Húsnæðisstofnun ríkisins

169. fundur
Þriðjudaginn 04. maí 1993, kl. 14:34:49 (7805)

     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er út af fyrir sig ekkert leyndarmál að ég hafði mínar efasemdir um það með hvaða hætti ætti að skipa nákvæmlega hinni stjórnsýslulegu stöðu húsnæðismálastjórnar. Þess vegna var ég mjög ánægður með það hvernig hv. félmn. fór mjög vandlega ofan í þessa þætti málsins og kallaði til hina virtustu fræðimenn á þessu sviði sem skýrðu þetta mál. Þetta gerði það auðvitað að verkum að félmn. gat fjallað um málið með efnislegri hætti heldur en hún ella hefði gert. Ég hef hins vegar sannfærst um það, eftir að þessi umfjöllun hefur farið fram, að staða húsnæðismálastjórnar verður sterk, verður öflug. Húsnæðisstofnunin mun hafa veigamiklu hlutverki að gegna. Þótt það sé út af fyrir sig svolítið myndrænt og skemmtilegt hjá hv. 4. þm. Norðurl. e. að segja sem svo að hlutverk húsnæðismálastjórnar verði fyrst og fremst að ákveða bréfhausinn, þá er svoleiðis fjarri öllu lagi að það sé eitthvað í samræmi við þann lagatexta, frumvarpstexta sem við höfum hér fyrir framan okkur. Ég geri ekki ráð fyrir öðru en hér hafi hv. þm. verið að beita skáldaleyfi sínu en eins og allir vita er hv. þm. vel hagmæltur og er auðvitað að nota hina þingeysku skáldlegu hefð í þessum efnum.
    Ég vil svo ítreka að í sjálfu sér er það rétt sem hv. þm. sagði að þessi mál heyra undir félmrh. og það er engin breyting á þessu máli. Stjórnarráðslögin kveða á um að húsnæðismálin í landinu heyri undir félmrh. Ég held að grundvallaratriðið sé einfaldlega þetta. Þær miklu efnisbreytingar, þær miklu eðlisbreytingar, sem menn eru að láta í veðri vaka að séu að eiga sér stað, eru ekki að eiga sér stað vegna þess að frumvarpstextinn gerir ráð fyrir því að húsnæðismálastjórn, Húsnæðisstofnun ríkisins hafi áfram veigamiklu hlutverki að gegna.