Röð mála á dagskrá

177. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 22:06:45 (8479)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég hélt að eitt af því sem Alþingi Íslendinga hefði lagt höfuðáherslu á við samningu nýrra þingskapa væri að það væri þingið sem tæki ákvörðun hvenær því væri slitið.
    Ef það er rétt að hægt er að halda áfram þingstörfum eins og ekkert hafi í skorist eftir samþykkt frestunartillögu, þá er í reynd verið að skila til forsrh. þingrofsvaldi hvenær sem hann vill, því að þá væri auðvitað skynsamlegast hjá hæstv. forsrh. að byrja á því í upphafi hvers þings að láta samþykkja svona heimild til þess að hann hefði valdið til að senda þingið heim. Þetta eru svo hættulegar leikreglur að sem

stuðningsmaður þess að þingið ráði hlýt ég að undirstrika það að ég skil ekki hvernig hæstv. ríkisstjórn og forseta þingsins dettur í hug að taka þessar leikreglur upp. Ég man aldrei eftir því á vorþingi, aldrei þann tíma sem ég hef setið að það hafi gerst að samþykkt væri tillaga um frestun Alþingis og svo dytti mönnum í hug að halda áfram. Sjá menn ekki hvað er að gerast ef þessi niðurstaða er? Það er í það minnsta alveg á hreinu að hv. 5. þm. Norðurl. v. gerði sér grein fyrir því hvaða hagræði væri að því að taka ákvörðun um það strax í janúar að forsrh. hefði slíka heimild í höndunum. Það er aldeilis fráleitt að svona vinnubrögð geti átt sér stað.
    Forseti hafði það að sjálfsögðu í hendi sér hvernig staðið var að dagskránni. Forseti hafði það að sjálfsögðu í hendi sér, ef forseti taldi að það ætti að afgreiða mál á þessum fundi, að afgreiða þau mál og láta svo greiða atkvæði. Og forseti vissi að það lá fyrir að auðvitað dettur engum heilvita manni það í hug að koma í veg fyrir það að ríkisstjórnarmeirihluti greiði atkvæði um það að þingi sé frestað. Menn greiða þá atkvæði á móti því. En að halda áfram þingi eftir að búið er að taka ákvörðun um að fresta því, það er furðulegur hlutur. Það er slíkt stílbrot að það er ekki hægt að una slíkum vinnubrögðum. Það er gjörsamlega vonlaust. Þeir sem vilja bera ábyrgð á því mega þá njóta vel, mega þá vissulega njóta vel.
    Ég skil ekki hvað þeir menn hugsa sem eru almennt stuðningsmenn þess að þingið ráði sínum málum sem styðja slík vinnubrögð.