Húsnæðisstofnun ríkisins

167. fundur
Föstudaginn 30. apríl 1993, kl. 18:09:49 (7766)

     Jóhann Ársælsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með þeim sem hafa verið að tala hér um þingsköp en ég kem hér upp fyrst og fremst til þess að árétta það að það hefur verið spurt að því hér hvort sjávarútvegsfrumvörpin muni koma fram. Og það vill svo vel til að hæstv. sjútvrh. er mættur hér í þingsalinn og getur sjálfsagt sagt okkur frá því hvað standi til því að nú er það lítið eftir af þinginu, af þeim tíma sem gert var ráð fyrir að þingið stæði, að það getur ekki annað verið en að ríkisstjórnarflokkarnir séu búnir að koma sér saman um stefnu í sjávarútvegsmálum. Það væri a.m.k. ástæða til þess að halda að það væri eftir því hvernig hæstv. ráðherra talaði hér í umræðunni fyrir stuttu síðan að það hafi ekki vantað mikið upp á það að stefnan væri klár og skýr. Hann hlýtur því að geta upplýst það hér hvort þessi frumvörp verði tilbúin, hvort þau verði lögð fram nú í dag eða þá hvenær eða hvort hann er af einhverjum ástæðum búinn að gefast upp á því að leggja þessi frumvörp fram og það væri þá gagnlegt fyrir þingmenn að vita hvers vegna.