Opnun sendiráðs í Peking

163. fundur
Þriðjudaginn 27. apríl 1993, kl. 21:55:27 (7528)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Við erum að ræða mál sem er á verksviði hæstv. utanrrh. og ég hefði talið eðlilegt að hæstv. ráðherra væri hér við umræðuna ef hann er í þinghúsi og óska eftir því að honum verði gert viðvart að ég óska eftir nærveru hans þó ekki væri nema smástund, en ég met það að hér er hv. formaður utanrmn. viðstaddur umræðuna en það kemur ekki alveg í stað fyrir ráðherrann ef hæstv. forseti vill athuga það.
    Hér er mælt fyrir tillögu um opnun sendiráðs í Peking og viðskiptaskrifstofu í Suður-Kína og sameiningu sendiráða í Evrópu. Það er allt undir í einni tillögu þannig að hér er meira en lítil breyting sem er verið að gera tillögu um á verksviði utanríkisþjónustunnar íslensku. Mér finnst nauðsynlegt að átta sig á hvort þessi tillaga, flutt af fjórum hv. þm. Sjálfstfl., nýtur stuðnings og er líkleg að fá framgang innan tíðar þar sem annar stjórnarflokkanna stendur að flutningi þessari tillögu.

    Nú verð ég að viðurkenna það að ég, vesalingur minn, stóð að því ásamt þremur öðrum þingmönnum að flytja tillögu um íslenskt sendiráð í Japan en það er verið að skjóta það niður heldur betur með þessum tillöguflutningi, raunar fullyrt í greinargerð að niðurstaðan hafi verið sú varðandi sendiráðið í Japan að aðilar í einkarekstri og viðskiptum hefðu málin á sinni könnu án tilkomu sendiráðs eins og það er orðað í greinargerð með tillögunni.
    Ég vil nú nefna það að ég veit ekki betur en að tillagan um opnun sendiráðs í Japan sé til umfjöllunar í hv. utanrmn. og ekki sé niðurstaða komin í það mál. Ég veit ekki hvaðan hv. flm. hafa upplýsingar um annað en ég er þar með ekki að leggjast gegn því að athugað verði hvort sendiráð Íslands í Austur-Asíu væri betur komið í Peking með viðskiptaskrifstofu í Suður-Kína sem hér er lagt til jafnhliða því sem slátrað verði nokkrum sendiráðum í Evrópu, þau lögð niður. Ég tel út af fyrir sig að sú hugmynd sem hér er sett fram sé með vissum hætti stuðningur við það sjónarmið að það þurfi að dreifa íslensku utanríkisþjónustunni út fyrir hin þröngu mörk sem hún hefur verið bundið við til þessa. Við flm. tillögunnar um íslenskt sendiráð í Japan við gerðum ráð fyrir að sendiráð sem þar væri staðsett þjónaði nærliggjandi svæði, ef hægt er að tala um nærliggjandi í þeim víðáttum sem um er að ræða í Austur-Asíu, þar á meðal í Kína.
    En burt séð frá þessu, virðulegur forseti, þá er það kannski ekki þetta efni sem veldur tíðindum heldur sá rökstuðningur sem fylgir með þessari tillögu því hér loksins er komið ljós í myrkri fyrir utan EES sem var lengi talin helsta týran á stjórnarheimilinu, þá er það orðið í rauninni slokknað í samanburði við þá sýn sem þessir hv. fjórir þm. Sjálfstfl. draga upp í þessari tillögu um það hvað er að gerast í Kína, hvaða gífurlegu möguleikar séu þar fyrir Íslendinga með viðskiptum við Kína vegna þess hvað þar er allt galopið, frjálst og í framsókn og á framfarabraut að mati flm. Ég verð að segja það að hér er vissulega snúið nokkuð við blaði frá því sem heyra mátti til skamms tíma, allt fram undir að þessi tillaga kemur fram frá þingflokki Sjálfstfl. sem hefur haft svona ýmislegt að athuga í sambandi við þjóðfélagsskipun í þessu milljarðaríki, ríki sem telur milljarð íbúa, sennilega á annan milljarð, og út af fyrir sig margt sem bent var á þar með réttu að því er snerti stjórnarform þó ég ætli ekki að fara að gerast dómari yfir því, hvorki til eða frá. En ég man ekki betur en menn hefðu talið að heldur ógætilega hefði verið farið að af öldungaveldinu í Kína þegar þeir slátruðu stúdentunum og uppreisninni á torgi hins himneska friðar í maímánuði 1989. Gott ef hæstv. utanrrh. eyddi ekki fáeinum orðum að því að það hefðu ekki verið fyrirmyndarvinnubrögð þegar hann lagði fram skýrslu til þingsins í mars 1990.
    En til þess, virðulegur forseti, að ekkert fari á milli mála þá hlýt ég að vekja athygli á þeim ótvíræðu yfirlýsingum sem felast í greinargerð með þessari tillögu. Það er ekkert smáræði sem hér er fram reitt um þau stórkostlegu verkefni sem þarna séu fram undan vegna þjóðfélagsaðstæðna í Kínaveldi. Það er bent á að þar sé að finna urmul verslana með mikið vöruúrval fyrir verkafólk en flm. tíunda reyndar að þetta verkafólk hafi tekjur sem nemi 2--3 þús. á mánuði. Ég átta mig því ekki alveg á á hverju viðskiptin nærast í þessum stórverslunum. En það er líka greint frá því að í borginni Guangdong, ef ég reyni að líkja eftir framburði hv. 1. flm., ( ÁJ: Héraðinu.) þar séu einnig glæsilegustu og nýtískulegustu stórverslanir sem um getur með vöruúrvali. En það er nú hætt við því að alþýðan hafi ekki mikið erindi nema rétt til þess að skoða í gluggana.
    Ég vil út af fyrir sig ekki gera lítið úr tillögunni á neinn hátt, en ég tel að megintíðindin séu það mat flm., hv. þm. Árna Johnsen, Guðjóns Guðmundssonar, Árna R. Árnasonar og Egils Jónssonar, á þjóðfélagsaðstæðum í Kína og þeim möguleikum sem þar hafi skapast. Það gerðist að vísu samkvæmt orðum flm. að það var lokað fyrir menntun í eitthvert tímabil en það reynist bara í rauninni hafa orðið hið mesta happ því í skjóli þess að lokað var á menntunina þá er starfsaldur sérfræðinga í þessu ríki svo lágur, 7--10 ár, að það þarf nauðsynlega á aðstoð að halda erlendis frá og þar opnast möguleikarnir fyrir Íslendinga, íslenska hönnuði og sérfræðikrafta til þess að hjálpa til vegna þess að þeir lokuðu á menntunina um allnokkurt skeið, stjórnendurnir í öldungaveldinu í Peking.
    En lokaorð tillögunnar voru endurtekin af hv. flm. um að allir helstu fjárfestar í heiminum stefni nú til Kína. Íslenskir fjárfestar munu í þeim hóp og ég er síður en svo að lasta það að menn leiti nýrra sambanda viðskiptalegs eðlis, tel það einmitt hið besta mál að það sé gert, en mér finnst kannski að hér sé þó verið að reisa nokkrar skýjaborgir, a.m.k. þurfi menn að átta sig á því að ekkert er kannski mjög auðunnið í þessum efnum og ég vildi, virðulegur forseti, óska eftir því að hæstv. utanrrh. sem mér sýnist vera horfinn úr salnum, en ég ætla að óska eftir því að hæstv. ráðherra greini frá áliti sínu á þessari tillögu sem hér er flutt. Ég mun koma því til ráðherrans á eftir ef það nær honum ekki nú.