Fríverslunarsamningur milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Ísraels

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 16:23:59 (8218)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Hér er komið til síðari umræðu mjög stórt mál sem er tillaga af hálfu ríkisstjórnarinnar um að fullgilda fyrir Íslands hönd fríverslunarsamning milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA, og Ísraels, en samningur þessi var gerðir í Genf 17. sept. 1992.
    Hv. 1. þm. Norðurl. v. hefur mælt fyrir áliti okkar í minni hluta utanrmn. sem leggjum til að þessum samningi verði vísað frá. Af minni hálfu er nauðsynlegt að ræða þetta mál nokkuð frekar þó að hv. þm. Páll Pétursson hafi dregið fram okkar meginafstöðu til þess.
    Það er nú svo að Ísraelsríki er ekki neitt venjulegt ríki. Það er ekki sambærilegt á nokkurn hátt við þau ríki sem undirbúnir hafa verið fríverslunarsamningar við, utan hins svokallaða Evrópska efnahagssvæðis við nokkur ríki í Austur-Evrópu eins og Pólland, Tékkóslóvakíu og jafnvel Tyrkland sem þó var eðlilega mjög umdeilt mál þegar það var hér til umræðu vegna m.a. mannréttindaviðhorfa að því er Tyrkland varðaði. En hvað þá ef litið er til Ísraels? Hvernig stendur á því að hæstv. ríkisstjórn Íslands kemur til þingsins með tillögu af þessum toga? Er ríkisstjórninni og meiri hluta utanrmn. sjálfrátt að vera að leggja til við Alþingi Íslendinga að fullgilda fríverslunarsamning við ríki sem hefur komið fram við fólk innan vébanda ríkisins og á herteknum svæðum sem það hefur lagt undir sig með órétti og ofbeldi, að ætla að fara að gera við það viðskiptasamning á grundvelli fríverslunar sem tekur langt fram því sem hefur verið í samskiptum við þetta ríki hingað til? Verðlauna það með því fyrir framferðið eins og það hefur birst mönnum á undanförnum árum. Ríki sem virðir engar alþjóðasamþykktir heldur þverbrýtur þær. Samþykktir sem hafa gengið fram á vettvangi hinna Sameinuðu þjóða nær mótatkvæðalaust um áratugi og æ ofan í æ í ýmsu formi. Helst að Bandaríkin á Reagan-tímanum hafi leyft sér að skjóta skildi fyrir ofbeldið enda bera þeir auðvitað öðrum fremur ábyrgð á því sem þarna hefur verið að gerast og þeirri samfelldu sögu brota gegn palestínsku þjóðinni sem viðgengist hefur frá því að þetta ríki var stofnsett að ráði Sameinuðu þjóðanna og raunar með samþykki Íslands á sínum tíma með skilyrðum þó. Var það ekki árið 1947? Mig minnir það.
    Ábyrgð okkar Íslendinga á þessu ástandi sem þarna ríkir og framferði stjórnvalda í Ísrael er meiri heldur en margra annarra þjóða vegna þess að íslensk stjórnvöld hafa á liðnum áratugum veitt Ísrael meiri stuðning heldur en flest önnur ríki á alþjóðavettvangi. Það þurfti mikla umræðu á Alþingi Íslendinga fyrir nokkrum árum til þess að fá fram þá samþykkt sem hv. 1. þm. Norðurl. v. kynnti hér og var samþykkt að ég má segja samhljóða á Alþingi 18. maí 1989. Það þurfti til að búið væri að skjóta og drepa hundruð Palestínumanna af Ísraelsher, vopnlausa íbúa á herteknu svæðunum sem höfðu leyft sér að rísa upp til varnar og höfðu ekki annað heldur en steina á móti eldinum og byssuhlaupunum og í þeim hópi fjöldi barna og unglinga.
    INTIFATA-uppreisn hinna vopnlausu borgara palestínsku þjóðarinnar varð til þess að hreyfa við samvisku ýmissa sem höfðu sofið fram að þeim tíma. Það varð til þess að hér á Alþingi tóku menn höndum saman um þá ályktun sem var rifjuð upp áðan. Ég spyr hv. alþm.: Eru efni til þess í ljósi þessarar samþykktar Alþingis frá 18. maí 1989 að fara að ganga til samninga við Ísrael og verðlauna þá sérstaklega fyrir það sem síðan hefur gerst með þeim fríverslunarsamningi sem hér er gerð tillaga um? ( Forseti: Forseta er nauðugur einn kostur að spyrja hv. þm. hvort hann geti hugsað sér að fresta ræðu sinni um sinn þar sem lofað hefur verið utandagskrárumræðu um stöðu iðnaðarins í hálfa klukkustund?) Virðulegur forseti. Það er ljúft af minni hálfu og sannarlega ekki vanþörf að ræða um stöðu iðnaðarins. Síst skal ég standa gegn því á meðan þeir eru í kallfæri sem helst bera ábyrgð á en það fer nú kannski að styttast í því. ( Forseti: Forseti færir hv. þm. þakkir fyrir það.)