Sjávarútvegsstefna

164. fundur
Miðvikudaginn 28. apríl 1993, kl. 13:57:34 (7554)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Það mál sem hér er til umræðu er að formi til þáltill. en að efni til er það opinber auglýsing af hálfu Alþb. um uppgjöf þess við að móta eigin stefnu í sjávarútvegsmálum. Það er með þessari opinberu auglýsingu að lýsa því að í þessum málum sé það eins og rótlaust þangið sem enga skoðun geti haft eða mótað. ( Gripið fram í: Það er eitthvað annað en ríkisstjórnin.)
    Hér er um það að ræða að einn af þingmönnum flokksins hefur samið ásamt sjávarútvegsráði flokksins heilmikið frv. um fiskveiðistjórnun. Þingflokkurinn hefur ekki getað á þetta frv. fallist og vísar því í möppur fylgiskjalanna og þannig er það birt með þessari þáltill. Og hvert er svo að forminu til efni þáltill.? Það er að mæla svo fyrir um að Alþingi feli sjútvn. Alþingis að endurskoða lög um fiskveiðistjórnun. Þessi endurskoðun hefur nú þegar farið fram. Henni er lokið. Og það er öll stefna Alþb. sem hér birtist að fela sjútvn. þingsins að framkvæma endurskoðun á fiskveiðistjórnarlöggjöfinni sem þegar hefur farið fram. Það er nú allt og sumt. Og svo er þetta makalausa frv. birt sem fskj. ( KHG: Það er frv. líka.) Þetta er málefnaleg uppgjöf í mótun sjávarútvegsstefnu af hálfu Alþb. og sérkennilegt að Alþb. sjálft skuli hafa kosið að auglýsa þessa málefnalegu uppgjöf í sérstakri sjónvarpsútsendingu hér frá Alþingi.
    Ef við horfum svo aðeins á efni frv. sem þingmaður flokksins hefur samið og sjávarútvegsráðið hefur samið þá verð ég fyrst að segja þingflokki Alþb. það til hróss að hafa hafnað þessu frv. Það verður nú að koma fram af minni hálfu hér.
    Við höfum heyrt stór orð af hálfu þeirra þingmanna Alþb. sem hér hafa talað að það sé alveg stórhættulegt að byggja veiðarnar á einhverju kerfi þar sem tilteknir einstaklingar hafi einir rétt til veiðileyfa og engir aðrir. Samt koma þeir með frv. þar sem stendur skýrum stöfum að allar veiðar eigi að byggjast á veiðileyfum og þeir einir eigi að fá veiðileyfi eftir nýju lögunum sem hafa veiðileyfi samkvæmt kvótalögunum í dag. ( SJS: Ertu á móti því?) Þannig eru mótsagnirnar í málflutningi þeirra með þessum hætti hver á fætur annarri. Síðan á það að vera geðþóttaákvörðun ráðherra ef einhver heltist úr lestinni að ákveða hverjir nýir koma í staðinn. Sér er nú hver tillöguflutningurinn.
    Og hvernig á svo að stjórna veiðunum samkvæmt þessari nýju aðferð? Jú það á að stjórna veiðunum með skattheimtu. Það er hinn nýi boðskapur Alþb. að það á að stjórna veiðunum með skattheimtu, mismunandi eftir verðmæti fisktegunda. Og hvernig á að finna verðmæti fisktegundanna? Eftir lögmálum markaðarins? Nei, markaðurinn á ekki að mæla verð fisktegundanna heldur á með líffræðilegum rannsóknum að ákveða verðmæti hverrar tegundar og hvers stærðarflokks af einstökum tegundum. Og síðan eiga embættismenn og ráðherrar að hafa frjálst val um það hver skattheimtan er á grundvelli líffræðilegs mats um verðmæti. Ég verð að segja það hér að ég hef aldrei á ævi minni lesið aðra eins dellu ( SJS: Ég held að þú ættir að lesa þetta aftur.) og þar að auki er gert ráð fyrir því að embættismenn og ráðherrar hafi frjálst val um skattheimtu, ekki bara að leggja á einn skatt eftir frjálsu vali heldur tvo. Og þó vita þessir menn að í stjórnarskránni eru alveg skýr fyrirmæli um það að Alþingi getur ekki framselt skattlagningarvald hvorki til ráðherra né embættismanna og þaðan af síður til vísindamanna. Samt leggja þeir til í þessu frv. að embættismenn og vísindasmenn fái að leggja skatta á með þessum hætti og það ekki einn heldur tvo. Þessir menn hafa staðið hér uppi í ræðustól í allan vetur og verið að hneykslast á því sem þeir segja, að ríkisstjórnin hafi verið að brjóta stjórnarskrána með löggjöfinni um EES og samningunum um EES. Svo koma þeir hér með frv. um fiskveiðistjórnunarlöggjöf þar sem í tvígang á að brjóta skýr fyrirmæli stjórnarskrárinnar um skattalöggjöfina. ( Gripið fram í: Er þetta ekki þingsályktunartillaga?) Þannig er nú þessi málflutningur og baksvið þessa tillöguflutnings og málflutnings alls.
    Kjarni málsins er auðvitað sá að sú endurskoðun sem hér er verið að tala um, hefur farið fram á grundvelli gildandi laga. Um hana hefur verið haft samráð við lögbundna hagsmunaaðila og þeir hafa látið sitt álit í ljós, forustumenn hagsmunasamtaka í sjávarútvegi og fulltrúar stjórnarflokkanna í sjútvn. Alþingis. Síðast í morgun sat ég fund nefndarinnar þar sem fulltrúar flokkanna létu álit sitt í ljós á þessum niðurstöðum. Við þessa endurskoðun hafa verið bornir saman allir þeir kostir sem mögulegir eru í þessum efnum, hvernig aðrar þjóðir beita fiskveiðistjórnun, og niðurstaða nefndarinnar er alveg skýr. Það er rétt að byggja í meginatriðum á þeim grundvelli sem við höfum verið að þróa á undanförnum árum, aflamarkskerfinu með tilteknum breytingum og stofnun þróunarsjóðs. Það er meginniðurstaðan. Og kjarni málsins er sá að við þurfum að vinna að þremur höfuðmarkmiðum, þ.e. hafa hér fiskveiðistjórnun sem tryggir að við getum náð sem bestum árangri varðandi verndun og uppbyggingu fiskstofnanna. Við þurfum að hafa hér stjórnunarkerfi sem stuðlar að sem mestri hagkvæmni í atvinnugreininni og í þriðja lagi stjórnunarkerfi sem stuðlar að sem mestu athafnafrelsi innan þeirra marka að auðlindin er takmörkuð. Niðurstaðan er sú að aflamarkskerfið eins og við höfum verið að þróa það sé líklegt til þess að við náum þessum höfuðmarkmiðum. Og um þessa grundvallarþætti er orðin allbreið pólitísk samstaða. Stjórnarflokkarnir tveir eru sammála um þessi grundvallaratriði og ríkisstjórnin hefur samhljóða lagt frumvörp fram fyrir þingflokka ríkisstjórnarinnar og birt þau um smávægilegar lagfæringar á þeirri löggjöf sem nú er fyrir hendi.
    Það er þekkt að Framsfl. fylgir í grundvallaratriðum þeirri afstöðu að byggja hér á aflamarkskerfinu þannig að stjórnarflokkarnir og Framsfl. fylgja hér í grundvallaratriðum svipaðri afstöðu. Kvennalistinn hefur mjög skýra og augljósa stefnu í þessu efni. Hún er nokkuð á annan veg. Ég er ekki sammála henni en það er skýr stefna. Eftir stendur að Alþb. eitt, sem hefur þessa umræðu, hefur enga stefnu og hefur auglýst eftir því að þingmenn annarra flokka í sjútvn. eigi að móta stefnuna fyrir þá. Það er nú niðurstaða þessarar umræðu sem hér er hleypt af stað.
    Fyrir liggja núna af ríkisstjórnarinnar hálfu frumvörp sem byggjast á niðurstöðum tvíhöfða nefndarinnar og gera ráð fyrir nokkrum breytingum á gildandi löggjöf. Og auðvitað er það svo að það eru engin algild sannindi í þessu efni. Við náum aldrei því að smíða hér löggjöf sem er algóð og við þurfum ekki að laga á hverjum tíma miðað við breyttar aðstæður. Og breytingarnar miða að þessu. Þetta er annars vegar um krókaleyfið og tvöföldun á línu. Það er höfuðbreytingartillagan. Um þetta hafa verið skiptar skoðanir. Ég lagði fram aðra útfærslu en tvíhöfða nefndin svonefnd til þess að koma til móts við þau sjónarmið, en þau mál eru ekki að fullu útrædd í stjórnarflokkunum. En við skulum hafa það í huga að þessir tveir þættir lúta að veiðum sem að magni til eru um 2% af heildarveiðum landsmanna þannig að þó að breytingartillögurnar í sjálfu sér séu mikilvægar og viðkvæmar og skipti auðvitað máli, þá snúast þær ekki um stærri hluta af heildarmagninu sem við erum að veiða. Aðalatriðið er það að með þeirri endurskoðun sem fram hefur farið og í ljósi þeirrar pólitísku stöðu að stjórnarflokkarnir og stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn fylgja í grundvallaratriðum svipuðum viðhorfum að því er þetta varðar, þá hefur verið sköpuð hér festa um grundvallaratriði fiskveiðistjórnunar sem sjávarútvegurinn á Íslandi getur farið eftir og byggt á til framtíðar. Og það er auðvitað höfuðatriðið. Að því var stefnt og það er sú niðurstaða sem núna liggur fyrir.
    Það hefur verið á það minnst hér að fram hafi komið af hálfu sjómannasamtakanna gagnrýni vegna þess að sjómenn hafi í ríkum mæli verið þvingaðir til þátttöku í kvótakaupum. Ég get tekið undir áhyggjur sjómannasamtakanna í þessu efni og tek undir þau sjónarmið þeirra að sjómenn eiga ekki að vera þátttakendur í þessum viðskiptum enda hafa sjómannasamtökin og samtök útvegsmanna gert um það bindandi kjarasamning að svo skuli ekki vera.
    Stjórnvöld eru að sjálfsögðu alltaf reiðubúin að ræða viðfangsefni eins og þetta við sjómenn og útvegsmenn. Menn hafa velt því upp hvort menn ættu að reyna að ná betri tökum á þessu viðfangsefni með lagasetningu. Ég hef ekki fyrir mitt leyti séð að lög geti leyst þennan vanda þó að ég ætli ekki að útiloka að svo geti verið. Ég tel þó alveg augljóst að slík lagaákvæði ættu ekki heima í fiskveiðistjórnunarlöggjöf. Við höfum stundum lögfest hluta af kjarasamningum útvegsmanna og sjómanna og það eru lög um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun þar sem aðilar að kjarasamningum sjómanna, sjómannasamtökin og útvegsmenn, hafa sameiginlega komist að niðurstöðu og báðu stjórnvöld og Alþingi um að lögfesta þá niðurstöðu. Ef menn ætla að ræða lagasetningarleið í þessu efni, þá er eðlilegast að skipa þeim málum innan ramma þeirrar löggjafar og stjórnvöld eru að sjálfsögðu reiðubúin til þess að ræða við báða samningsaðila um það efni því að ég tel það vera mikilvægt að tryggja öryggi og festu um framkvæmd þessa atriðis kjarasamninga eins og öll önnur atriði í kjarasamningum.
    Hér hafa ræðumenn minnst á afkomu sjávarútvegsfyrirtækjanna og það þarf ekki að fara mörgum orðum um þá bitru staðreynd. Hún er öllum landsmönnum svo kunn hve miklir erfiðleikar eru uppi í þeim efnum. Sjávarútvegurinn er nú rekinn með miklum halla og meginástæðan fyrir því er sú að afli hefur farið hér minnkandi. Við höfum þurft að bregðast við líffræðilegum aðstæðum. Við búum við sveiflur í lífríki sjávarins og við búum við sveiflur á erlendum mörkuðum og við höfum þurft að bregðast við því að verð hefur fallið núna mánuð eftir mánuð að undanförnu á erlendum mörkuðum. Þetta hefur áhrif á afkomu sjávarútvegsfyrirtækjanna, launakjör þeirra sem þar vinna hvort heldur það er í fiskvinnslunni eða úti á sjó og launakjör allrar þjóðarinnar.
    Við þessum vanda eru engar einfaldar lausnir. Aðilar vinnumarkaðarins hafa verið í viðræðum um endurnýjun kjarasamninga og m.a. efnahagslegan grundvöll fyrir rekstri atvinnuveganna. E.t.v. má segja að það sé nokkurt áhyggjuefni að þeir hafi ekki farið djúpt í þeim umræðum ofan í grundvallarvandann, hvernig megi byggja hér upp örugga framleiðslu og hverfa frá áratuga neyslustefnu yfir til framleiðslustefnu sem ein hlýtur að tryggja hér aukin verðmæti og örugga atvinnu og afkomu fólksins í landinu.