Afgreiðsla frumvarps um framleiðslu og sölu á búvörum

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 09:02:51 (8279)

     Egill Jónsson :
    Virðulegi forseti. Ég hafði orð á því í gærmorgun að ég óskaði þess mjög eindregið að mál nr. 504, sem fjallar um búvörulögin, yrði tekið til umræðu fyrst af þeim málefnum sem hér eru og heyra til málefna landbn. Alþingis. Ég fékk góðar undirtektir við þetta hjá hæstv. forseta og ég sé að röð þessara mála er óbreytt frá því sem var í gær, en ég óskaði líka eftir því að fá vitneskju um hvenær þetta mál yrði tekið til umræðu. Það eru mörg fordæmi fyrir því að slík mál sem þessi séu tímasett í umræðu hér á Alþingi.
    Ég hlýt, virðulegi forseti, að vekja athygli á alvöru þessa máls. Í þeim búningi sem frv. er nú er mjög víðtæk samstaða á Alþingi, líklega yrði það samþykkt með langflestum atkvæðum og ég vil vekja sérstaka athygli á því hvaða áhrif það mundi hafa ef því yrði frestað til hausts með einhverjum þvingunaraðgerðum. ( Gripið fram í: Kemur það nokkuð til greina?) Ríkisstjórnin hefur þennan stuðning á bak við sig á þessum degi fyrir þessu máli. En ef það er hægt að stýra alþjóðasamningum eftir búvörulögunum fram á haust eða næsta vetur, þá hlýtur það að vera athugunarefni hvort ekki er hægt að halda þeirri skipan mála óbreyttri. Og það hefði ég helst kosið. Þannig verða náttúrlega að liggja fyrir á þessum degi mjög mikilvægar pólitískar ákvarðanir er varða þessi mál. Og með því að málið snertir samninga við erlendar þjóðir, þá gengur ekki annað heldur en að frv. verði tekið sem allra fyrst til umræðu til þess að hægt sé að skýra það hér á Alþingi og að þjóðin fái vitneskju um það með hvaða hætti menn hyggjast vinna að þessu máli.