Röð mála á dagskrá

177. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 22:10:18 (8480)

     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hefur komið fram hér að ég hef ekki orðið vitni að slíkum vinnubrögðum áður hér á Alþingi. Það er alveg með ólíkindum að samþykkt skuli tillaga um frestun Alþingis og síðan teknar upp umræður eins og ekkert hafi í skorist og stungið inn umræðumálum á undan atkvæðagreiðslum sem eru seinna á dagskránni. Það þarf ekki mjög glöggskyggnan mann til þess að sjá það að hér frá 8. dagskrármáli og fram að 16. dagskrármáli eru þau mál sem skipta máli að fá í gegn og það sem ríkisstjórnina skiptir mestu máli að fá í gegn og helstu áhugamálin. Því sem er þar fyrir aftan má sleppa. Ég hygg að ef hv. þm. athuga dagskrána þá sjái þeir hvers lags leikfléttur hér er verið að hafa í frammi. Og svo sannarlega er verið að fara í kringum, svo ég noti nú ekki sterkari orð, þingræðið í landinu. Að ef ágreiningsmál kemur upp í ríkisstjórninni þá taka menn ekki afleiðingum gerða sinna heldur fara í kringum þingræðið í landinu með þessum hætti ef það kemur á daginn hér á eftir að hér verður lesið upp forsetabréf eftir að 15. mál hefur hlotið afgreiðslu. Það verður fróðlegt að sjá hvað kemur í ljós á eftir. Athugið dagskrána, hv. þm.