Sjávarútvegsstefna

164. fundur
Miðvikudaginn 28. apríl 1993, kl. 14:39:32 (7558)

     Össur Skarphéðinsson :
    Virðulegi forseti. Það er hlálegt svo ekki sé meira sagt að það skuli vera Alþb. sem hér óskar eftir umræðu um mótun nýrrar sjávarútvegsstefnu. Staðreyndin er nefnilega sú að á Íslandi er aðeins einn flokkur sem ekki hefur náð saman um stefnu í sjávarútvegsmálum og hann heitir Alþýðubandalagið. Það eru ekki mörg missiri síðan Alþb. hélt miðstjórnarfund á Akureyri sem fjallaði fyrst og fremst um stefnu hans í sjávarútvegsmálum. Á þeim fundi samþykkti flokkurinn stuðning við kvótakerfið og kvótaleigu enda lýsti formaður flokksins niðurstöðunni sem sögulegri. Í þau fáu skipti sem formaður flokksins hefur síðan tjáð sig um sjávarútvegsmál hefur það komið glögglega fram að hann er síður en svo fráhverfur veiðigjaldi og vildi meira að segja gera tilraunir með að bjóða aflaheimildir upp á opnum markaði. Þetta liggur fyrir í viðtölum bæði í Þjóðviljanum sáluga og í tímaritum. Varaformaður Alþb. er þveröfugrar skoðunar eins og í utanríkismálum og veit ekkert verra en veiðigjald. Hv. þm. Jóhann Ársælsson, helsti sérfræðingur flokksins í sjávarútvegsmálunum, er hins vegar fylgjandi aflagjaldi og kvótastefnan sem reifuð var á Akureyrarfundinum sællar minningar breyttist svo í andstöðu sína fyrir síðustu kosningar þegar ekki var hægt að skilja Alþb. öðruvísi en svo að nú væri það fylgjandi sóknarmarki. Í dag veit enginn og allra síst flokkurinn sjálfur hvaða stefna raunverulega hefur yfirhöndina í Alþb. í þessum efnum. Ég verð því að segja það, virðulegi forseti, að ég hef ríka samúð með viðhorfi hv. þm. Jóhanns Ársælssonar sem kom fram í viðtali Morgunblaðsins við hann á landsfundi Alþb. þegar hann sagði um sjávarútvegsstefnu flokksins: Ja, hún er bara grín. Það hefur ekkert breyst síðan.
    Virðulegi forseti. Sl. 10 ár hefur staðan í sjávarútvegi ekki verið jafnslæm og nú. Einungis örfá fyrirtæki sýna hagnað meðan tap hinna nemur háum upphæðum. Í heild er greinin rekin með 8--9% halla af tekjum. Tapið á botnfiskveiðunum er yfir 5% og af botnfiskvinnslunni hallar tapið í 7%. Þess misskilnings gætir stundum, ekki síst hjá stjórnarandstöðunni, að þau umskipti sem orðið hafa á högum greinarinnar eigi rætur að rekja til stefnu núv. ríkisstjórnar, ekki síst í vaxta- og gengismálum. Þetta eru hins vegar fráleitar fullyrðingar og séu þær hleypidómalaust brotnar til mergjar verður niðurstaðan allt önnur. Áður en ríkisstjórnin breytti genginu í nóvember var raungengi talsvert lægra en 1987 og verulega lægra en 1988. Síðan hefur ríkisstjórnin lækkað gengið til mikilla hagsbóta fyrir sjávarútveginn og það má minna á að það var Alþb. sem fjandskapaðist einna mest út í gengisbreytinguna og formaður þess taldi hana byggða á röngum forsendum. En ég spyr: Hvernig ætli staða sjávarútvegsins væri í dag ef þessi breyting hefði ekki komið til?
    Sama máli gegnir um vaxtastefnuna. Um 65% af skuldum sjávarútvegsins eru gengistryggðar skuldir. Síðustu árin hafa raunvextir af þeim lækkað og menn telja að á þessu ári muni þeir enn lækka um 1% í viðbót. Ef vextir innan lands lækka svipað á sama tíma þá leiðir það eitt til þess að afkoma sjávarútvegsins mun batna um 1,5% af tekjum. Eins og menn vita þá hefur ríkisstjórninni einmitt tekist með skynsamlegri fjármálastjórn að skapa aðstæður sem gera vaxtalækkanir mögulegar. Við þetta má svo bæta að ríkisstjórnin létti verulega undir með greininni á síðasta ári þegar hún felldi niður mikla skatta af sjávarútvegi.
    Þetta sýnir svo ekki verður um villst að ríkisstjórnin verður ekki sökuð um að hafa hagað stefnu sinni í skatta-, vaxta- og gengismálum með þeim hætti að það eigi einhvern þátt í erfiðleikum greinarinnar. Og þegar menn vilja móta nýja sjávarútvegsstefnu þá verða þeir að skilja af hvaða rótum vandinn er runninn. Hann er þríþættur. Í fyrsta lagi hefur aflinn minnkað mjög verulega síðustu árin og það má taka það sem dæmi um þessi áhrif ef litið er til botnfiskveiðanna. Einungis aflaminnkunin sem hefur orðið síðan 1989 hefur rýrt afkomu þeirra um hvorki meira né minna en 8--9%. Þetta þýðir einfaldlega að væru Íslendingar í dag að veiða sama aflamagn og árið 1989 þá væri dágóður hagnaður af botnfiskveiðum.
    Í öðru lagi hefur fiskverð á mörkuðum okkar farið mjög lækkandi. Í þriðja lagi stafar svo vandi greinarinnar af óhóflegum skuldaklyfjum sem offjárfesting síðasta áratugar á stóran þátt í. Þessi offjárfesting birtist í því að það eru of mörg skip að sækja of lítinn afla, of margar vinnslustöðvar að vinna allt of lítinn afla. Kostnaðurinn við að sækja og vinna hráefnið hefur því smám saman aukist og framleiðnin til að greiða afborganir og vexti hefur minnkað að sama skapi.
    Helsta verkefni ríkisstjórnarinnar í dag hlýtur að vera að breyta þessu umhverfi. Það hlýtur að vera forgangsverkefni hennar með mótun nýrrar sjávarútvegsstefnu og það er einmitt fróðlegt að koma hér að því að ríkisstjórnin hefur orðið ásátt um stofnun þróunarsjóðs sjávarútvegsins sem ég tel eitt merkasta nýmælið í sjávarútvegi um áratuga skeið. Þróunarsjóðurinn heggur einmitt að rótum þess vanda sem felst í of stórum flota og of mörgum vinnslustöðum. Með honum á að stuðla að aukinni arðsemi í greininni með því að fækka einingum. Í því skyni á þróunarsjóðurinn að kaupa tiltölulega hratt upp fiskvinnslustöðvar og framleiðslutæki og jafnframt að greiða styrki til úreldingar fiskiskipa. Með þróunarsjóðnum eru úreldingarstyrkirnir hækkaðir um helming og væntanlega hraðar það talsvert minnkun flotans. En jafnfram verður hinum nýja sjóði heimilað að vinna með lánastofnunum að endurskipulagningu fyrirtækja í því skyni að auka hagræði í greininni.
    Virðulegi forseti. Hér er um afar merka nýjung að ræða í íslenskum sjávarútvegi. Ég tel að ef rétt er á málum haldið þá geti hún skipt sköpum fyrir greinina í þeirri erfiðu stöðu sem hún er í núna. Tekjur þróunarsjóðsins eiga að verulegu leyti að koma frá sérstöku gjaldi sem lagt verður á úthlutaðar veiðiheimildir. Þetta þróunargjald er lágt. Mun lægra en þær hugmyndir um aflagjald sem heyrst hafa úr herbúðum Alþb. og gjaldið á heldur ekki að koma til framkvæmda fyrr en á árinu 1996 þegar spáð er auknum þorskafla. Þá á jafnframt að verða lokið kaupum sjóðsins á vinnslustöðvum og tækjum í landi og verulegri hagræðingu þar með komið í kring. Þróunargjaldið tengist þannig vonum um bætta afkomu í greininni.
    Virðulegi forseti. Íslendingar hafa á síðustu missirum haslað sér í vaxandi mæli völl í sjávarútvegi erlendra þjóða. Sú virðing sem íslenskur sjávarútvegur nýtur alþjóðlega hefur gert það að verkum að í síauknum mæli er sóst eftir þátttöku okkar í verkefnum ytra. Fjárhagslegt bolmagn greinarinnar er hins vegar svo veikt að það er erfitt fyrir Íslendinga að notfæra sér tækifæri erlendis og þess vegna fagna ég því sérstaklega að með þróunarsjóðnum verður heimilt að stuðla að þátttöku íslenskra aðila í sjávarútvegsverkefnum erlendis með því að veita styrki, lán og ábyrgðir til verkefna. Ég tel hins vegar, virðulegi forseti, að það eigi að ganga lengra í þessum efnum. Vonarbjarminn í íslenskum sjávarútvegi liggur ekki síst í þeirri staðreynd að við eigum enn þá fjölda ónýttra fiskstofna við landið en það er kostnaðarsamt að hefja tilraunaveiðar á nýjum tegundum. Það þarf að kanna miðin og finna réttar aðferðir til veiðanna.
    Árið 1989 byrjuðu Íslendingar tilraunaveiðar á úthafskarfa. Þær gengu ekki vel í byrjun, það þurfti tíma, peninga, tæki, til að finna réttu leiðirnar. En það tókst. Það tókst ekki síst vegna þess að hið opinbera veitti liðsinni sitt í upphafi. Í dag ganga veiðar á úthafskarfa vel. Aflinn nemur tugum þúsunda tonna og fer vaxandi. Veiðarnar skila hagnaði og skapa umtalsverða atvinnu. Ég tel því mjög brýnt að í þróunarsjóðinn verði bætt ákvæði sem heimili honum að styðja við bakið á þeim sem hyggja á tilraunaveiðar á nýjum tegundum. Auk úthafskarfa nefni ég djúpkarfa, blálöngu, tvær tegundir langhala, gulllax, búra, nokkrar tegundir háfiska --- ég sleppi því að nefna álsnípuna --- og svo mætti raunar lengi telja. Það verður að veita þróunarsjóðnum heimild til að styðja við tilraunaveiðar á þessum tegundum. Í þeim, ekki síst, liggur framtíðin.
    Virðulegi forseti. Það hefur komið skýrt fram í fjölmiðlum að hæstv. sjútvrh. er efins um hvort tímabært sé að koma fram með þau frv. sem nú liggja fyrir um nýja sjávarútvegsstefnu og hann hefur sérstaklega nefnt andstöðu formanns þingflokks Alþfl. við þann þátt sem lýtur að smábátum. Ég vil að því tilefni segja þetta: Í meginatriðum ríkir bærileg sátt innan stjórnarflokkanna um langstærstu atriðin, þróunarsjóðinn, aflamarkið og að aflaheimildir skuli vera framseljanlegar. Ég eins og fleiri tel að vísu nauðsynlegt að löggjafinn sjái til þess að með engu móti verði hægt að misnota framsal aflaheimilda til að skerða kjör sjómanna og ég á von á að það verði gert. En um meginatriðin er sátt. Einstakir þingmenn hafa hins vegar gert fyrirvara við þann þátt sem lýtur að smábátum og slíka fyrirvara er ekki einvörðungu að finna hjá mér og ekki heldur aðeins innan Alþfl. Ég vil ekki liggja á þeirri skoðun minni að ég tel að það sé þjóðhagslega hagkvæmt að hlúa að smábátaútgerð og það kemur raunar mjög skýrt fram í samþykkt síðasta flokksþings Alþfl. Ég og aðrir sem erum sömu skoðunar innan míns flokks höfum hins vegar lýst því yfir að við erum reiðubúin til að reyna að finna ásættanlega málamiðlun þannig að yfirlýsingar góðra manna í fjölmiðlum um skyndilegt andlát þessara tillagna af þessum sökum eru afskaplega ótímabærar, virðulegi forseti, svo ekki sé meira sagt.