Evrópskt efnahagssvæði

166. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 16:31:26 (7674)

     Frsm. meiri hluta utanrmn. (Björn Bjarnason) :
    Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. meiri hluta utanrmn. sem birt er á þskj. 1020 um frv. til laga um breytingu á lögum um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993. Í álitinu segir að nefndin hafi fjallað um frv. og meiri hlutinn leggi til að það verði samþykkt.
    Með frv. er verið að gera breytingar á lögunum um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu sem Alþingi samþykkti 12. jan. sl. og leiðir þær af því að Sviss ákvað í þjóðaratkvæðagreiðslu 6. des. sl. að gerast ekki aðili að svæðinu. Breytingarnar eru því tæknilegs eðlis frekar en efnislegar.
    Við meðferð málsins í nefndinni hefur jafnframt verið fjallað á nýjan leik um bókun 3 við EES-samninginn. Sú bókun er um landbúnaðarmál og er samningaviðræðum um endanlegan frágang hennar enn ólokið. Meiri hluti nefndarinnar telur nauðsynlegt að Alþingi fái eins og hingað til nákvæmar upplýsingar um framvindu mála í þeim samningaviðræðum þannig að þingmenn eigi þess kost að taka afstöðu til málsins þar til endanlegar niðurstöður viðræðnanna liggja fyrir.
    Þetta nefndarálit undirrita auk mín Karl Steinar Guðnason, Geir H. Haarde, Árni R. Árnason og Lára Margrét Ragnarsdóttir.
    Herra forseti. Það er í sjálfu sér óþarft fyrir mig að fara fleiri orðum um þetta mál. Það liggur skýrt fyrir og er einfalt í eðli sínu. Ég vil hins vegar láta þess getið að í tengslum við afgreiðslu málsins ræddi utanrmn. ítarlega um samningaviðræðurnar um bókun 3 við EES-samninginn, þ.e. þá bókun sem fjallar um landbúnaðarmál og fékk upplýsingar frá ýmsum aðilum, m.a. hv. landbn. um það efni, ræddi við fulltrúa bændasamtaka og einnig yfirdýralækni. Það er skoðun meiri hlutans að ekkert sem fram hafi komið sé þess eðlis að eigi að hafa áhrif á afgreiðslu þessa frv. en við töldum nauðsynlegt í meiri hlutanum að árétta vilja okkar til þess að hafa áframhaldandi afskipti af samningagerðinni um bókun 3 með því að setja ákvæði um það atriði inn í okkar álit. Ég er þess fullviss að það mun fram ganga og utanrmn. og landbn. muni gefast færi á því að fylgjast náið með framvindu viðræðnanna um bókun 3, en þeim verður haldið áfram nú á þessu ári og verður vafalaust tækifæri til þess að ræða það mál síðar hér á þinginu.