Framleiðsla og sala á búvörum

174. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 11:16:18 (8162)

     Svavar Gestsson (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Ég skil það afar vel að hæstv. forseti hafi ekki átt kost á að fylgjast með ummælum ráðherra í fjölmiðlum síðasta sólarhringinn varðandi þau mál sem hér eru til umtals, þ.e. breytingu á búvörulögum, þau mál sem hv. formaður landbn. taldi að hann væri að halda framsöguræðu fyrir. En þau ummæli eru náttúrlega afar alvarleg og þess vegna er ekki hægt að hrista þetta mál frá sér og segja: Afstaða til þess hvenær þetta verður tekið fyrir verður tekin síðar á fundinum. Þingmenn geta ekki unað við það.
    Hæstv. utanrrh. sagði í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöld að niðurstaða landbn. væri misskilningur ef ég heyrði rétt hans orð að ég segi ekki vitleysa. Ég ætla ekki að taka mér í munn út af fyrir sig þau orð sem hann er vanur að taka sér í munn um andstæðinga sína og ætla hvorki að kalla þingmenn skæruliða né terrorista af þessu tilefni. ( JGS: Galna, galna.) Heldur ekki galna, hv. þm. Síðan bætir hæstv. utanrrh. um betur í morgun og lætur að því liggja að meiri hlutinn eða þeir sem að hlutum standa í landbn. séu villuráfandi menn sem viti helst ekkert hvað þeir séu að gera. Þeir hafi ekki gert sér grein fyrir því að fjögur ráðuneyti eigi að koma að þessu máli, það hafi bara eitt ráðuneyti komið að málinu, þ.e. landbrn. Það er látið að því liggja að ekki hafi verið talað við önnur ráðuneyti um þessi mál sem mun þó ekki vera. Málið liggur auðvitað þannig, hæstv. forseti, að þingmenn hljóta að leggja á það mjög mikla áherslu að það verði ákveðið núna, að þetta mál komi til meðferðar þegar atkvæðagreiðslum er lokið hér á eftir. Ég bendi líka á, hæstv. forseti, að þau mál sem hæstv. forseti ætlaði að taka fyrir núna eru bæði frá iðnn. og formaður iðnn. er ekki hér í salnum og framsögumaður nefndarinnar í því stóra máli sem nú liggur eftir iðnn. og iðnrh. sem heitir vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum og er eins og kunnugt er eitt af allra stærstu málum iðnrn. Þannig að það liggur beint við að taka þessi mál hér fyrir sem hv. formaður landbn. óskaði eftir og ég styð hans ósk í þeim efnum mjög eindregið og ég skora á hæstv. forseta að virða þær óskir sem hér hafa komið fram.