Afgreiðsla mála í nefndum

172. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 13:20:40 (7990)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það er að vísu hárrétt sem hv. síðasti ræðumaður sagði, 2. þm. Vestf., að hlutföll í einstökum þingnefndum samkvæmt þingsköpum hindra ekki í sjálfu sér að meiri hluti Alþingis nái fram rétti sínum í umræðum og atkvæðagreiðslum hér í þingsalnum. Hitt er jafnljóst að það hefur áhrif á hina þinglegu meðferð máls hvort nefndarálitum er skilað af báðum eða öllum aðilum og getur þar af leiðandi, ekki síst við aðstæður af því tagi sem nú eru í þinghaldinu þegar komið er fram á síðustu sólarhringa eða klukkustundir, ráðið jafnvel úrslitum um það hvort mál kemst á dagskrá og til umræðu. Þess vegna var það auðvitað mjög óvenjuleg valdbeiting sem fór fram í sjútvn. í gærkvöldi þegar minni hluti nefndarmanna tók sér það fyrir hendur að fella á jöfnum atkvæðum --- ég vek athygli á því að það var minni hluti í sjútvn. sem í raun og veru kom í veg fyrir að málið fengi eðlilega afgreiðslu út úr nefndinni, fjórir þm. af níu sem þar sitja. Staðan í sjútvn., hæstv. forseti, er þannig, samkvæmt lauslegri athugun sem ég gerði í gær, að þar eru 10 þingmannamál, frumvörp og tillögur, 6 flutt af stjórnarsinnum, 4 af stjórnarandstæðingum. 5 af 6 tillögum stjórnarsinna eru að fá afgreiðslu út úr nefndinni en það var fellt af fulltrúum meiri hlutans, 4 af 5, að tvö af fjórum málum stjórnarandstæðinga fengju svo mikið sem að fara út úr nefndinni. Þetta á við um frumvörp um Hagræðingarsjóð, 16. og 66. mál þingsins, með þeim afleiðingum sem það getur að sjálfsögðu haft á möguleikann á þinglegri meðferð málsins hér undir þinglokin, umræður og atkvæðagreiðslur.
    Ég held, hæstv. forseti, að samskiptahættir af þessu tagi sem okkur er kunnugt um að hafi birst í fleiri þingnefndum, lofi ekki góðu. Ég vil leyfa mér að koma með þá ábendingu til hæstv. forseta, að forseti beiti sér fyrir fundi með nefndarformönnum (Gripið fram í.) og fari yfir þessi mál. Ja, ekki má a.m.k. vanta hv. formann utanrmn. miðað við þau tíðindi sem hér voru flutt áðan af frammistöðu þar, ef leynt hefur verið fyrir nefndinni vikum saman stórmáli varðandi utanríkismál, sem er náttúrlega meira en hneyksli í þinglegum samskiptum og jafnframt lögbrot. Ég legg til, hæstv. forseti, þó seint sé að forseti taki til athugunar að halda fund með formönnum þingnefnda til að fara yfir það með hvaða hætti þessi samskipti og vinnubrögð verða á síðustu sólarhringum þingsins.