Framhaldsskólar

170. fundur
Miðvikudaginn 05. maí 1993, kl. 18:07:59 (7933)

     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð út af þessu frv. sem hér er komið til 2. umr. Við höfum fjallað um það í hv. menntmn. og eins og sést á þskj. 1058 skrifa ég undir nál. meiri hlutans með fyrirvara. Við 1. umr. um þetta mál gerði ég sérstaka athugasemd við það að þarna væri verið að efna til tilraunastarfs án þess að það yrði unnið í samvinnu við skólana sjálfa, einstaka skóla. Nú hefur verið tekin afstaða til þess í hv. menntmn. og hefur nefndin gert brtt. við tillögugreinina þess efnis að heimilt sé að efna til tilraunastarfs í starfsnámi í samráði við einstaka skóla. Þetta tel ég mjög mikilvægt atriði og það gerði það að verkum að ég skrifaði undir álit meiri hluta nefndarinnar. En fyrirvari minn byggðist kannski ekki síst á því að ég hafði ekki séð brtt. frá hv. þm. Svavari Gestssyni og vildi því halda því opnu að styðja þær ef þær yrðu í mörgum liðum. En nú hafa þær birst og mér sýnist, og ég get tekið undir það með hv. formanni nefndarinnar, að þarna sé ekki um verulegar efnisbreytingar að ræða, sumar frekar smámunalegar að mínu mati. Þess vegna mun ég styðja þá brtt. sem lögð er fram af meiri hluta nefndarinnar.
    Ég tel að hér sé tekið á mikilvægu máli sem snertir starfsmenntunina, sem allir eru sammála um að sé ekki í nógu góðum farvegi eins og málin eru í dag. Við urðum vör við það í umsögnum að frv. vakti athygli og áhuga þó að komið hafi fram ábendingar, sérstaklega þess efnis að þetta þurfi að vinnast í samstarfi við viðkomandi skóla.
    Ég hef ekki miklu við þetta að bæta en ég tel að þær brtt. sem hafa verið kynntar af hv. þm. Svavari Gestssyni séu ekki efnislega miklar breytingar frá því sem meiri hlutinn leggur til.