Þingsköp Alþingis

2. fundur
Miðvikudaginn 19. ágúst 1992, kl. 14:54:15 (13)


     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég tel að það sé í raun og veru býsna mikilvæg varnarlína fyrir þingræðið sem við höfum í undirbúningsnefnd þessa frv. náð samkomulagi um enda þótt ég sé sammála þeim sjónarmiðum í öllum meginatriðum sem fram komu í máli hv. 4. þm. Austurl. og hv. 18. þm. Reykv. Staðreyndin er sú að allan sl. vetur voru hér mikil átök um skipan forsætisnefndarinnar og um vinnubrögð á Alþingi. Ein ástæða þess var sú að flokkarnir komust ekki allir að stjórn þingsins með þeim hætti sem við töldum þá eðlilegt. Nú hefur orðið samkomulag um skipan sem tryggir að allir flokkar, sem hér eiga fulltrúa núna, geti komist að forsætisnefndinni og í hana og það er aðalatriðið í mínum huga.
    Hins vegar er það svo að aðferðin við að koma nefndinni saman er umdeilanleg og mætti margt um segja. Ég bendi á að það er ekki verið að taka upp hlutfallskosningu með því frv. sem núna liggur fyrir heldur hefur hún áður verið í gildandi þingsköpum. Segja má að tillögur frv. sem hér um ræðir flokkist í þrennt:
    1. Breytingar á forsætisnefndinni þar sem verið er að ráða til lykta deilum sem um þau mál voru á síðasta þingi.
    2. Gert er ráð fyrir því að breyta tímasetningum að því er varðar takmarkanir í ýmsum umræðum ýmist til rýmkunar eða þrengingar.
    3. Þá er gert ráð fyrir því að ráðherrum verði gert að skila skýrslum eigi síðar en 10 vikum eftir að skýrslubeiðni kemur fram.
    Ég tel að um þetta eigi að geta náðst góð samstaða hér á hv. Alþingi og ég tel að það sé skynsamlegt að lenda málinu þannig og reyna síðan um leið að skapa sem víðtækasta varnarlínu fyrir þingræðið með þeirri afgreiðslu á breytingum á þingskapalögum sem hér er gerð tillaga um og þingflokkur Alþb. samþykkti fyrir sitt leyti að heimila mér að standa að. Ég gerði grein fyrir því í nefndinni sem undirbjó frv. að hv. 4. þm. Austurl. mundi lýsa sjónarmiðum sínum við þessar umræður svo sem hann hefur gert.
    Ég hef svo sem ekki fleira um þetta mál að segja, virðulegi forseti, en tek undir heillaóskir til forsetans. Ég segi að lokum: Auðvitað má margt um þessa þingskapadeilu segja sem staðið hefur í eitt ár eða rúmlega það. Ég tel hins vegar ekki við hæfi af minni hálfu að hefja þá umræðu hér á þessum degi.