Sveitarstjórnarlög

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 13:06:46 (8357)

     Kristinn H. Gunnarsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Það er alveg óþarft hjá forseta að fara í pólitískan skæting af forsetastóli og snúa út úr orðum mínum eða gera mér upp orð. Ég gerði ekki athugasemd við að 19. mál væri tekið fyrir. Ég tók ekki þátt í þeirri þingskapaumræðu sem hv. 5. þm. Austurl., 3. varaforseti þingsins, hóf og stóð í hartnær hálfa klukkustund, um það hvort á undan skyldi vera 20. mál eða 19. mál. Ég tók ekki þátt í þeirri þingskapaumræðu og blandaði mér ekkert inn í þær deilur. Niðurstaða forseta sem þá sat varð sú að verða við kröfum þingmannsins og varaforsetans um að taka 19. mál fyrir á undan 20. máli. Orð mín fyrr í þessari umræðu voru þau að ég teldi eðlilegast að halda áfram umræðu um málið fyrst slíkt ofurkapp var á það lagt af einum varaforseta þingsins, að það yrði hér rætt. Hvernig í ósköpunum má það vera, virðulegi forseti, að klukkan 12 þá er 19. mál svo mikilvægt að það kostar hálftíma þingsköp til að knýja það inn á dagskrá en klukkan eitt er það fokið út og umræðu frestað og liggur svo mikið við að menn eru nánast reknir niður úr ræðustól? Hvernig í dauðanum eiga þingmenn að átta sig á svona fundarstjórn, virðulegi forseti? Þetta hefði þótt léleg fundarstjórn, meira að segja í bæjarstjórninni í Bolungarvík ( Gripið fram í: Meira að segja.) og má þó ýmislegt um það segja sem ég blanda ekki inn í á þessum vettvangi frekar.
    Ég vil, virðulegi forseti, gera alvarlegar athugasemdir við það að umræðu um 19. dagskrármál sé frestað í ljósi þess aðdraganda sem var að því þegar umræðan hófst og ég geri athugasemdir við að umræðan sé fleyguð með því að taka inn stórt mál sem miklar umræður munu verða um. Þær munu standa lengi þær umræður. Menn skulu gera sér grein fyrir því. Ef menn ætla á annað borð að fara að hringla eitthvað til þá er nær að kíkja á einhver önnur mál sem eru vænlegri til þess að falla að þeirri stefnumörkun sem forseti Alþingis kvað upp úr að skyldi fylgja eftir í morgun, að taka þau mál á dagskrá og ræða sem líklegt væri að ekki yrðu miklar umræður um. Þessi stefnumörkun var mörkuð í morgun. Og er það þannig, virðulegur forseti, að stefnan er bara fyrir aðalforsetan og síðan er mismunandi stefna eftir því hver situr hverju sinni?