Atvinnuleysistryggingar

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 16:21:14 (8387)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Í þessari málsgrein 10. gr. er gert ráð fyrir því að breyta hinu bótalausa tímabili Atvinnuleysistryggingasjóðs. Það er ekki gert ráð fyrir að fella það niður heldur er stytting þess eða hugsanleg niðurfelling skilyrt með því að fólk geti sótt námskeið. Nú er það svo að á mörgum stöðum á landinu mun ekki verða kostur á því fyrir fólk að sækja námskeið og enginn hefur þá lagaskyldu samkvæmt málsgreininni að tryggja að námskeið verði í boði. Þess vegna teljum við að þetta sé ófullnægjandi breyting. En þó er það mildun frá gildandi lögum að nokkru leyti og þess vegna kjósum við að sitja hjá við atkvæðagreiðslu um þessa málsgrein. En ég endurtek það sem ég sagði í umræðum um málið í gærkvöldi, virðulegi forseti, að ég áskil mér rétt til þess að flytja við 3. umr. brtt. við þessa grein sem er á þessa leið:
    ,,Bótaréttur fellur ekki niður þegar hinn atvinnulausi getur ekki sótt námskeið.``