Gæsla þjóðminja

167. fundur
Föstudaginn 30. apríl 1993, kl. 15:51:01 (7751)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Það er nú eins og svo oft áður að það er eins og því miður þurfi sérstök áföll til þess að við þingmenn rönkum við okkur og tökum til umræðu mjög mikilvæg mál eins og safnamálin eru auðvitað og það er ástæða til að þakka það að þessi umræða skuli komin hér upp. Því miður held ég að þó að hverju svo sem um var að kenna í því tilviki eða við þann atburð sem þarna átti sér stað, þá held ég að meðal ráðamanna hafi verið talsvert mikið og nokkuð sérstakt skilningsleysi gagnvart sjóminjum og þjóðminjum af ýmsu tagi. Það sem varðveist hefur og það sem sinnt hefur verið um hefur ekki síst verið að þakka áhugasömu fólki úti um land allt sem hefur haft skilning á því og auga fyrir því hvað hefði varðveislugildi og það þarf ekki annað en horfa á þær minjar sem við eigum þó enn þá eftir í húsum að það er ekki síst fyrir ötult starf einstaklinga og áhugamanna sem þessi hús hafa hreinlega varðveist. En því miður hafa allt of mörg tapast og það alveg fram á allra síðustu ár. Vil ég bara minna hér á Fjalaköttinn sem fyrir ekki svo mörgum árum var rifinn og enn þá undir því yfirskini að þarna væri um einhverjar danskar fúaspýtur að ræða sem ekki tæki því að kosta neinu til. Svona hús eru núna að grotna niður um allt land og þó að þessi þjóð eigi auðvitað merkilegar minjar úr bókum, þá er eins og þjóðin hafi kannski svolítið blindast af því og sjái ekki þær miklu minjar sem hún á sér í ýmsum sjóminjum, ekki síst í þjóðminjum af ýmsu tagi og húsum. Það er auðvitað hægt að lesa söguna úr öðrum bókum, það er hægt að lesa og upplifa söguna úr sínu nánasta umhverfi.
    Þá finnst mér stundum eins og sú sýning sem hangir núna uppi á Þjóðminjasafninu sé bara sjálf að verða þjóðminjar, hún sé orðin til marks um það hvernig sýningar voru settar upp hér á árum áður. Og auðvitað kemur þetta ekki til af engu. Þetta kemur til af því að það vantar skilninginn, það vantar metnaðinn og það vantar fjármunina og ég held að þessu verði að breyta því að það sem helst má til varnar verða í breytilegum heimi núna er einmitt að efla menninguna og styrkja kjölfestuna.