Frestun á fundum Alþingis

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 20:20:16 (8436)

     Steingrímur J. Sigfússon (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Það kemur mér á óvart að við þessar aðstæður nú á þessum fundi skuli eiga að taka fyrir till. til þál. um frestun á fundum Alþingis. Ég taldi að þinghefð væri fyrir því að þetta væri, ef ekki síðasta þá eitt af allra síðustu málum þingsins hverju sinni og ekki tekið fyrir gjarnan fyrr en á síðasta fundi, enda lægju þá fyrir ljósar lyktir á því þinghaldi þannig að þingfrestunartillagan væri rædd í ljósi þess að Alþingi hefði lokið eða væri í þann veginn að ljúka störfum og engin óvissa væri lengur uppi um það með hvaða hætti þinglokin yrðu, til að mynda hvaða mál hlytu afgreiðslu og hvaða mál ekki. Nú eru ekki þær aðstæður uppi enn og hvað sem formenn þingflokka kunna að hafa rætt um þetta mál snemma í morgun, þá leyfi ég mér að fara fram á það að þingfrestunartillagan verði ekki rædd nú á þessum fundi og ekki

tekin fyrir fyrr en mál hafa skýrst meira hvað þinglokin snertir. Þingfrestunartillaga kemur einungis til einnar umræðu og þar af leiðandi er sú umræða eina tækifærið sem þingmenn hafa til að ræða sjálfa þingfrestunina undir dagskrármáli. Það er að sjálfsögðu eðlilegra að sjónarmið sem uppi kunna að vera um þingfrestunina komi þannig fram heldur en að þau þurfi að eiga sér stað í þingskapaumræðum eða með einhverjum öðrum hætti. Í ljósi þess að enn er ekki hægt að ræða þessa tillögu í vissu um það hvernig þinglokin verða eða hvenær þau verða, þá fer ég fram á að hún verði ekki tekin fyrir að svo stöddu. Eða hvað hyggst hæstv. forsrh. segja okkur í sinni framsöguræðu um þinglokin? Getur hann til að mynda upplýst okkur um það nákvæmlega hvaða mál verði afgreidd og hvenær og klukkan hvað þinglausnir verði? Ég leyfi mér að efast um það og það held ég að sanni að ekki sé tímabært að taka þessa tillögu á dagskrá.