Umhverfisgjald

166. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 15:08:20 (7665)


     Árni M. Mathiesen :
    Frú forseti. Ég vil í upphafi máls míns endurtaka þakkir til hv. flm. fyrir að flytja þessa tillögu sem ég tel vera bæði athyglisverða og áhugaverða og efni til að fjalla mjög rækilega um hana þó ég skuli nú ekki tala mjög lengi hér. En ég tel að það sé efni til að fjalla um hana í nefnd því það skiptir mjög miklu máli hvernig þessi mál eru útfærð þannig að það fáist sem best niðurstaða. Umhverfisgjöld eins og gerð er grein fyrir í greinargerðinni teljast til svokallaðra hagrænna stjórntækja og þeim er beitt í æ ríkari mæli til að ná markmiðum í umhverfismálum. Hagrænum stjórntækjum er beitt til að við efnahagslega og viðskiptalega ákvarðanatöku sé tekið tillit til þess kostnaðar sem við höfum af því að skaða umhverfið og ella væri ekki tekinn með í reikninginn. Þetta er m.a. leið til að beita hinum frjálsa markaði til að

aðlaga neyslu, viðskipti og framleiðslu að markmiðum umhverfisverndar og sjálfbærrar þróunar. Ég er þess vegna mjög hlynntur því að þessum aðferðum sé beitt til að ná markmiðum í umhverfismálum. Þetta er að ryðja sér mjög til rúms erlendis og ekki síst innan Evrópubandalagsins og meðal þeirra þjóða sem standa að EES-samkomulaginu og vil ég í því tilefni vitna til greinargerðarinnar sem fylgir tillögu til þál. um umhverfisgjald og eins til OECD-letter frá því í mars 1993, bls. 5, þar sem verið er að segja frá því hvernig svokallað ,,Marked based approach to environment suggested for UK`` þar sem sagt er frá því og þar er m.a. talað um svokallað ,,Carbon tax`` sem mikið hefur verið til umræðu innan Evrópubandalagsins og er í samræmi við það sem vitnað er til í greinargerð þáltill. um umhverfisgjald.
    Um umhverfisgjöld og umhverfisskatta hefur verið mikið fjallað að undanförnu og vil ég þá vísa til skýrslu umhvrh. um mótun stefnu í umhverfismálum sem lögð var fram á Alþingi fyrr í vetur. Þar er á bls. 10, grein 32, talað um sex almennar aðferðir sem undirstöðu nýrrar nálgunar í umhverfismálum og þar á meðal er talað um hagræn stjórntæki, svo sem umhverfisskatta og skilagjöld.
    Þar er einnig talað um á bls. 15, þar sem aftur er fjallað um hagræn stjórntæki, grein 80, að hafin verði gagngerð endurskoðun skattalaga og opinberra gjalda til að laga neyslu, atvinnulíf og hagkerfi að kröfum sjálfbærrar þróunar.
    Það er einnig talað um það í greinum 106 og 107 að hagrænum stjórntækjum verði beitt til þess að hvetja fyrirtæki og heimili til að draga úr sorpmyndun og auka endurnýtingu og að skilagjöldum á drykkjarvöruumbúðum verði beitt í ríkari mæli en nú er og að skilagjöld verði sett á ökutæki og farandvinnuvélar. Einnig er í 107. gr. rætt um umhverfisgjöld á efni, sem geta orðið að hættulegum úrgangi, til að draga úr notkun þeirra.
    Neðst á bls. 17 og á bls. 18 er talað um þá jákvæðu reynslu sem hlotist hefur af því að hafa verðmismun á bensíni eftir blýinnihaldi.
    Enn fremur er talað um það á bls. 22 að hagrænum stjórntækjum verði beitt til að stuðla að aukinni notkun innlendra orkugjafa í stað olíu og kola og notkun hreinni framleiðslutækni. Á sömu bls., 155. gr., að leitað verði leiða til að leggja umhverfisgjöld á farartæki sem ferðamenn koma með til landsins.
    Að lokum er á bls. 25, þar sem dregnar eru saman helstu niðurstöður skýrslunnar, talað um að sérstök áhersla verði lögð á að efla forvarnir og markvissa notkun hagrænna stjórntækja.
    Því má jafnvel segja að flutningur þessarar tillögu sé óþarfur þar sem ríkisstjórnin er þegar farin að vinna að þeim málum sem tillagan gengur út á en það ber auðvitað að fagna því í hvert skipti sem við fáum tækifæri til þess að fjalla um þessi mál og ræða þau á Alþingi því væntanlega færir það okkur nær því takmarki, svo ég vitni aftur í skýrsluna, að hægt sé að beita hagrænum stjórntækjum á markvissan hátt.
    Það er hins vegar eitt atriði sem ég held að við þurfum að íhuga mjög vandlega, það er það sem fram kemur í tillögunni, það sem ég kalla að um markaðan tekjustofn væri að ræða þar sem öllum tekjum sem af þessum gjöldum kæmu í ríkissjóð væri varið til umhverfismála. Ég held að þetta geti verið mjög varhugavert og það geti leitt til erfiðleika við stjórnun á fjármálum ríkisins eins og markaðir tekjustofnar að öllu jöfnu gera. Þeir minnka þann sveigjanleika sem ríkisvaldið hefur á hverjum tíma og Alþingi til þess að bregðast við erfiðum aðstæðum og aðlaga útgjöld hins opinbera að breyttum aðstæðum og viðhorfum.
    Ég er ekki með þessu að segja að það geti ekki verið rétt og eðlilegt að samsvarandi fjárhæð og innheimtist með álagingu umhverfisgjalda sé veitt til umhverfismála, heldur hitt að það geti verið varhugavert að festa það í lög vegna þeirra áhrifa sem það getur haft á möguleika til að bregðast við nýjum og jafnvel oft erfiðari aðstæðum.
    Ég vil að lokum endurtaka þakkir mínar til hv. flm., sérstaklega 1. flm., og hlakka til þess að fá tækifæri til þess að fjalla um tillöguna í nefnd.