Staða iðnaðarins

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 17:07:22 (8231)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Fyrst varðandi það sem kom fram hjá Vilhjálmi Egilssyni. Samkvæmt þessu línuriti hefur orðið veltusamdráttur þannig að það er allt sem bendir til þess að fyrirtækin þurfi að fækka fólki ef þau eiga að geta staðið sig.
    Í öðru lagi. Hæstv. utanrrh. fullyrti að ég hefði sagt ákveðna hluti sem ég sagði aldrei. Enda hlustar sá maður aldrei og var ekki í salnum heldur. Það sem ég sagði var: Markaðshlutdeild innlendrar iðnaðarframleiðslu hefur minnkað verulega. Hann eyddi öllum sínum tíma í að setja fyrst fram fullyrðingu sem hann sannaði svo að væri vitleysa. Verði honum að góðu.
    Hæstv. iðnrh. fullyrti að eiginfjárhlutfall í iðnaði hefði verið að vaxa. Í svari til Svavars Gestssonar á bls. 38 í þeirri skýrslu ætla ég að lesa upp örfáar staðreyndir. Árið 1980 átti matvælaiðnaður 36,7%, 1989 átti hann 28,9%. Vefjaiðnaður, skógerð, fatagerð o.fl. 34,6% árið 1980 en 4,9% árið 1989. Trjávöruiðnaður 51,8 % árið 1980 en 6,5% árið 1989. Hann má sjálfur lesa áfram sínar eigin tölur. ( Iðnrh.: Iðnaðurinn í heild jók stöðu sína . . .  ) Það er rugl hjá Jóni Sigurðssyni sem hann hefur verið að halda hér fram og það er reiður maður vegna þess að hann er að tapa orustunni um búvöruframleiðsluna að hann heldur ekki einu sinni sönsum í salnum og lætur stjórnarandstöðuna gjalda þess að íhaldið er að rassskella hann í hliðarsölum þessa stundina. ( Forseti: Ég vil biðja hv. þm. að gæta tungu sinnar.)