Veiðiheimildir í lögsögu annarra ríkja

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 10:39:14 (8311)

     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Hæstv. forseti. Þessi tillaga held ég að sé þannig vaxin, þannig er hún alla vega orðuð, að það sé engin hætta á ferðum sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson var að ræða um að hugsanlegt væri. Ég held að við getum alveg leitað eftir veiðiheimildum vítt og breitt auðvitað til að hagnast sjálfir en líka til að aðrir þeir sem eiga þessi verðmæti kannski mjög langt frá ströndum sínum miðað við það sem ég var nú að tala um hér áðan. Þar eru Indverjar með að ég held um 1.500 mílna landhelgi eftir þeim réttu reglum hafréttarins sem ég var að geta um og það mun vera víða í öðrum heimsálfum sem mjög víðáttumikil landhelgi er og a.m.k. ættum við að geta hjálpað til við að nýta þau að einhverju leyti. En auðvitað á Ísland fyrst og fremst að vera friðunar-, ræktunar-, verndunar- og hagnýtingarland. Það er andi hafréttarsáttmálans og ekki bara andi heldur var það kjörorðið að það ætti auðvitað að nýta þessa auðlind í þágu mannkyns. Það var nú það sem átti að gera og á að gera eftir hafréttarsáttmálanum. Og það er í þágu mannkyns að kanna þessi mið, djúpsjávarmiðin. Það er líka gífurlega mikið af fiski á djúpsævi eins og menn vita, jafnvel á 2--3 þúsund metra dýpi. Ég veit ekki hvað langt, skipstjórnarmenn gætu kannski sagt mér það, þeir hafa lesið sér til um það. En það eru til lífverur hvort sem það á að kalla það fiska eða eitthvað annað á þessu dýpi. Mannkynið er matarsnautt, það þarf að fæða það og það er hægt án þess að spilla náttúrunni, með því að hjálpa náttúrunni einmitt en ekki spilla henni, til þess að auðga hana og það á að vera meginmarkmið Íslendinga í sínum utanríkismálum. Það má alveg sleppa heilmiklu af því sem við erum að gera í sambandi við stóru, fínu ríkin sem við eigum endilega að ánetjast sem allra mest.
    Það er boðskapurinn í dag að það sé aðalatriðið að vera taglhnýtingar einhverra gífurlegra ríkra þjóða sem raunar geta ekki séð sínu eigin fólki fyrir atvinnu, fæst af þeim ríkjum sem mest er verið að hossa þessa stundina og þessi missirin, hversu langt sem það gengur nú.
    Mín spá er sú að þetta brambolt muni meira og minna liðast allt saman í sundur, góðu heilli, þannig að ríkin fái að vera frjáls áfram með auðvitað viðskiptasamkomulagi og samvinnu og samningum í allar áttir en ekki að afsala fullveldi eða sjálfstæði. Það er það sem ég hélt að Íslendingar gætu sameinast um, að við ætluðum að eiga þetta fullveldi okkar, ekki gera neina samninga sem stefndu því í hættu. En það er auðvitað sjónarmið að við getum grætt á því að fórna fullveldinu. Ég held að við getum það ekki einu sinni, ég held að við mundum líka tapa á því í beinhörðum peningum. Við eigum nefnilega besta og ríkasta land heimsins sem gæti þess vegna fætt margfaldan fjölda Íslendinga í dag, gæti gert það með þessum ráðum að nytja bara auðæfin okkar til sjós og lands eins og þar stendur. Þess vegna mundum við auðvitað þegar fram í sækti tapa á þessum bisness sem menn og jafnvel menn hér inni, ekki allir að sjálfsögðu en einhverjir kannski, gætu hugsað sér að væri hin æskilegasta þróun fyrir Ísland. Við höfum í fyrsta lagi ekkert umboð til þess, hvorki skráð né óskráð að taka þátt í slíku afsali fullveldis eins og hér er verið að tala um á ýmsum sviðum. Við höfum ekkert efni á því heldur að eyðileggja fiskimiðin, að rányrkja þau eða ofbeita okkar lönd og höf og landið er einnig út eftir höfunum. Það er hafsbotninn, partur af okkar landi. Ísland stendur hæst allra ríkja á þessu svæði jarðarkringlunnar, þess vegna eigum við þessa eðlilegu náttúrulegu framlengingu út á alla kanta. ,,Natural prolongation of the land mass`` er í allar áttir, norður á pól, suður eftir öllum höfum og síðan tengist þetta líka Noregi. Við getum friðað og ræktað öll þessi svæði. Að vísu er takmörkun sett á náttúrulega framlenginu landsins, eðlilega framlengingu á neðansjávarhryggjum sem eru gífurlega langir, bæði á Atlantshafinu og Kyrrahafinu eins og menn vita, þá eru það náttúrlega þúsundir mílna sem þeir teygjast.     Þar var sett þessi takmörkun að við gætum ekki farið lengra en í 350 mílur. Við sömdum um það, Íslendingar og Rússar af öllum mönnum, á hafréttarráðstefnunni, sömdum um þetta. Ég hef sagt þetta hér áður. Það voru nokkrir fundir haldnir sem Hans Andersen hélt með Rússunum og ég var raunar þar mættur. Þá sögðu Rússarnir, það var mjög dökkleitur rússneskur diplómat sem hvessti á okkur augu og var mjög harðyrtur og hann sagði: Þið eruð mestu ,,imperíalistar`` heimsins, þið ætlið að æða hér suður eftir öllu og helga ykkur allt Atlantshafið. Við sögðum nei, nei, við erum ekkert að hugsa um það en það eru margar þjóðir núna sem eru búnar að fá 300--500 mílna landhelgi eftir þessum reglum sem er verið að samþykkja með samkomulagi á hafréttarráðstefnunni. Hann sagði: Hvað viljið þið þá mikið? Við sögðumst ekki vilja minna en 200 mílurnar hinar, það má tvöfalda það, og ættum auðvitað að fá miklu meira miðað við það sem Indverjar fá t.d. o.s.frv. Svo var þjarkað um þetta í nokkra daga og þá sagði Rússinn: Hvað þá um 100 mílur, eruð þið þá ekki ánægðir með að fá 100 mílur, þ.e. 300 mílur allt í allt? Nei, nei, við viljum það ekki, við viljum meira, þú sérð að það gengur ekkert annað. Hann sagði: Jæja, við skulum hætta þessu, þið fáið 350 mílur, 150 mílur í viðbót við 200 mílurnar.
    Það var farið með þetta inn á hafréttaráðstefnuna og afhent þar forsetanum og hann tilkynnti þessa tillögu og þar réði svokölluð þagnarregla. Ef ekki var mótmælt þá var það samþykkt. Það var enginn sem mótmælti því, það varð að alþjóðalögum.
    Þannig gerðist þetta nú og þannig skapast þjóðarétturinn og sá þjóðaréttur sem núna er gefur okkur þessi réttindi sem ég er að tala um. Við eigum þau. Svo er alltaf verið að tala um að við ættum endilega að rembast við að gefa þau einhverjum öðrum. Við getum gefið eitthvað af fiski kannski þeim sem sveltandi eru. Óvinir okkar eða þeir sem eru að berjast gegn okkur, þegar við erum að hagnýta okkar auðæfi ef þeir endilega þurfa af einhverri ástæðu --- ég hef sagt það við þá sjálfa oft og tíðum að þá gætum við frekar fiskað eitthvað handa þeim og gefið þeim í svanginn en að þeir fiski í okkar nafni, það kemur ekki til greina. Það gerir íslenska þjóðin aldrei, hún afsalar sér ekki fullveldi sínu og þetta er fullveldisrétturinn hreinlega. Það er tekið rækilega fram, eignarrétturinn á hafsbotninum er fullveldisréttur. Það er þess vegna afsal íslensks fullveldis ef það er haldið áfram einhvers konar samningagerð, hvort sem það er við Evrópumenn eða einhverja aðra, sem skerðir þessi réttindi.