Íbúðaverð á landsbyggðinni

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 09:31:58 (8293)

     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Það er engin þörf að orðlengja þessa umræðu en þar sem ég er 1. flm. að þessari þáltill., eins og ég vil vekja sérstaka athygli á, ásamt þremur öðrum þingmönnum úr jafnmörgum stjórnmálaflokkum víðs vegar að af landinu og ég hygg að um þetta mál sé býsna mikil samstaða sem m.a. kemur fram í því að hv. félmn. mælir einróma með samþykkt þessarar þáltill., þá vil ég aðeins segja það sem hér kemur fram í greinargerðinni og er mín skoðun og ég vil leyfa mér að lesa það, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Á sama tíma og auknar þrengingar hafa orðið á almenna íbúðamarkaðnum á landsbyggðinni hefur hlutur félagslegs íbúðarhúsnæðis aukist. Það gefur auga leið að sú þróun hlýtur að hafa sitt að segja um stöðu hins almenna íbúðamarkaðar á landsbyggðinni. Víða um land háttar nefnilega svo til að íbúum fjölgar ekki, jafnvel fækkar, á sama tíma og íbúðum innan hins félagslega íbúðakerfis fjölgar. Því er augljóst að þar þrengir mjög að hinum almenna íbúðamarkaði.``
    Það sem hér er verið að vekja athygli á er sú einfalda tölulega staðreynd að víða um land fjölgar fólki ekki. Af þeim sökum stækkar íbúðamarkaðurinn ekki. Hins vegar er sú þróun áberandi, sem ég er í sjálfu sér ekkert að gera athugasemdir við, að hlutur félagslegs íbúðarhúsnæðis er vaxandi og þegar þær aðstæður eru uppi að íbúðamarkaðurinn er ekki að stækka í heild sinni og hlutur hins félagslega íbúðakerfis fer vaxandi, þá er það auðvitað þannig. Þetta er ekki bara spurning um samlagningu og frádrátt, það er einfaldlega þannig að hinn almenni íbúðamarkaður minnkar og með þeim hætti vil ég halda því fram að það sé augljóst mál að þessi þróun sem ég var hér að lýsa hafi augljós áhrif á stöðu íbúðamarkaðarins á landsbyggðinni. Þessi þáltill. var sett fram vegna þess að ég gerði mér að sjálfsögðu grein fyrir því að þetta mál er býsna flókið og á sér margar hliðar og það þarf auðvitað að ræða það og skoða mjög ítarlega. Þess vegna var ekki sá kostur tekinn að fella dóm í sjálfri þáltill. heldur hið gagnstæða að vekja athygli á þessum þætti íbúðamarkaðarins á landsbyggðinni og óska eftir því að á þeim þætti færi fram sérstök skoðun. Og ég efast ekki um eins og fram hefur komið í þeirri miklu samstöðu sem birtist í afgreiðslu félmn. að um þetta geti menn tekið saman höndum um vegna þess að það er auðvitað aðalatriði þessa máls. Það er auðvitað ólíðandi hvernig komið er með íbúðamarkaðinn úti á landsbyggðinni svo víða. Auðvitað er það þannig. Það gefur auga leið. Það eru hinir sjálfsögðu hlutir sem ekki þarf að orðlengja um heldur að staða atvinnulífsins og ýmsir aðrir þættir hafa áhrif á íbúðaverðið og íbúðamarkaðinn á landsbyggðinni. Það þurfum við alls ekki að ræða um og alls ekki að rífast um. En hér er auðvitað hins vegar um að ræða afmarkaðan þátt sem líka skiptir máli og þess vegna er það skoðun þeirra sem að þessu máli standa, bæði flm. og nefndarmanna í hv. félmn., að það sé eðlilegt að ríkisstjórninni sé falið að skipa nefnd er leiti leiða til þess að efla almennan íbúðamarkað á landsbyggðinni. Hér er sagt almennum orðum að sérstaklega verði skoðað hver áhrif lög og reglur um félagslegt íbúðarhúsnæði hafi á stöðu íbúðamarkaðarins. Við skulum ekkert gefa okkur það fyrir fram til hvers þessi athugun muni leiða því að ef við gætum gefið okkur það fyrir fram, ég eða einhverjir aðrir hv. þm., þá værum við að segja auðvitað að þáltill. væri óþörf, að þessi rannsókn þyrfti ekki að fara fram vegna þess að við vissum niðurstöðuna fyrir fram. Þess

vegna skulum við ekki hrapa að neinu dómum í þessum efnum heldur einungis láta þessa athugun fara fram og ræða þau mál, niðurstöður þeirrar athugunar þegar hún liggur fyrir og ég vænti þess að það verði fyrr en síðar.