Aðild Alþingis að 50 ára afmæli lýðveldisins

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 19:50:13 (8422)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Það mál sem hér kemur til síðari umr. hefur verið alllengi til meðferðar í þessari virðulegu stofnun. Það var á síðasta þingi sem ég, ásamt hv. þm. Jóni Helgasyni og hv. þm. Kristínu Einarsdóttur, flutti tillögu um það að tekin yrði ákvörðun um hlut Alþingis í því að minnast 50 ára afmælis íslenska lýðveldisins. Þessi tillaga fékk ekki afgreiðslu á síðasta þingi og þess vegna var hún endurflutt núna sl. haust.
    Í tillögunni er gert ráð fyrir því að kosin verði nefnd hlutfallskosningu á Alþingi til þess að undirbúa þátt Alþingis í hátíðahöldunum vegna 50 ára afmælis lýðveldisins og þar er jafnframt gert ráð fyrir því að í tilefni af 50 ára afmælinu verði unnið af miklum krafti við að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins. Sú tillaga sem ég og þessir tveir hv. þm. fluttum í haust kom ekki til meðferðar hér í þinginu fyrr en lögð hafði verið fram tillaga frá hæstv. ríkisstjórn um að skipa sérstaka sex manna hátíðanefnd sem gert var ráð fyrir að yrði skipuð þannig að hæstv. forsrh. skipaði formann nefndarinnar og að auk þess yrðu tilnefndir fimm menn, einn frá hverjum þingflokki.
    Okkur var vissulega nokkur vandi á höndum og forsætisnefnd Alþingis kannski sérstaklega þegar fyrir lágu tvær tillögur af þessu tagi og þess vegna varð niðurstaðan sú að hvorugri tillögunni var vísað til nefndar, þó að það væri umdeilanlegt í sjálfu sér, heldur varð niðurstaðan sú að forsætisnefnd ákvað að fjalla um málið í samráði við flm. beggja tillagnanna. Niðurstaða forsætisnefndarinnar hefur svo orðið sú að gera þá brtt. við tillögu okkar þriggja að það verði í fyrsta lagi forsætisnefndin sem annist þennan hlut Alþingis í hátíðahöldunum, sem ég tel fullkomlega eðlilegt, en í annan stað verði ekki gert ráð fyrir því í samþykktinni sem slíkri að það verði tekið af skarið um eitt eða neitt í sambandi við stjórnarskrármálið sjálft.
    Nú verð ég að segja það fyrir mitt leyti að ég tel að stjórnarskrármálið standi heldur illa í þessari stofnun. Ég tel að við höfum staðið okkur heldur illa í því að tryggja það að við eignuðumst sæmilega nútímalega stjórnarskrá, ekki vegna þess að stjórnarskráin okkar sé vond heldur vegna þess að hún er auðvitað að stofni til frá 1874 og þær breytingar, sem voru gerðar á henni 1944, voru ekki mjög miklar. Þær breytingar, sem voru gerðar 1944 á stjórnarskránni, tengdust eingöngu lýðveldisstofnuninni, þ.e. forseta Íslands og stöðu forsetans þar sem kveðið er á um hana en áður var í sömu greinum fjallað um stöðu

Danakonungs gagnvart Íslandi. Af þeim ástæðum tel ég að það sé löngu orðið tímabært að Alþingi hristi af sér slyðruorðið í sambandi við stjórnarskrármálið, mannréttindaþætti stjórnarskrárinnar o.fl. og af þeim ástæðum hefur stjórnarskrárnefnd verið starfandi á vegum flokkanna má segja og forsrn. um áratuga skeið.
    Stjórnarskrárnefnd sú, sem laut forustu Gunnars Thoroddsens, fyrrv. hæstv. forsrh., skilaði í raun og veru mjög verulegu verki í þessum efnum og hann mælti sem formaður nefndarinnar og forsrh. fyrir frv. til nýrra stjórnskipunarlaga á þinginu 1982--1983, á síðasta þinginu sem hann sat. Þá var ljóst að í stjórnarskrármálinu eru nokkur pólitísk ágreiningsatriði sem flokkarnir þurfa að taka á og í framhaldi af umfjöllun málsins á löggjafarþinginu 1982--1983 var ákveðið að stjórnarskrárnefnd starfaði áfram og í þetta skipti undir forustu hv. 1. þm. Vestf., Matthíasar Bjarnasonar.
    Það hefur gjarnan verið þannig í tali manna á meðal að í raun og veru strandi þetta mál kannski á stjórnarskrárnefndinni sem slíkri. Ég er ekki viss um að það sé alveg rétt. Ég held að þetta mál strandi kannski fyrst og fremst á því að flokkarnir hafi ekki verið tilbúnir til þess að taka á þeim ágreiningsefnum sem uppi eru varðandi stjórnarskrá lýðveldisins og ég tel að í máli af þessu tagi beri að taka á því með þeim hætti að forustumenn flokkanna, helst formenn flokkanna og þingflokkanna, taki á þessum málum í samtölum sín á milli og geri það upp við sig hvernig yrði farið með málin, m.a. ágreiningsmálin og geri það upp við sig með hvaða hætti mál af þessu tagi yrði lagt fyrir þingið.
    Ég tel að sú reynsla, sem við höfum t.d. af samstarfi formanna flokkanna um breytingar á kosningalögum, þó að þau sé umdeild út af fyrir sig, sýni að það sé ekki óskynsamlegt að formenn flokkanna séu kallaðir til sérstaklega þegar um það er að ræða að breyta mikilvægum lögum eins og stjórnskipunarlögum landsins. Þess vegna vil ég láta það koma fram sem mína skoðun hér að ég tel að það sé brýnt í framhaldi af þessari umfjöllun að hæstv. forsrh. beiti sér fyrir því að formenn flokkanna og formenn þingflokkanna taki á þessu máli þannig að einhver lending megi fást í málið í tengslum við 50 ára afmæli lýðveldisins. Nú er ég ekki að segja að það geti gerst akkúrat á afmælinu úr því sem komið er því að tíminn er orðinn knappur. Sú tillaga, sem hér er til umræðu, var reyndar í upphafi skrifuð af mér snemma í desember 1991. Það gekk mjög treglega að fá hana hér til meðferðar af ýmsum ástæðum.
    En allt um það. Þó að þessi mál liggi svona, þá vil ég segja það fyrir mitt leyti að ég tel að eftir atvikum sé hér um ásættanlega og ágæta lausn á málinu að ræða, að forsætisnefnd standi fyrir þessum hátíðahöldum fyrir hönd Alþingis og að jafnframt skipi forsrh. nefnd með fulltrúum allra flokka undir forustu manns frá sér sem hafi með að gera hin almennu hátíðahöld vegna 50 ára afmælis lýðveldisins 17. júní 1994.