúnismans, stórbreytingar í Evrópu, átökin í Júgóslavíu. Allt eru þetta atburðir sem enginn sá fyrir og enginn átti í raun og veru von á að mundi gerast á þeim tíma sem við lifum og jafnskömmum tíma og á þennan hátt. Þessar breytingar ættu að vera okkur skýr áminning um það að ekki er áhættulaust að leggja mat á þróun mála og mér finnst að þar verði frekar að taka mið af raunverulegum aðstæðum en óljósum hugmyndum um pólitíska framvindu. Raunveruleikinn í nágrenni okkar segir okkur að full ástæða sé til þess að vera áfram á varðbergi og huga að öryggishagsmunum þjóðarinnar eins og gert hefur verið. Í skýrslunni er því ekki um þversögn að ræða þegar fjallað er um þetta heldur er verið að skýra og skilgreina varanlega öryggishagsmuni Íslendinga og bandamanna þeirra. Það er gert á sama hátt og í öðrum ríkjum en einnig tekið tillit til landfræðilegra, sögulegra og herfræðilegra þátta sem snúa sérstaklega að okkur Íslendingum og heimshluta okkar. Um leið og varnarsamningurinn við Bandaríkin tryggir varanlega varnarhagsmuni felst í honum ómetanlegur samningsbundinn vettvangur fyrir nauðsynlegt samráð og samvinnu við Bandaríkin, nánasta bandamann Íslendinga í rúm 50 ár og hið eina, sanna Atlantshafsveldi. Reyndar eru Bandaríkin álitin eina sannkallaða risaveldi heimsins um þessar mundir og þau eru það ríki sem allir frá múslimum í Bosníu til öryggissamtaka í Evrópu og Sameinuðu þjóðanna treysta mest á eftir lok kalda stríðsins. Krafa er gerð til Bandaríkjanna um afskipti af öllum málum eins og við vitum og hvarvetna um forustu í slíkum afskiptum hvort sem við lítum til Evrópu, Afríku eða Asíu. En Sameinuðu þjóðirnar og aðrir byggja á því að Bandaríkjamenn taki af skarið og virðast reiðubúnir til að treysta á forustu þeirra að því er varðar afskipti og friðarumleitanir á átakasvæðum. Þess vegna er mikilvægt að það megi jafnvel færa nokkur rök að því að við þessar breyttu aðstæður sé hið tvíhliða gildi varnarsamningsins við Bandaríkin jafnvel mikilvægara fyrir okkur en nokkru sinni fyrr hvað sem líður framkvæmd samningsins og fjölda hermanna eða þeirra tækja sem þeir ráða yfir á Keflavíkurflugvelli. Vangaveltur um þetta atriði er annar meginstraumurinn í skýrslunni sem er síðan tengt saman með þeim atriðum sem hv. 8. þm. Reykn. nefndi og er rétt að mati nefndarinnar. Ég get ekki farið út í það sem allir eru sammála um. Mér finnst ástæðulaust fyrir mig að ræða það. Ég vildi draga fram þennan þátt sem ég held að sé kannski það sem andstæðingar þessara mála, sem ég hef rætt, gagnrýna helst. Ég vildi nota tækifærið til þess frekar en ræða þau atriði sem flestir og allir hljóta að vera sammála um og koma fram í skýrslunni.
    Sem betur fer hefur skýrslan orðið grundvöllur undir umræður og á vonandi eftir að verða hvati til frekari umræðna þegar fram líða stundir.
    Hitt meginstefið í skýrslunni er sú spurning sem komið er að oftar en einu sinni og mig langar til að víkja sérstaklega að að lokum og með því að vísa á bls. 52 í lokamálsgrein þar sem segir, með leyfi frú forseta:

    ,,Samræmd stefnumörkun í utanríkismálum krefst þess einnig um þessar mundir að hugað verði að varnar- og viðskiptahagsmunum Íslands í samhengi. Standi Ísland utan Evrópubandalagsins og haldi samrunaþróunin í Evrópu áfram sem horfir í utanríkis- og öryggismálum eykst mikilvægi varnarsamnings Íslands við Bandaríkin. Jafnframt er Evrópubandalagið langstærsti markaðurinn fyrir íslenskar útflutningsvörur. Ólíkt því sem gerist meðal bandamanna í Vestur-Evrópu, þar sem horfur eru á frekari samtvinnun viðskiptasamstarfs og samvinnu á sviði öryggismála, er hætt við að þessir tveir þættir íslenskrar utanríkisstefnu greinist að í auknum mæli. Eitt mikilvægasta úrlausnarefni íslenskra utanríkismála hlýtur að vera að koma í veg fyrir að slík þróun leiði til togstreitu eða hagsmunaárekstra í framtíðinni.``     Þarna varpar nefndin þessu upp sem vikið er að og nefndin greinir frá. Hún mælir ekki með aðild að Evrópubandalaginu eða neinu slíku. Hún mælir með aukaaðild að Vestur-Evrópusambandinu, en þessi mynd er dregin upp í lokin: Hvað gerist ef við eigum viðskiptalega mest undir Evrópubandalaginu og Evrópubandalagsríkin auka samvinnu sína í öryggis- og varnarmálum sem við stöndum utan? Hins vegar eigum við þá í ríkara mæli varnarsamstarf við Bandaríkin og meira undir þessum tvíhliða samskiptum. Verða þarna hugsanlegir árekstrar í mótun íslenskrar öryggis- og utanríkisstefnu sem við þurfum að huga sérstaklega að? Þetta er hitt stefið í skýrslunni fyrir utan spurninguna um varnarsamstarfið, sérstaklega við Bandaríkin og það er hvernig það kemur við hagsmunagæslu okkar í alþjóðamálum og í viðskiptamálum sérstaklega að öðru leyti.
    Þetta eru þau atriði sem ég vildi vekja sérstaklega máls á. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara orðum um skýrsluna í heild. Það hefur verið gert og hún liggur hér fyrir en mér þótti rétt að draga athyglina að þessum tveimur meginstefum sem bæði snerta í raun okkar öryggishagsmuni og minna á að nefndin telur að þeirra verði best gætt af Íslands hálfu með aðild að Atlantshafsbandalaginu og tvíhliða varnarsamstarfi við Bandaríkin og bendir á að það tvíhliða varnarsamstarf hljóti auðvitað að taka mið af þeim breytingum sem orðnar eru á alþjóðavettvangi og í heimsmálum.