Frestun á fundum Alþingis

177. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 21:56:53 (8474)

     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Í lok síðasta fundar óskaði ég eftir því að við stjórnarandstöðuþingmenn fengjum að vita eitthvað um það hvernig framgangur mála yrði á þessum fundi en fékk því miður engin svör. Nú sýnist ljóst á niðurröðun dagskrár og því hvernig mál eru tekin fyrir að hér muni ekki eiga að halda langt niður dagskrá þessa fundar.
    Það er því ljóst að með því að greiða atkvæði með þessari þáltill. eru þingmenn stjórnarliðsins að greiða atkvæði með því að þau mál sem hér eru neðar, a.m.k. mörg hver og kannski öll, muni ekki ganga til atkvæða og ekki fá afgreiðslu hér á þingi. Það er þetta sem stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar eru að greiða atkvæði um þegar þeir greiða þessari þingfrestunartillögu atkvæði á þessari stundu.
    Mig furðar það eftir þær yfirlýsingar sem komið hafa fram, m.a. um 16. dagskrármálið og þann meiri hluta sem talið var af sumum stjórnarliðum að væri fyrir því máli að þannig skuli nú vera staðið að verki. Þeir ómerkja þannig öll sín orð sem þeir hafa sagt um þetta. Mig hryggir það mjög og við framsóknarmenn erum að sjálfsögðu sammála um að þessi vinnubrögð stjórnarliðsins nú eru með algjörum eindæmum og ég mun því eins og aðrir að sjálfsögðu greiða atkvæði gegn þessari tillögu og segi nei.