Vandi sjávarútvegsins

175. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 20:00:57 (8251)

     Steingrímur J. Sigfússon :

    Hæstv. forseti. Ég vil nú í lokin þakka fyrir þessa umræðu. Hún hefur um margt verið athyglisverð, en einnig dapurleg á ýmsan hátt. Erfiðar ytri aðstæður eru að sjálfsögðu ekki ríkisstjórnum að kenna. En það er verkefni ríkisstjórna að bregðast við þeim. Ríkisstjórn og ráðherrar geta að sjálfsögðu reynt að byggja málflutning sinn upp á því að skamma stjórnarandstöðuna. En það er horft til þeirra um viðbrögð við erfiðleikum af þeirri einföldu ástæðu að þeir hafa völdin og það mun ekki ganga fyrir Sjálfstfl., hæstv. sjútvrh. eða Alþfl. að fara í gegnum umræðu eftir umræðu um sjávarútvegsmál og hafa ekkert annað fram að færa en það að skamma stjórnarandstöðuna. Það mun ekki ganga. Forustumenn í sjávarútvegi, hæstv. sjútvrh., munu ekki telja það merkilegan málflutning. Ætli þeir klappi fyrir því á aðalfundi Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna þó að sjútvrh. komi hér með Heimdallarstælum í málflutningi og reyni að skamma stjórnarandstöðuna.
    Niðurstaða þessarar umræðu er alveg skýr. Hæstv. sjútvrh. vandaði sig mjög og tókst vel upp í því að segja ekki neitt. Ekki eitt einasta efnisatriði nefndi sjútvrh. sem ætti að gera fyrir sjávarútveginn á næstu vikum eða mánuðum, ekki eitt einasta en vísaði á forsrh. Talsmaður Alþfl. lét eins og kjáni eins og venjulega og svo kom hæstv. forsrh. og botnaði málið með þessum einfalda hætti: Við kíkjum á þetta í haust. Við kíkjum á þetta í haust var svar ríkisstjórnarinnar við þessa umræðu. Það er út af fyrir sig skýrt og það er gott að það liggi hér fyrir. Við þær aðstæður á að framlengja fundahöldum Alþingis. Nefndir þingsins, efh.- og viðskn. og sjútvn. verða að taka þetta mál í sínar hendur. Það er eini kosturinn sem eftir er fyrir utan hinn sem væri væntanlega bestur og hann er sá að ríkisstjórnin segði af sér.