Lagaákvæði er varða samgöngumál

170. fundur
Miðvikudaginn 05. maí 1993, kl. 14:41:09 (7889)

     Pálmi Jónsson :
    Virðulegi forseti. Það er ofsagt hjá hv. 14. þm. Reykv. að í þessu efni hafi menn anað áfram hugsunarlaust. Við 2. umr. komu fram réttmætar ábendingar um það að vitnað væri í frumvarpsgreinum í lög sem breytt hafði verið á Alþingi eða felld úr gildi og ný lög sett í staðinn. Þessar ábendingar voru teknar til greina á milli umræðna og var eigi auðvelt að gera það fyrr vegna þess að hin nýju lög höfðu eigi verið gefin út og höfðu eigi hlotið númer. Nú hafa hin nýju lög hlotið númer og verið gefin út, þ.e. lög um eftirlit með skipum, nr. 35/1993, og lög um leiðsögu skipa, nr. 34/1993. Þessu formsatriði hefur verið fullnægt og það á ekkert skylt við það að nefndarmenn í samgn. eða aðrir hafi verið að ana áfram í einhverju hugsunarleysi. Aðrir kunna að ana áfram í umræðum eða annars staðar án þess að kynna sér málið nægilega vel.