Evrópskt efnahagssvæði

166. fundur
Fimmtudaginn 29. apríl 1993, kl. 16:43:38 (7676)


     Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Það er nokkuð sögulegur dagur hér á Alþingi Íslendinga þegar rætt er um frv. um breytingu á ólögum sem samþykkt voru á þinginu í janúarmánuði, að vísu marklítil vegna þess að sá samningur sem þá lá fyrir, var enginn samningur, ekki fullbúinn. En síðan hefur það gerst að mál þetta hefur verið til lykta leitt á vettvangi samningsaðila um Evrópskt efnahagssvæði og hér liggur fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um Evrópskt efnahagssvæði, komið frá hv. utanrmn. þar sem meiri hluti nefndarinnar leggur til að málið verði samþykkt.
    Ef þetta gengur eftir, þá mun það gerast innan ekki langs tíma að meiri hluti á Alþingi Íslendinga stígur það mikla ógæfuspor að tengja Ísland við viðskiptabandalag og pólitískt bandalag eins og flokka má Evrópubandalagið og þá útvíkkun þess sem felst í Evrópsku efnahagssvæði. Þetta er að vísu skref ef tekið verður sem ekki er óafturkræft og það getur orðið verkefni okkar hér á Alþingi á næstu árum, vonandi ekki allt of mörgum, að berjast um í þessu neti, varast það að við verðum flækt í enn þéttriðnara net Evrópubandalagsins og leitast við að losa Íslendinga undan þessum samningi. Það kæmi mér ekki á óvart þó að þeim fjölgaði hér á Alþingi sem innan nokkurs tíma, að fenginni reynslu af þessum samningi, óskuðu þess að önnur spor hefðu verið stigin en þau sem hér eru í undirbúningi með því að tengja okkur inn í Evrópskt efnahagssvæði. Það er mikil ábyrgð þeirra alþingismanna sem kunna að verða þess valdandi að þessi verði niðurstaðan og það getur orðið þungur dómur sem sagan kveður upp yfir þeim sem eru þátttakendur í þeirri ferð.
    Það er mikil ábyrgð sem fylgir því að tefla gegn íslensku stjórnarskránni og ákvæðum hennar, að gera samning sem að góðra manna yfirsýn stangast á við fjölmörg atriði íslensku stjórnarskrárinnar með beinum og augljósum hætti gegn nokkrum ákvæðum hennar og óvissa er aftur um aðra þætti sem bætast þar við. Það er mikil ógæfa í því fólgin að ætla að svipta Alþingi Íslendinga í reynd möguleikum til mótun löggjafar á þýðingarmiklum sviðum þjóðmála eins og verið er að gera ef þessi samningur á að ganga yfir. Það er fátt sem er ógeðfelldara en þegar menn eru að verja gerðir sínar með því eins og talsmenn þessa samnings, málsvarar, eru að gera með því að vísa til þess að Alþing haldi eftir formlegu valdi til neitunar á þeim lögum og reglum sem Evrópubandalagð mótar og berast hér inn á borð þingsins á færibandi í skjóli þessa samnings. Það er auðvitað öllum ljóst að þannig er um hnútana búið að hér er um hreint formsatriði að ræða sem ekki verður unnt að nota í reynd fyrir Alþingi Íslendinga nema í hreinum undantekningartilvikum, enda auðvitað ekki til efnahagssvæðisins stofnað með það fyrir augum að Alþingi leggi sjálfstætt mat á löggjöf, á ákvarðair, heldur þvert á móti. Það er verið að setja Ísland og þau málasvið öll, mikilvægustu málasvið íslenskra efnahagsmála, atvinnumála og ýmissa þátta félagsmála inn í gangverk þar sem við erum jafnfest inn í það og tannhjól, eins og lítil tönn í miklu gangverki og þar sem hlutur alþingismanna gæti minnt á leikarann í Nútíma Chaplins sem fékkst við það að viðhalda vélinni og gangverkinu. Að uppfylla formið, að stimpla ákvarðanirnar sem teknar verða á fjölþjóðlegum vettvangi, undirbúnar af fjölda embættismanna frá löndunum 17 sem þarna eiga að vera þátttakendur. Það sem hér er að gerast er að það er verið að þrengja stórkostlega að lýðræði í landinu með þessum samningi og fela embættismönnum undirbúning ákvarðana og við aðstæður sem veita þeim í raun fáa möguleika til þess að koma íslenskum sjónarmiðum og íslenskum hagsmunum á framfæri, hvað þá að halda þeim til haga í nefndunum sem eiga að undirbúa málsgögnin til framlags og það sem embættismannaliðið frá EFTA-ríkjunum 6 eða 5 eins og þau nú eru sem fyrst þá yrðu aðilar að þessum samningi þar sem þeir eru í hlutverki áheyrandans, þar sem valdið liggur hjá embættismannagengi Evrópubandalagsins og að lokum hjá

ráðherraráði Evrópubandalagsins. Það er þetta samhengi sem um er að ræða, það er þetta sem felst að því er Alþingi Íslendinga varðar í þessum samningi.
    Menn eru svona að fá rétt fyrsta forsmekkinn að því hvernig það verður þó ekki væri nema fylgjast með og halda áttum fyrir embættismennina í þessu flókna gangvirki. Menn sjá það á afsökunum stjórnmálamanna fyrir hinum svokölluðu mistökum sem þó eru kannski með vilja gerð í sambandi við þýðingarmikla þætti sem varða aðdraganda málsins og undirbúning samninga og birtast m.a. í þeirri afgreiðslu sem fyrir liggur að því er varðar íslenska hagsmuni á sviði landbúnaðarmála og mjög hafa verið til umræðu nú að undanförnu. Eitt lítið sýnishorn af því hvernig á þessum málum hefur verið haldið og þar á margt eftir að bætast í það safn því að við þyrftum að vera liðmargir og með mörg augu á vettvangi nefndanna 2.000 sem talað var um eitt sinn að stofnað yrði til í skjóli þessa samnings og til þess að tryggja viðgang hans og það verður ekki lítil straumur íslenskra embættismanna og stjórnmálamanna út á þennan fjölþjóðlega vettvang til þess að taka þátt í þessu gangverki. Það blikna nú allmjög kostnaðartölurnar í sambandi við utanferðir á vegum íslensku stjórnsýslunnar ef þessi samningur verður að veruleika. Það þýðir lítið að tala um að það eigi að skera það niður á þeim vettvangi eins og mjög hefur verið reynt, eðlilega, að veita aðhald á því sviði því að þá er ekkert um annað að ræða en segja: Við bara gefumst upp við það að reyna að fylgjast með, við bara gefumst upp við það að reyna að halda áttum. Við látum þetta bara koma óséð hér inn á borðin, tökum við því sem að okkur er rétt og það er kannski úrræði sem er ekki jafnfjarstæðukennt og ætla mætti vegna þess að aðstaða okkar til áhrifa í þessu kerfi til að halda til haga okkar hagsmunum er svo sáraveik sem raun ber vitni. Úrslitavaldið í öllum tilvikum í löggjöf og reglugerðarsetningu á þessu svæði samkvæmt þessum samningi liggur hjá Evrópubandalaginu.
    En það er nú kannski óþarflega mikil svartsýni að bóka það hér með að þessi verði niðurstaðan. Ég hef að vísu ekki von um það úr þessu að það verði meiri hluti á Alþingi til að vísa þessu máli frá. Hann er ekki í sjónmáli. En það er samt margháttuð óvissa tengd við afgreiðslu þessa máls áður en samningurinn öðlaðist gildi og fullnaðarstaðfestingu. Sem betur fer er enn von, kannski veik von, en alltént von til þess að þetta mál verði aldrei að veruleika. Það er að vísu illt til þess að vita að það verði ekki Alþingi Íslendinga sem aftengi þennan samning heldur einhver önnur þing sem hugsanlega koma þar við sögu og við eigum eftir að fylgast með því nú á næstu mánuðum hver verði niðurstaðan í því sambandi, hver verði afgreiðslan á vettvangi annarra þjóðþinga og þá er sérstaklega horft til þinga innan Evrópubandalagsins þar sem áhugi á þessu máli er misjafnlega mikill og ljóst er að ýmsir tengja afgreiðslu þessa samnings, þessarar útvíkkunar Evrópubandalagsins til norðurs sem hér er verið að framkvæma með vissum hætti, framgangi og afdrifum Maastricht-sáttmálans á vettvangi Evrópubandalagsins, þeirra þróunar og þeirra ákvarðana sem honum fylgja í átt til ríkisstofnunar á grundvelli núverandi EB. Það er nefnilega langt frá því að veruleikinn sé sá sem ýmsir láta í skína, að samrunaþróunin innan Evrópubandalagsins sé nánast stöðvuð, samrunaþróunin í átt að sambandsríki eða ríkisheild sé komin í strand. Það er að vísu rétt, það er talsverð óvissa um það hversu hratt það ferli muni ganga og hver afdrifin munu verða. En allur liggur straumurinn enn sem komið er frá ráðamönnum í þessum löndum í þá átt að knýja fram þennan samruna, knýja Maastricht-samkomulagið fram til samþykktar og framkvæmda. Og í því felst að með því, ef eftir gengur, er komið allt annað EB, allt annar aðili sem hefur undirtökin innan Evrópsks efnahagssvæðis heldur en nú er um að ræða, allt annað Evrópubandalag. Og menn eru eðlilega að kalla það öðru nafni, Evrópusamband held ég að hafi verið í skýrslu utanrrh. hér á dögunum, Evrópusamveldi tala aðrir um. Á erlendu máli er þetta Union eins og var notað um Sovétríkin, Sovét Union, European Union á enskunni sem þarna er á ferðinni, þetta nýja væntanlega Evrópustórveldi. Og það er sá aðili ef eftir gengur sem hefur öll undirtök gagnvart Íslendingum sem öðrum þeim sem undririta og gerast þátttakendur í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Það er þetta Union sem ætlar sér að stofna sjálfstæðan her, reka sjálfstæða utanríkisstefnu og er þegar komið á leið með samræmingu sinnar utanríkisstefnu og fylgir henni eftir með samræmdri stefnu á sviði öryggismála og

sjálfstæðum her. Og það var hér verið á Alþingi í gær að tengja Ísland inn við þetta hernaðarbandalag Evrópubandalagsis, virðulegur forseti. Það voru þær ákvarðanir sem teknar voru hér í gær á Alþingi Íslendinga að gera Ísland að svokölluðum aukaaðila, viðhengi við þetta hernaðarbandalag Evrópubandalagsins svo að það er náttúrlega alveg ljóst að hverju er stefnt, hvert straumar liggja hjá þeim meiri hluta sem ræður ferðinni á Alþingi Íslendinga og ætlar með þessum samningi ekki aðeins að veikja stórkostlega löggjafarvaldið heldur jafnframt að tengja okkur við Evrópubandalagið í sambandi við þess hernaðarumsvif og hernaðarstefnu þar sem við fáum engu ráðið um það hvert kastið lendir hverju sinni. Kylfa verður látin ráða kasti að því er okkur varðar í þeim efnum og er það satt að segja ömurlegt hlutskipti sem okkur er þannig ætlað. En það er sem sagt enn þá von til þess að þetta steyti á skeri, þessi samningur og það yrðu söguleg tíðindi ef svo færi, en fram til þessa hafa skerin verið býsna mörg en þó losnað um skútuna og þess vegna erum við stödd þar sem við erum stödd í dag varðandi þetta stóra mál.
    Það hefur verið staðið með afar ólýðræðislegum hætti að þessu máli, að undirbúningi um þetta mál og ákvörðunum um það. Þessi samningur lá ekki fyrir þegar gengið var til kosninga á Íslandi vorið 1991, virðulegur forseti. Þá lá enginn samningur fyrir. Þessi samningur var ekki hátt uppi í hugum Íslendinga þegar gengið var að kjörborðinu 1991. Þrátt fyrir það hafnaði meiri hluti þeirra, sem eru að knýja þetta mál fram, þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Það mátti ekki gerast að íslenska þjóðin fengi að segja álit sitt á þessu máli. Slík er nú lýðræðisástin hjá því liði sem er að knýja þetta mál fram á Alþingi Íslendinga, gegn íslensku stjórnarskránni, gegn íslenska lýðveldinu, hornsteinum þess. Það er ljóta lestin og aumt á að líta.
    En það er víðar sem þannig er staðið að málum. Ef litið er til Noregs, nágrannaríkis okkar, þá er það nú kannski enn þá átakanlegra. Þar var síðast kosið ef ég man rétt 1989 áður en farið var að festa nokkuð á blað varðandi þetta mál, nokkuð á blað. Norskir kjósendur höfðu ekki heyrt minnst á þetta svæði nema kannski rétt í aðdraganda þess að farið væri að fjalla um það, undirbúa könnunarviðræður. Og staða er þannig að á þessum degi er norska Stórþingið í sömu sporum og Alþingi Íslendinga að ræða þetta mál, komið frá utanríkismálanefnd norska Stórþingsins og þar munu atkvæði væntanlega ganga í dag af þingmönnum sem eru umboðslausir að því er varðar þetta mál og hafa hafnað eins og hinn naumi meiri hluti hér á Alþingi Íslendinga að veita norsku þjóðinni aðgang að málinu. Þó eru ekki nema örfáir mánuðir þangað til norska þjóðin samkvæmt sínum lögum og reglum gengur að kjörborði í septembermánuði nk. og það liggur alveg fyrir, það eru allar vísbendingar í þá átt, virðulegur forseti, samkvæmt skoðanakönnunum þar í landi að sá aukni meiri hluti sem þarf að vera fyrir samþykkt svona máls verði ekki til staðar að kosningum loknum að hausti í Noregi. Þess vegna leggur það lið sem er að knýja þetta mál fram þar í landi höfuðkapp á það að afgreiðslan verði fyrir kosningar tekin af umboðslausum þingmönnum að því er þetta mál snertir. Allt bendir til þess að forustuflokkar þessa máls í Noregi, virðulegur forseti, norski krataflokkurinn í fararbroddi í nánu bandalagi við hægri flokkinn eins og hér á Íslandi, gjaldi afhroð í kosningunum þar og þeir flokkar sem einbeittastir eru í andstöðunni við þetta mál fái aukið brautargengi sem nægði til þess ef það biði úrslitakosninga til þess að samningurinn hlyti ekki samþykki eftir norskum reglum með 3 / 4 meiri hluta sem krafist er í Stórþinginu fyrir samþykkt máls sem felur sér framsal grundvallarréttinda, landsréttindi í Noregi en ekki 50% eða einfalds meiri hluta eins og hér á Alþingi Íslendinga. Það er fróðlegt fyrir Alþfl. hér á landi, kratana hér á landi að virða fyrir sér stöðuna hjá flokksbræðrum og flokkssystrum í Noregi eins og horfurnar eru núna í þeim hlutum Noregs sem m.a. byggja mest á sjávarútvegi, norðurhlutanum þar sem staðan er nú sú eftir vísbendingum að sósíalíski vinstri flokkurinn er kominn vel yfir kratana í þremur nyrstu fylkjum Noregs. Það segir kannski svolítið um eðli þessa máls varðandi dreifbýlið, varðandi hagsmuni dreifbýlis og varðandi hagsmuni sjávarútvegs. Það segir kannski eitthvað um það því að það er einmitt dreifbýlið á Íslandi, það er landsbyggðin á Íslandi sem fyrst mun gjalda fyrir þetta mál þó að blóðið eigi eftir að streyma frá þjóðarheildinni í efnahagslegu tilliti vegna þessa samnings svo að ekki sé nú talað um

þróttinn sem tengist því að viðhalda sjálfstæði, taka sjálfstæðar ákvarðanir. Það verður landsbyggðin hér sem mun fyrst lenda í útsoginu en auðvitað mun það bitna fyrr en varir á þjóðarheildinni.
    Við erum farin að sjá móta fyrir afleiðingum þessa samnings því að það er svo að þeir hafa verið svo kappsfullir, ráðherrar í ríkisstjórninni og meiri hluti hér á Alþingi, að innleiða leikreglur fjórfrelsisins sem er undirstaða þessa máls áður en samningurinn gengur í gildi. Sú stefna, sem samningurinn felur í sér, er þegar búin að hafa áhrif á íslenska löggjöf og ákvarðanir íslensks framkvæmdarvalds, t.d. í sambandi við gjaldeyrismál og í sambandi við fjármagnsflutninga og menn eru þegar farnir að verða varir við áhrifin og þau eiga auðvitað eftir að magnast. Í hvaða átt ætli sá straumur muni liggja varðandi sparifé landsmanna? Hvað halda menn um það? Halda menn að það streymi hér inn fjármagnið í bankastofnanirnar erlendis frá? Haldið þið að menn hamist við að ávaxta sitt pund hér í bönkunum uppi á Íslandi, lífeyrissjóðirnir, aðrir sem yfir fjármagni ráða? Ætli þeir fylgi ekki ráðunum um að dreifa áhættunni og ætli fari ekki að lækka á reikningunum hér innan lands og þrengjast um varðandi takmarkaða möguleika Íslendinga til að byggja upp eigið atvinnulíf í krafti þess litla fjármagns sem við búum yfir.
    Með mestum fádæmum varðandi þetta mál er það sem snýr að fyrirheitum stjórnarflokkanna sjálfra og forustumannsins á skútunni, Jóns Hannibalssonar, hæstv. utanrrh. Að því er varðar þær lagasetningar sem átti þó að halda til haga varðandi íslenska hagsmuni, varðandi íslenskar náttúruauðlindir, sem áttu að tryggja að það yrði reynt að verjast í þeim efnum og tryggja a.m.k. að það liggi fyrir sæmilega skýrar leikreglur að því er það varðar. Einn fylgiþáttur þessa samnings varðar aðgang skipa frá Evrópubandalaginu að íslenskri fiskveiðilögsögu, mál sem þegar er búið að afgreiða hér á Alþingi Íslendinga þó að dokað sé við með staðfestingu þess, sem er þannig í sniðum, er þannig í stakk búið að með miklum fádæmum er þar sem látið er að því liggja að um sé að ræða skipti á hagsmunum en ekki einhliða yfirgang sem er reyndin í þessu máli, einhliða gjöf til Evrópubandalagsins að því er varðar aðgang að íslenskum fiskimiðum og ekkert kemur á móti. Einhver pappírsloðna norður í höfum sem Evrópubandalagið hefur ekki reynt að hagnýta sér í bráðum áratug og sýnir engan lit á að ætla að reyna að nýta og sem Íslendingar hefðu þar með fullan aðgang að, viðurkennt af öllum sem líta á málið og liggur fyrir hvernig þeim málum hefur verið hagað. Á móti koma svo svardagar, eini fyrirvarinn sem menn stóðu þó á varðandi samninginn. Það er fjárfestingin í fiskiskipum og frumvinnslu sjávarafurða, fyrirtækin sem vinna sjávarafurðir í frumvinnslu. En ætli það sé nú hugmyndin hjá stjórnarflokkunum að standa fast á þeirri löggjöf sem þar liggur fyrir? Nei. Ef marka má tillögur þeirrar endemis nefndar sem stjórnarflokkarnir settu á laggirnar og hlaut heitið tvíhöfði, tvíhöfða skrímsli ríkisstjórnarinnar, þá má lesa í tillögum hennar sem eitt af hinum brýnu atriðum að rýmka um fjárfestingaheimildir útlendinga á sviði sjávarútvegsmála í fiskiskipum og í vinnslustöðvum, að eitt verði látið yfir atvinnuvegina ganga að því leyti að aðgengi útlendinga verði hið sama að því er snýr að sjávarútveginum væntanlega innan tíðar eins og varðandi aðra atvinnuvegi. Þetta er staðan með þann fyrirvara eins og tillögur liggja fyrir frá þessari nefnd skipaðri undir forustu trúnaðarmanna stjórnarflokkanna tveggja.
    Á sviði jarðnæðis liggur fyrir frv. sem hefur ekki mikið heyrst um upp á síðkastið í þinginu. Þetta er frv. frá landbrh. sem ætlað var til þess að þrengja möguleika útlendinga til þess að eignast jarðnæði, kaupa lendur á Íslandi, kaupa upp land. Ekki hefur heyrst mikið um það mál upp á síðkastið, frv. til laga um breytingu á jarðalögum sem er þannig í stakk búið að þegar átti að fara að þrengja að kom auðvitað í ljós, virðulegi forseti, að samkvæmt grundvallarleikreglum EES yrði eitt yfir útlendingana og Íslendinga að ganga. Einn grundvallarþáttur þessa máls er að ekki má mismuna eftir þjóðerni. Það gæti farið að þrengjast um á hinum húnvetnsku heiðum áður en langt um líður, virðulegi forseti og í dölum Húnavatnssýslu, dölum norðan lands, á eyjum og útskögum við Ísland þegar aðilar í Evrópsku efnahagssvæði, fjársterkir aðilar í Evrópubandalaginu, Þjóðverjar í fararbroddi, fara að kemba möguleikana til þess að komast yfir jörð og land á Íslandi til afnota í frístundum sínum og hugsanlegra nytja því að enn er ekki búið að loka á það að þeir geti notað hlunnindin og auðlindirnar sem tengjast landinu. Hafa menn sett sig í spor þeirra í þéttsetnum löndum Mið-Evrópu sem líta á óbyggt eða fábyggt land sem eftirsótt gæði til að nýta og hafa aðgang að í tómstundum sínum fyrir sig því að auðvitað mun viðleitni þeirra beitast að því að útiloka aðra fyrir aðgangi á slíkar lendur. Þeir Íslendingar og þau íslensk fyrirtæki verða vafalaust til, sem sjá sér hag í því að gerast umboðsaðilar til þess að finna þetta jarðnæði fyrir þá aðila sem hafa fullar hendur fjár. Hverjir eiga svo að standa á móti? Fátækar og lítils megnugar sveitarstjórnir með forkaupsrétt þegar veifað er fullum höndum fjár? Það er ójafn leikur, virðulegi forseti. En það er sú staða sem verið er að bjóða upp á í þessu máli að því er varðar landið. Hvað um orkulindirnar? Hvað með auðlindirnar sem landinu tengjast? Hvar eru frumvörpin, virðlegur forseti, sem heitið var af ráðherrum ríkisstjórnarinnar, iðnrh., á haustdögum að væru að koma hér inn í þingið að því er varðar jarðhitaréttindi, eignar- og umráðarétt yfir jarðhita, eignarrétt á orkulindum fallvatna? Þetta voru frumvörp sem komu í haust og átti að lögfesta fyrir jól hér í þinginu. Hvorki hefur sést tangur né tetur af þessum málum. Þau eru einhvers staðar strand. Virðulegur forseti er kannski í þeim hópi sem hefur einhverjar hugmyndir um hvers vegna.
    Þjóðin er farin að gjalda þess að Alþingi Íslendinga hefur ekki tekið á þessum málum á undanförnum árum út frá almennum forsendum burt séð frá þessu Evrópska efnahagssvæði. Í áratug hafa legið fyrir þinginu frv. um það að staðfesta eignarrétt íslenska ríkisins að þessum auðlindum okkar tengdum landi þar sem meiri hluti á Alþingi hefur ekki borið gæfu til að taka undir. Nú þegar eru ekki 250 þús. manns komin í spilið, ekki 250 millj. heldur 380 millj., virðulegur forseti, sem hafa jafnræði að keppa um auðlindirnar við hvern sem er í þessu landi. Hver stendur gegn því að á þessum málum verði tekið? Hver stendur gegn því að á Alþingi Íslendinga komi efndir á fyrirheitum um það að hér eigi að reyna að reisa hönd við? Hvar er þá þingmenn að finna? Hvar er á valdamenn að finna? Hvar er hæstv. iðnrh., virðulegur forseti? (Gripið fram í.) Ég óska eftir því að hann verði sóttur áður en þetta mál og þessi umræða er til lykta leidd. Við krefjumst að sjálfsögðu þess að hæstv. iðnrh. svari fyrir um það, hvar eru efndirnar varðandi þessi frumvörp? Ætla menn bara að horfa fram hjá því og ana út í fenið með þessi mál eins og margt annað ófrágengið að því er leikreglurnar varðar? --- Er það rétt sem ég heyrði að hæstv. iðnrh. væri kominn á fund í æðsta klúbbi hinna ríku, Bilderbergklúbbnum? Kannski veit hæstv. utanrrh. eitthvað um það. Er hugsanlegt að hæstv. iðnrh. hafi hlotið þá upphefð og staðfestingu á frábærum framgangi í þágu hinna ríku að hann hafi fengið boð og þegið boð Bilderbergsamtakanna? Það verður væntanlega upplýst hér en ég óska, virðulegur forseti, eftir því að hæstv. iðnrh. verði kvaddur til fundar áður en umræðu um þetta mál lýkur. Það verður þó dokað við ef hæstv. ráðherra hefur brugðið sér bæjarleið.
    Virðulegur forseti. Á sl. vori fyrir um það bil ári var boðað að ganga ætti frá allri löggjöf sem tengdist þessum samningi í síðasta lagi í nóvembermánuði 1992. Hver er staðan varðandi þessi mál nú? Hvar er meiri hlutinn á Alþingi staddur með þessi mál sem hann ætlaði að koma fram með í formi lagafrumvarpa og löggjafar gegnum þingið í nóvembermánuði í síðasta lagi? Samkvæmt lista ríkisstjórnarinnar á síðasta ári voru þetta 68 tilgreind frumvörp sem átti að lögfesta á síðasta ári vegna þessa samnings. 57 frv. yrðu skilyrðislaust að vera frágengin áður en samningurinn yrði staðfestur og 8 frumvörp mættu kannski bíða eitthvað aðeins lengur vegna þess að á þeim sviðum hefðu Íslendingar aðlögunarfrest um nokkurt skeið en 68 frumvörp samtals. Hver ætli sé staðan varðandi lögfestingu þessara mála, hæstv. utanrrh.? 26 frumvörp af 68 hafa verið afgreidd af Alþingi sem lög til þessa dags. Það er verulegur minni hluti þeirra frumvarpa og nokkur eru ókomin til þings. Hvorki hefur sést tangur né tetur af þeim, þar á meðal varðandi yfirráð yfir náttúruauðlindum landsdins, jarðhita og fallvötnum. Þetta er hagsmunagæslan af hálfu hæstv. ríkisstjórnar og meiri hluta hennar á Alþingi eða hitt þó heldur.
    Kæruleysi er það sem einkennir meðferð íslenskra stjórnvalda á þessu máli öllu. Kæruleysi varðandi langatímahagsmuni þjóðarinnar, kæruleysi að því er varðar eigin orð og fyrirheit setur mark sitt á málafylgju þess liðs sem ætlar að knýja málið fram á Alþingi Íslendinga innan skamms. Þar blasir við ófögur sjón og satt að segja, virðulegur forseti, er heldur óskemmtilegt að þurfa að rekja þennan feril í tengslum við þetta mál en alltaf er þessi endemis afrekaskrá ríkisstjórnarinnar að lengjast, þessi hraklega hagsmunagæsla af hálfu stjórnvalda að því er varðar íslenska hagsmuni.
    Þessi samningur sem hér á að lögfesta var undirritaður fyrsta sinn síðla í júnímánuði 1991 með fangamarki þáverandi aðalsamningamanns Íslendinga. Það var að vísu þá nokkru eftir að átti að ganga frá samningnum því að allnokkru fyrr átti að ganga frá honum en þá var punkturinn settur aftan við yfirferð embættismannanna og samningamannanna varðandi þau lög og reglur Evrópubandalagsins sem kallaðar eru samþykktir einu nafni og það er það sem fylgir þessu máli í dag. Klukkan var sett á miðnætti um hásumarið 1991, mánaðamótin júlí/ágúst, en hún stöðvaðist ekki hjá Evrópubandalaginu við það þó að hægt væri af hálfu samningamanna að fjalla um löggjöf sem tengdust þessu málasviði. Síðan hefur Evrópubandalagið að sjálfsögðu haldið áfram á fullri ferð að móta löggjöf sína, gefa út ,,direktív`` sín stór og smá, undirbúa önnur og hefur á þessum tíma sem síðan er liðinn undirbúið nálægt 250 samþykktir og útgefið frágengnar samþykktir sem hæstv. utanrrh. hefur af mildi sinni veitt okkur alþingismönnum yfirlit yfir hverjar séu þó ekki sé þar allt talið því að alltaf er að bætast við þennan lista dag hvern. Þetta safn stórra og smárra samþykkta Evrópubandalagsins sem er fyrsta viðfangsefni EES-kerfisins ef það fer í gang að taka á að semja um og flytja inn í ábyrgðarpósti inn á þjóðþing landanna sem eiga að stimpla þessar gerðir. 250, þær verða vafalaust orðnar 300, ef allt fer að óskum utanrrh. um framgang málsins og staðfestingu þá verða samþykktirnar samt orðnar 350 sem munu berast hér inn sem pakki, EES-pakki II, eins og það er kallað á tæknimáli til meðferðar í einum bunka fyrir íslenska stjórnkerfið að glíma við, fyrir Alþingi Íslendinga að stimpla. Menn verða kannski farnir að átta sig betur á hvert svigrúmið er til þess að breyta þar einhverjum stafkrók í þessum pakka 300 samþykkta sem er bara afleiðing og ekkert verður undan vikist og þannig, virðulegur forseti, heldur færibandið áfram. Þetta eru dálítið einhliða skipti. Að vísu eru embættismenn sendir út til að kíkja á blöðin yfir axlirnar hjá þeim sem eru að undirrita þau og ganga frá þeim hjá Evrópubandalaginu og í EES-kerfinu en heim til Íslands koma gerðirnar og gjörningarnir fullfrágengnir og Alþingi á þann kost einan að segja já eða nei við kjarnanum í þeim.
    Þetta er það sem við blasir ef EES kemst á koppinn, verður til einhverrar frambúðar sem margt bendir til að geti orðið, virðulegur forseti, geti orðið veruleiki sá sem Íslendingum er ætlaður að búa við um nokkurra ára bil í það minnsta, þá verður þessi færibandaflutningur á löggjöf á sviði atvinnumála, fjármála og félagsmála í fullum gangi og þetta berst hér inn á borð alþingismanna fyrst og fremst til formlegs frágangs. Ef menn ætla að reyna að hafa áhrif mun það ekki aðeins kosta fyrirhöfn, það mun einnig kosta fé og það ærið þó ekki væri nema í litlu. Þannig eru möguleikarnir, þannig eru kostnirnir sem okkur eru búnir í sambandi við málið.
    Það er nokkuð fróðlegt og er að því vikið í sambandi við annað þingmál sem er á dagskrá þessa fundar að átta sig á því hvernig veruleikinn er að renna upp fyrir þeim stjórnmálamönnum og almenningi á Norðurlöndum sem er ásjáandi eða þátttakandi í umræðum varðandi aðildarumsókn þessara landa að Evrópubandalaginu. Á sama hátt og hér varðandi þennan samning var þar reynt að smeygja beislinu upp á þjóðþingin á alröngum forsendum með yfirlýsingum um að ekki þyrfti að breyta þessu eða hinu, hægt sé að fá undanþágur frá mikilsverðustu atriðum hvort sem það var um hlutleysi varðandi Svía eða fiskveiðar varðandi Norðmenn o.s.frv. Í dag er farið að renna upp fyrir mönnum að þannig eru mál ekki vaxin.
    Vesalings frændur vorir Danir --- fyrirgefið orðbragðið um þá góðu þjóð sem ég met mikils --- eru í þeirri stöðu að ganga til kosninga núna í næsta mánuði. Ég veit að hæstv. utanrrh. mun fylgjast með að morgni hins 19. maí hvað kemur upp úr kössunum í Danmörku. En það er einhver sá ömurlegasti blekkingaleikur sem settur hefur verið á svið. Edinborgarsamkomulagið sem verið er að smala Dönum til að greiða atkvæði um er reitt fram með þeim hætti að þar séu einhverjar breytingar á ferðinni sem skipta einhverju máli. Ég

veit að hæstv. utanrrh. veit nákvæmlega að það eru nýju fötin keisarans sem þar eru fram reidd í þessu svokallaða samkomulagi sem átti að tryggja dönsku fyrirvarana úr málamiðlum flokka sem ætluðu að andæfa gegn Maastricht og er hismið eitt þar reitt fram. Það eiga þeir eftir að upplifa hver svo sem niðurstaðan verður í sambandi við þá afgreiðslu. Hún gæti hins vegar haft óbein áhrif og að sjálfsögðu veruleg áhrif ef þeir sem hafna yrðu í meiri hluta þvert gegn vilja flokksforustu sjö eða átta stjórnmálaflokka á danska Fólksþinginu. En hið sama er uppi á þjóðþingum þeirra landa sem eru að sækja um aðild að Evrópubandalaginu í Svíþjóð, í Noregi, í Finnlandi. Alls staðar eru þeir að vakna við þann veruleika að undan Maastricht skulu þeir ekki komast. Gegnum það nálarauga skulu þeir ganga. Sérstök nefnd á vegum sænska Ríkisdagsins hefur gert tillögu um breytingar á sænsku stjórnarskránni til að aðlaga hana EB-rétti og þar er komin tillaga um almenna reglu sem er svipaðs eðlis en þó miklu kjarnmeiri en það sem lesa má í bókunum með EES-samningnum að því er varðar spurninguna um stöðu löggjafar sem samþykkt er á þjóðþingum gegn reglum Evrópubandalagsins. Er það ekki bókun 34 eða 35 sem þar er á ferðinni varðandi þennan samning? En í sænsku tillögunni um þetta efni er alveg ótvírætt gengið hreint til verka um að setja skal inn í sænsku stjórnarskrána almennt ákvæði um það að Evrópurétturinn hafi yfirhöndina í samanburði við sænska löggjöf þannig að ekkert fari á milli mála. En sem betur fer, virðulegi forseti, eru menn ekki alveg komnir í þeirra spor og einhver viðleitni er í gangi hjá forustumönnum ríkisstjórnarinnar sem eru hálfskelfdir yfir því að samningurinn fær ekki allt of góða dóma hjá þjóðinni. Ýmsir eru efins um það vítamín sem er í boði, það er ljós í myrkri, svo að notuð séu orð hæstv. iðnrh., sem samningurinn á að vera fyrir íslenska þjóð í svartnætti þeirrar stjórnarstefnu sem nú er við lýði.
    Virðulegi forseti. Þetta mál hefur það margar hliðar að því verða ekki gerð nein skil í stuttri þingræðu og ég ætla mér ekki að fara yfir mörg atriði til viðbótar. Ég minni þó á það sem snýr að hinum opinberu þjónustufyrirtækjum í landinu sem nú á að breyta og aðlaga að Evrópurétti, fyrirtækjum eins og Póst og síma svo að dæmi sé tekið. Mælistika EES er lögð á það fyrirtæki. Nýlega hefur verið tekin saman skýrsla um það til hvers er ætlað í þeim efnum. Þessu þjónustufyrirtæki almennings í landinu á að breyta í hlutafélag. Stóra þætti, sem það hefur sinnt, á að einkavæða og menn spyrja m.a.: Hvað verður um jöfnun innan þess kerfis sem þar er verið að innleiða? Hvaða möguleikar eru þar að grípa inn í og tryggja jöfnun óháð búsetu í landinu þannig að allir Íslendingar sitji við sama borð í þjónustu sem því miður hefur ekki verið niðurstaðan, ekki í því kerfi sem við búum við nema að takmörkuðu leyti, en þó verið bæði kröfur og að vissu leyti nokkru þokað í þá átt þegar við völd hafa verið stjórnvöld sem sinnt hafa kalli í þeim efnum. Það sama er uppi varðandi opinber fyrirtæki eins og Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins svo að annað dæmi sé nefnt. Það skal nú einkavætt. Að vísu er ekki búið að ganga frá því. Skýrsla er ekki komin en hæstv. fjmrh. hefur þegar kunngert sína stefnu og sú stefna er það sem koma skal samkvæmt Evrópurétti og þar á blessuð samkeppnin að fá að njóta sín í því efni burt séð frá almennum óskum varðandi heilbrigðisstefnu og áfengisstefnu. Það sama er uppi á öðrum sviðum varðandi lyfjamál, Lyfjaverslun ríkisins, sölu og dreifingu lyfja. Allt skal þetta falla undir mælistiku fjórfrelsisins og lúta að þeirri reglu sem hér er verið að innleiða.
    Virðulegur forseti. Sá sem hér mælir hefur horft álengdar á þetta mál og verið þátttakandi í athugun þess á ýmsum stigum. Ég hef fylgst með því sem varamaður Alþb. í utanrmn. Nú á síðasta sprettinum ekki sem virkur þátttakandi í yfirferð þar en getað fylgst með því sem hefur komið fram á þeim vettvangi. Ég er nú í þeirri aðstöðu að flytja nál. fyrir hönd 2. minni hluta utanrmn. sem fulltrúi Alþb. í nefndinni, en aðalmaður Alþb. er ekki á þingi þessa stundina. Á þskj. 1054 liggur fyrir nál. sem ég ætla hér að lokum að lesa, með leyfi forseta:
    ,,    Með afgreiðslu fyrirliggjandi frumvarps ræðst afstaða Alþingis til samningsins um Evrópskt efnahagssvæði.
    Samningurinn brýtur gegn ákvæðum íslensku stjórnarskrárinnar. Með honum skerðist stórlega raunverulegt löggjafarvald Alþingis. Til þingsins munu streyma lög og reglugerðir frá Evrópubandalaginu sem Alþingi hefur engan þátt átt í að móta. Um 250 slíkar samþykktir EB, sem gengið hefur verið frá í Brussel frá því megintexti EES-samningsins var frágenginn 1. ágúst 1991, bíða afgreiðslu. Sá pakki mundi berast inn á borð alþingismanna eftir að samningurinn hefði tekið gildi.
    Með EES-samningnum og því sem honum fylgir er verið að veita útlendingum aðgang að íslenskum náttúruauðlindum, fiskimiðum, orkulindum og landi.
    Með samningnum væru Íslendingar að kasta fyrir borð helstu stjórntækjum í efnahagsmálum og gefa sig á vald ákvörðunum sem teknar eru án tillits til íslenskra hagsmuna.
    Það stjórnkerfi sem byggja á upp til að þjóna EES-kerfinu er í senn ólýðræðislegt og kostnaðarsamt. Verið er að flytja ákvarðanatöku um íslensk málefni á fjölmörgum sviðum úr landi. Kostnaður við stjórnkerfi landsins mun vaxa til mikilla muna og nú þegar er byrjað að byggja upp í Brussel skrifstofur á vegum Stjórnarráðsins við tilkomu EES. Utanferðir íslenskra embættismanna og ráðherra mundu margfaldast.
    Aðild Íslendinga að EES auðveldar mjög þeim öflum eftirleikinn sem knýja leynt og ljóst á um aðild Íslands að Evrópubandalaginu.
    Alþýðubandalagið er andvígt aðild Íslands að Evrópsku efnahagssvæði og telur að ekki komi til greina að Íslendingar sæki um aðild að Evrópubandalaginu.
    Þessi afstaða kom skýrt fram við umræðu um frumvarp til lögfestingar á EES-samningnum sem afgreitt var í janúar 1993.
    Frá því að frumvarpið um staðfestingu á EES-samningi var samþykkt af meiri hluta á Alþingi í janúar sl. hefur ýmislegt komið í ljós sem staðfestir aðvaranir andstæðinga samningsins.
    Utanríkisráðherra hefur kosið, í þeim samningum sem síðan fóru fram, að ganga gegn íslenskum hagsmunum á sviði landbúnaðar að því er varðar innflutning.
    Fullyrðingar ráðherrans um efnahagslegan ábata af EES-aðild hafa reynst stórlega ýktar og með framkomnum breytingum á samningnum er Íslandi ætlað að greiða enn stærri hlut í fjárhagsaðstoð til svæða innan EES.
    Enn er óafgreiddur fjöldi frumvarpa sem ríkisstjórnin telur að lögfesta þurfi vegna samningsins. Einnig hafa ekki verið lögð fram frumvörp sem boðuð voru á síðasta ári, m.a. varðandi eignarrétt á auðlindum, svo sem jarðhita og orku fallvatna.
    Enn er óvissa um afdrif EES-samningsins. Aðeins þrjú EB-ríki höfðu tekið samninginn til afgreiðslu eins og hann lá fyrir sl. haust. Þá hefur komið fram að Spánn og e.t.v. fleiri EB-ríki tengja afstöðu til EES-samningsins við afgreiðslu Maastricht-samningsins innan Evrópubandalagsins.
    Alþingi á að hafna þessum samningi og hefja undirbúning að bættum samskiptum við umheiminn út frá íslenskum forsendum. Það verður best gert með því að landið skipi sér utan stórra efnahagsheilda þar sem hagsmunir stórvelda og fjölþjóðafyrirtækja ráða ferðinni.``
    Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir minni afstöðu og Alþb. til þessa máls.