Frestun á fundum Alþingis

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 21:02:28 (8457)


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að tefja þessa umræðu mikið en ég vildi vekja athygli hæstv. forseta á því vegna þess sem hér hefur verið nefnd dagskrá næsta fundar, að þar væru í öllu falli þau mál sem lokið er umræðu um á þessum fundi, að svo háttar til hér að 20. dagskrármálið hefur ekki verið rætt hér. Það var tekið á dagskrá í hádeginu örstutt en ekki mælt fyrir því. Það er samkomulagsmál frá nefnd og ég vek athygli hæstv. forseta á því, hygg að það hafi raunar verið gert í morgun þegar sú stefna var mörkuð af hæstv. forseta að forgang hefðu mál sem væru samkomulagsmál. Ég beini því til hæstv. forseta hvort ekki væri rétt að taka það mál hér til umræðu og ljúka henni áður en þessum fundi verður slitið.